Eldur, ís og mjúkur mosi

Fjölmenni var á opnun nýrrar listasýningar á gestastofunni Gíg í rjómablíðu í gær. Sýningarsalurinn er ekkert minna en stórbrotinn enda með útsýni yfir Mývatn. Listasýningin samanstendur af margskonar verkum sem öll tengjast náttúru Þingeyjarsveitar. Verkin eru gömul klassísk verk sem og ný verk eftir unga og upprennandi listamenn og er hluti af henni samstarfsverkefnið Eldur, ís og mjúkur mosi.

„Í listinni eru allir jafnir og á sýningunni Náttúra Þingeyjarsveitar er náttúran innblástur á einn eða annan hátt, allt frá því smáa til þess stórbrotna og yfir í það hversdagslega”, sagði Stefanía Eir Vignisdóttir, aðstoðarþjóðgarðsvörður á Norður hálendi við opnun sýningarinnar. Stefanía þakkaði öllum þeim sem deildu verkum sínum á listasýningunni á Gíg. Sérstakar þakkir færði hún leikskólanum Yl í Reykjahlíð. Eldri nemendur skólans túlkuðu Vindbelg hvert á sinn hátt og yngri nemendur bjuggu til steingervinga.

“Í vetur höfum við verið í samstarfsverkefni með Reykjahlíðarskóla, Náttúruminjasafni Íslands og listakonunni Brynhildi Kristinsdóttur. Hún er búin að koma í nokkur skipti í skólann og vinna verkefni með krökkunum sem fjallar um hálendið norðan Vatnajökuls. Það verkefni er hluti af verkefni á landsvísu sem heitir Eldur, ís og mjúkur mosi en eru skólar víðsvegar í nágrenni Vatnajökulsþjóðgarðs að taka þátt í því“, sagði Stefanía. Geimfarar vöktu greinilega áhuga barnanna í fræðslu um hálendið eins og sést á listaverkunum, þar má finna fjöldan allan af geimförum og geim bílum. Verkin verða til sýnis á Barnamenningarhátíð í sýningarrými Náttúruminjasafnsins á 2. hæð í Perlunni þann 23.-28. apríl og koma að því loknu aftur á Gíg þar sem gestir getið notið verkanna út sumarið.

Verkefnið Eldur, ís og mjúkur mosi fékk styrk úr barnamenningarsjóði á síðasta ári. Í verkefninu vinna börn í nágrenni Vatnajökulsþjóðgarðs fjölbreytt verkefni tengd listsköpun, náttúruvernd og þjóðgarðinum í allri sinni dýrð. Grunnskólabörn umhverfis garðinn skipuleggja m.a.fræðslugöngur eða viðburði í gestastofum, setja upp sýningar og skipuleggja málþing til að velta upp spurningum eins og „Hvað er náttúruvernd og hvernig getum við komið betur fram við náttúruna?“ Verkefnið fellur vel að markmiðum þjóðgarðsins um fræðslu til nærsamfélags og skóla. Einnig styrkir það listamenn í heimabyggð og skapar umræður og viðburði sem tengjast náttúruvernd.

Við hvetjum alla til þess að skoða þessi glæsilegu listaverk á gestastofunni Gíg.

Hér má sjá nokkrar myndir frá opnuninni.