Ársreikningur Þingeyjarsveitar 2020

Á fundi sveitarstjórnar þann 6. maí s.l. var ársreikningur sveitarfélagsins 2020 tekinn til fyrri umræðu. Þorsteinn Þorsteinsson frá KPMG, endurskoðandi sveitarfélagsins, mætti til fundarins og fór yfir reikninginn.

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins í A og B hluta var neikvæð sem nam 61,8 millj. kr. og rekstrarniðurstaða A hluta var neikvæð sem nam 55,1 millj. kr. Samkvæmt fjárhagsáætlun 2020 með viðaukum var gert ráð fyrir 19 millj. kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu A og B hluta. Frávikið er því 42,8 millj. kr. sem skýrist að hluta af lægri tekjum en áætlað var.

Rekstrartekjur á árinu námu 1.222,6 millj. kr. samkvæmt samanteknum ársreikningi fyrir A og B hluta, en þar af námu rekstrartekjur A hluta 1.185,1 millj. kr. Samkvæmt fjárhagsáætlun 2020 með viðaukum var gert ráð fyrir rekstrartekjum sem næmu 1.271,2 millj. kr. í A og B hluta. Rekstrartekjur eru því 48,6 millj. kr. lægri en áætlun gerði ráð fyrir eða sem nemur 3,8%.

Rekstrargjöld A og B hluta, þ.e. laun og launatengd gjöld og annar rekstrarkostnaður námu 1.212,4 millj.kr. á árinu. Samkvæmt fjárhagsáætlun með viðaukum var gert ráð fyrir rekstrargjöldum sem næmu 1.214,8 millj.kr. Laun- og launatengd gjöld námu 751,3 millj. kr. sem er 40,9 millj. kr. hærra en áætlun gerði ráð fyrir en á móti er annar rekstrarkostnaður 43,3 millj. kr. lægri.

Samkvæmt sjóðsstreymisyfirliti ársins 2020 nam veltufé til rekstrar 7,9 millj. kr. og handbært fé til rekstrar 24,8 millj. kr. Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum nam 43,4 millj.kr. á árinu.

Eigið fé í árslok nam 291,7 millj. kr. fyrir A og B hluta samanborið við 353,5 millj.kr. árið áður.

Eiginfjárhlutfall nemur 30,8% í árslok. Skuldahlutfall sveitarfélagsins hækkar, er 53,5% í A og B hluta í árslok 2020 en var 49,2% í árslok 2019.

Sveitarstjórn þakkaði Þorsteini fyrir greinargóða yfirferð og  þakkaði einnig öllu starfsfólki sveitarfélagsins fyrir góð störf við krefjandi aðstæður á árinu 2020, af völdum Covid-19.

Seinni umræða ársreiknings fer fram 20. maí n.k.