Bréf til íbúa Þingeyjarsveitar

Kæru íbúar. Nú hefur árið 2019 runnið sitt skeið og framundan er árið 2020. Vonandi áttuð þið öll góðar stundir yfir hátíðirnar og hafið getað notið veðurblíðunnar sem var kærkomin eftir stormasama daga.

Vaðlaheiðargöng

Nýliðið ár byrjaði vel en þann 12. janúar voru Vaðlaheiðargöng formlega opnuð með mikilli viðhöfn enda búið að bíða lengi eftir þessari stóru samgöngubót sem hefur aukið öryggi og lífsgæði okkar hér í Þingeyjarsveit. Vaðlaheiðargöng hafa haft mjög jákvæð áhrif í okkar samfélagi og íbúar hafa óspart lýst ánægu sinni með þau.

Leigufélag Þingeyjarsveitar hses.

Í apríl samþykkti sveitarstjórn að stofna húsnæðissjálfseignarstofnun, Leigufélag Þingeyjarsveitar hses. Tilgangur félagsins er að byggja eða kaupa, eiga og hafa umsjón með rekstri og viðhaldi almennra íbúða. Sótt var um stofnframlag til Íbúðalánasjóðs á sama tíma til byggingar á tveimur íbúðum og til kaupa á einni íbúð í nýbyggingu. Íbúðalánasjóður samþykkti umsóknina og munu framkvæmdir hefjast á þessu ári. Markmiðið er að auka framboð leiguíbúða í sveitarfélaginu.

Sameining og Nýsköpun í norðri

Stórt skref var stígið þegar ákvörðun var tekin þann 13. júní um að fara í formlegar sameiningarviðræður við Skútustaðahrepp en við höfum átt í afar farsælu samstarfi við nágranna okkar undanfarin ár. Í framhaldinu hófst undirbúningsvinna að ferlinu en meginþungi þessarar vinnu fer fram á þessu ári og stefnt er að kosningu um tillögu samstarfsnefndar um sameiningu 27. mars 2021. Samhliða sameiningarviðræðum fengu sveitarfélögun styrk frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að fara í þróunarverkefni um nýsköpun í atvinnumálum sem ber heitið Nýsköpun í norðri. Ég hvet ykkur til þess að skoða heimasíðuna www.thingeyingur.is sem fór í loftið rétt fyrir jól en þar er að finna helstu upplýsingar fyrir íbúa sveitarfélaganna og aðra áhugasama um sameiningarferlið og Nýsköpun í norðri.

Leikskólinn Barnaborg

Það var einstaklega ánægjulegt þegar við opnuðum nýja og glæsilega aðstöðu Leikskólans Barnaborgar á neðri hæð Þingeyjarskóla nú í haust. Um er að ræða stærstu framkvæmdina sem sveitarfélagið fór í á liðnu ári en gert er ráð plássi fyrir allt að 35 börn í nýju aðstöðunni. Framkvæmdin er einkar vel heppnuð og aðstaða fyrir börn og starfsfólk til fyrirmyndar.

Goðafoss

Framkvæmdum við Goðafoss lauk formlega s.l. haust en þó er smá frágangsvinna eftir sem við áætlum að ljúka sem fyrst á þessu ári. Samið var við Umhverfisstofnun um landvörslu og snjómokstur umhverfis fossinn fram til áramóta en við reiknum með framhaldi á því eftir áramótin. Goðafoss er nú í friðlýsingarferli en þar er gert ráð fyrir að Umhverfisstofnun sjái um landvörslu og rekstur svæðisins í framtíðinni.

Óveður í desember

Veðurofsinn sem gekk yfir landið nú í desember fór varla fram hjá neinum og afleiðingar hans minntu okkur á hversu vanmáttug við erum gagnvart náttúruöflunum en vöktu einnig upp spurningar um innviði og öryggi. Rafmagnsleysi er eflaust eitthvað sem við öll höfum upplifað en kannski ekki í svo langan tíma eins og raunin varð, í það minnsta ekki í seinni tíð. Í kjölfar þess að rafmagnslaust var sólarhringum saman fór að kólna í húsum, þar sem ekki er hitaveita og fjarskipti duttu út. Þá lá Tetra-kerfið, sem er samskiptanet almannavarna og viðbragðsaðila, niðri að hluta sem er mjög alvarlegt mál. Að vera rafmagnslaus í marga sólarhringa í köldu húsi með engin fjarskipti og kolvitlaust veður veldur miklu óöryggi og óvissu. Sveitarstjórn fjallaði um þessi mál á síðasta fundi sínum nú fyrir jól og kallað hefur verið eftir fundi með stjórnendum Landsnets, RARIK og fjarskiptafyrirtækja til þess að fara yfir þessi mál en einnig munum við skoða ofan í kjölinn þau atriði sem snúa að sveitarfélaginu, hvort og hvar okkar ábyrgð liggur.

Snjóflóð í Ljósavatnsskarði

Snjóflóð féll í Ljósavatnsskarði að kvöldi 19. desember og mikil mildi að enginn skyldi slasast eins og umferðin er á þessum þjóðvegi 1. Í kjölfarið lokaðist vegurinn og var lokaður meira og minna í þrjá sólarhringa vegna snjóflóðahættu og ófærðar. Þar komum við enn og aftur að öryggi því þar með lokast aðgangur íbúa austan skarðs að sjúkrahúsinu á Akureyri en þetta er eina leiðin til Akureyrar frá austri. Ég var í sambandi við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra, Höllu Bergþóru, eftir að snjóflóðið féll en lögreglan og Vegagerðin bera ábyrgð á vegum og hafa frumkvæði að því að fá ráðgjöf hjá snjóflóðavakt Veðurstofunnar og óska eftir snjóflóðaeftirliti. Í framhaldi af símtali við lögreglustjóra ákváðum við að senda báðar frá okkur erindi til snjóflóðavaktar Veðurstofu Íslands og til Vegagerðarinnar þar sem við förum fram á að reglubundinni snjóflóðavakt verði komið á í Ljósavatnsskarði sem og að hjáleið verði tryggð. Einnig mun almannavarnarnefnd senda inn erindi og fylgja þessu eftir. Mjög mikilvægt að fá meiri þunga í umræðuna til þess að beiðni um snjóflóðeftirlit á þessu svæði verði tekin alvarlega en áður hef ég sent erindi hvað þetta varðar til snjóflóðavaktar Veðurstofunnar.

Björgunarsveitin Þingey, Hjálparsveit skáta í Aðaldal og Hjálparsveit skáta í Reykjadal höfðu í mörgu að snúast í illviðrinu sem og eftir að því lauk og eiga miklar þakkir skildar. Björgunarsveitarliðar vinna óeigingjarnt starf og mikilvægt er að hafa svo öfluga aðila í okkar samfélagi, vil ég þakka þeim sérstaklega. Einnig sýndu íbúar mikla þolinmæði og skilning á því ástandi sem skapaðist og er það þakkarvert.

Fjárhagsáætlun 2020

Í byrjun desember afgreiddi sveitarstjórn fjárhagsáætlun 2020-2023. Helstu fjárfestingar á árinu eru gatnagerð vegna nýbygginga og endurbætur á eldhúsi í Stórutjarnaskóla. Einnig er fyrirhugaður flutningur skrifstofu sveitarfélagsins í Seiglu að því gefnu að samningar náist um að heilsugæsla og aukin þjónusta við íbúa komi í núverandi húsnæði skrifstofunnar í Kjarna en viðræður um þau mál eru á frumstigi. Áfram verður boðið upp á fríar máltíðir fyrir nemendur í grunn- og leikskólum sveitarfélagsins sem og frí námsgögn.  

Skrifstofa og starfsmannamál

Helstu breytingar á starfsmannahaldi á skrifstofu sveitarfélagsins eru að Jónas H. Friðriksson sem var í ársleyfi sagði upp störfum og mun því ekki snúa aftur til starfa og Elfa B. Kristjánsdóttir hefur verið í veikindaleyfi.

Valdís Stefánsdóttir mun hefja störf sem launafulltrúi í byrjun árs en hún mun einnig sinna ýmsum öðrum skrifstofustörfum.

Verið er að ganga frá ráðningu verkefnastjóri sem mun hefja störf á nýju ári og munum við tilkynna hana á heimasíðu sveitarfélagsins þegar hún liggur fyrir.

Þá verður gengið til samninga við Helgu Sveinbjörnsdóttur, sem hefur sinnt starfi byggingafulltrúa síðast liðið ár, um áframhaldandi starf.

Ég vil vekja athygli á heimasíðu sveitarfélagsins www.thingeyjarsveit.is en þar birtast fréttir og tilkynningar um það sem viðkemur sveitarfélaginu og einnig er því deilt á Facebook-síðu sveitarfélagsins og mikilvægt að „líka “ við síðuna svo þið getið fylgst sem best með.

Ég vil að lokum þakka fyrir samstarf og samskipti á liðnu ári, óska ykkur öllum gæfu og gleði með von um að komandi ár verði okkur heillaríkt. Gleðilegt nýtt ár!

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar.