Einbúavirkjun - Kynningarfundur

Skipulags- og umhverfisnefnd Þingeyjarsveitar boðar hér með til almenns kynningarfundar í Kiðagili fimmtudaginn 28. janúar n.k. kl. 16:00 þar sem kynntar verða tillögur að breytingu á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 og tillaga að nýju deiliskipulagi vegna fyrirhugaðrar Einbúavirkjunar í Skjálfandafljóti. Jafnframt verða kynntar forsendur tillagnanna og umhverfismat. Kynningin er haldinn skv. ákvæðum 2. mgr. 30. gr. og 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Tillögurnar gera ráð fyrir að fyrirhuguð virkjun verði 9,8 MW rennslisvirkjun í landi Kálfborgarár og Einbúa. Nýtt verður um 24,4 m fall á um það bil 2,6 km kafla fljótsins. Reistur verður þröskuldur þvert yfir Skjálfandafljót og vatni veitt úr Skjálfandafljóti um 1,3 km langan aðrennslisskurð að stöðvarinntaki. Stöðvarhús verður reist skammt neðan við inntakið og þaðan verður frárennsli veitt um 1,3 km langan veg út í Skjálfandafljót til móts við bæinn Einbúa, um 800 m neðan við ármótin við Kálfborgará. Veituskurðir og stöðvarhús munu liggja á mörkum hraunsins og túns í landi Kálfborgarár, en einnig á mótum hrauns og mólendis eða graslendis þar sem túnum sleppir.

Fulltrúar frá Einbúavirkjunar ehf. og Verkís verkfræðistofu munu kynna skipulagstillögurnar og sitja fyrir svörum.

 

Farið verður að sóttvarnarreglum á staðnum með 20 manna hámarksfjölda. Þeir sem hafa áhuga á að koma á kynninguna eru beðnir um að staðfesta þátttöku með því að senda póst á netfang skipulagsfulltrúa, atli@skutustadahreppur.is eða hringja í 4646664.

Kynningunni verður varpað á vef Þingeyjarsveitar á Facebook

 

Tillögurnar verða aðgengilegar fyrir fundinn á heimasíðu Þingeyjarsveitar á eftirfarandi vefslóð: https://www.thingeyjarsveit.is/is/stjornsysla/skipulagsmal/skipulagsauglysingar

 

Skipulags- og umhverfisnefnd Þingeyjarsveitar