Bréf til íbúa Þingeyjarsveitar

Kæru íbúar.

Sumarið er á enda og haustið gengið í garð. Með þessu bréfi langar mig til  að upplýsa ykkur um eitt og annað sem hefur verið í gangi og framundan er hjá okkur í sveitarfélaginu.

Ljósleiðarinn

Lagning ljósleiðara í sveitarfélaginu er komin vel á veg en í framhaldi af útboði sem fram fór fyrr á árinu var gengið til samninga við Tengi hf. um verkefnið. Tilboð Tengis hf. hljóðaði upp á 180 m.kr. og munu þeir eiga og reka ljósleiðarakerfið. Fjórir íbúafundir voru haldnir í vor þar sem verkefnið var kynnt. Um er að ræða þrjá áfanga á næstu þremur árum og samkvæmt því verður búið að ljósleiðaravæða sveitarfélagið fyrir lok árs 2018. Alls eru þetta um 250 tengingar sem skilgreindar eru utan markaðssvæða og greiðir hver íbúi 200 þ.kr. (án VSK) fyrir tenginguna inn í hús. Sveitarfélagið sótti um styrk úr Fjarskiptasjóði fyrir fyrsta áfanga verkefnisins og fengum við 73,5 m.kr. Við munum svo sækja um á næsta ári fyrir annan áfanga. Framkvæmdir ganga afar vel, verið er að plægja niður stofnstrenginn fyrir þær 150 tengingar sem tilheyra fyrsta áfanga og nú þegar er um 80% af plægingu þess áfanga lokið. Þátttaka íbúa hefur verið mjög góð enda er hér um tímamótaverkefni að ræða sem mun hafa afar jákvæð áhrif hvað varðar lífsgæði og búsetuskilyrði í okkar sveitarfélagi.

Sorpmál

Breytingar voru boðaðar í sorphirðu á síðasta ári. Í ársbyrjun voru sendir út kynningarbæklingar til íbúa og í framhaldinu haldnir fjórir íbúafundir og verkefnið kynnt. Stefnt var að því að tunnum yrði dreift á heimili í júní en þar sem afgreiðsla á sorptunnum frá framleiðanda, til Gámaþjónustunnar seinkaði, dróst tunnudreifingin um tvo mánuði. Reiknað er með að sorptunnur verði komnar á öll heimili í lok þessarar viku og sorphreinsun hefjist 20. og 21. september í Reykjadal, Aðaldal og nágrenni en 27. og 28. september í Kinn, Bárðardal, Fnjóskadal og nágrenni. Í framhaldinu verður gefið út sorphirðudagatal sem segir til um hvaða daga tunnur á hverju svæði verða tæmdar. Við stefnum svo á að fækka opnum gámasvæðum en höldum nokkrum eftir til þess að þjónusta íbúa þar til gámavöllurinn okkar verður tilbúinn. Reiknað er með að taka gámavöllinn í notkun fyrir áramót. Þetta mun ég auglýsa sérstaklega þegar þar að kemur.

Mig lagnar að þakka ykkur fyrir jákvæð viðbrögð og sérstaklega ánægjulegt að heyra og sjá hvað þið eruð tilbúin að takast á við þetta verkefni. Ég minni á að um þróunarverkefni er að ræða sem getur tekið breytingum á verkefnatímanum og allar ábendingar eru vel þegnar. Einnig munum við á skrifstofunni veita allar frekari upplýsingar og vera ykkur til leiðbeiningar í þessu mikilvæga verkefni þar sem þið íbúar gegnið lykilhlutverki.  

Útsvar

Nú á haustdögum var Þingeyjarsveit í fyrsta skipti boðið að taka þátt í hinum sívinsæla spurningaleik Útsvari á RÚV. Við verðum að sjálfsögðu með og munum senda einvalalið fyrir hönd sveitarfélagsins. Liðið skipa þau Sigurbjörn Árni Arngrímsson, skólameistari, Hanna Sigrún Helgadóttir, kennari og Þorgrímur Daníelsson, sóknarprestur. Ég óska þeim góðs gengis, hlakka til að fylgjast með þeim keppa fyrir okkar hönd og efast ekki um að þau eigi eftir að verða okkur til mikils sóma.   

Viðtalstímar

Ég og oddviti áætlum að bjóða uppá viðtalstíma víðsvegar um sveitarfélagið nú fyrir áramótin. Ég mun auglýsa þá viðtalstíma sérstaklega hverju sinni og ég hvet ykkur til að nýta þessa tíma, koma ykkar sjónarmiðum á framfæri sem og upplýsa okkur um eitt og annað.

Starfsmannamál

Töluverðar breytingar hafa átt sér stað í starfsmannamálum á skrifstofu sveitarfélagsins. Gísli Sigurðsson hóf störf sem skrifstofustjóri þann 1. júní s.l. og tók við af Gerði Sigtryggsdóttur. Jónas Halldór Friðriksson hóf störf sem umsjónarmaður fasteigna og framkvæmda þann 1. júlí s.l. og tók við af Ingólfi Péturssyni.

Íris Bjarnadóttir hóf störf sem forstöðumaður sundlaugarinnar á Laugum þann 1. september s.l. og tók við af Elínu Eydísi Friðriksdóttur.

Ég býð Gísla, Jónas og Írisi velkomin til starfa og þakka um leið Gerði, Ingólfi og Elínu fyrir gott samstarf.

Hér hef ég rétt tæpt á nokkrum málum sem vonandi hefur gefið ykkur innsýn í hluta af þeim verkefnum sem við erum að fást við. Ég óska ykkur alls hins besta, njótið haustsins og vona ég að veturinn verði ykkur mildur og góður.

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.