Byggðastofnun sækir Þingeyjarsveit heim

Í byrjun vikunnar heimsótti starfsfólk Byggðastofnunar Þingeyjarsveit heim. Þau Arnar Már Elíasson forstjóri, Hrund Pétursdóttir , forstöðumaður fyrirtækjasviðs og Sigríður Elín Þórðardóttir,  forstöðumaður þróunarsviðs hittu byggðarráð Þingeyjarsveitar og  sveitarstjóra í Breiðumýri. 

Hlutverk Byggðastofnunar er að efla byggð og atvinnulíf með sérstakri áherslu á jöfnun tækifæra allra landsmanna til atvinnu og búsetu. Þau heimsækja nú öll sveitarfélögin á starfssvæði stofnunarinnar (landið allt utan höfuðborgarsvæðisins) til þess að ná samtali við stjórnendur þeirra um þau verkfæri sem stofnunin hefur til taks til að sinna þessu hlutverki.

Ýmis málefni voru rædd í Breiðumýri, þar á meðal lokanir pósthúsa og dreifing héraðsfréttamiðla, almenningssamgöngur, aðkoma Byggðastofnunar að eignarhaldsfélögum í landsbyggðunum, erfiðleikar í landbúnaði, auknar og íþyngjandi kröfur hins opinbera í ýmsum málaflokkum, áhrif loftslagsbreytinga, ferðaþjónusta og vitanlega óstaðbundin störf svo eitthvað sé nefnt. Allt eru þetta mikilvæg mál fyrir sveitarfélagið. 

Við þökkum Byggðastofnun kærlega fyrir komuna.