Ársreikningur Þingeyjarsveitar 2019

Á fundi sveitarstjórnar þann 28. maí s.l. var ársreikningur sveitarfélagsins 2019 tekinn til fyrri umræðu. Þorsteinn Þorsteinsson frá KPMG, endurskoðandi sveitarfélagsins, mætti til fundarins og fór yfir reikninginn.

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt rekstrarreikningi ársins 2019 var jákvæð um 13,2 millj.kr. fyrir A og B hluta og jákvæð um 4,8 millj.kr. í A hluta. Samkvæmt fjárhagsáætlun 2019 með viðaukum var gert ráð fyrir 7,1 millj.kr. jákvæðri rekstrarniðurstöðu A og B hluta.

Rekstrartekjur A og B hluta námu 1.201,6 millj.kr. á árinu samanborið við 1,125,3 millj. kr. árið áður sem er hækkun um 6,8% milli ára.

Rekstrargjöld A og B hluta, þ.e. laun og launatengd gjöld og annar rekstrarkostnaður námu 1.121,2 millj.kr. á árinu 2019 samanborið við 1.026,0 millj.kr. árið áður sem er hækkun um 9,2% milli ára.

Samkvæmt sjóðsstreymisyfirliti ársins 2019 nam veltufé frá rekstri 40,9 millj.kr. á árinu samanborið við 83,4 millj.kr. á fyrra ári. Handbært fé frá rekstri nam 30,6 millj.kr. á árinu samanborið við 113 millj.kr. á fyrra ári. Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum nam 114,9 millj.kr. á árinu.

Eigið fé nam 353,5 millj. kr. í árslok samanborið við 339,3 millj.kr. árið áður.

Eiginfjárhlutfall nemur 37,4% í árslok. Skuldaviðmið sveitarfélagsins hækkar aðeins, er 39,1% í A og B hluta í árslok 2019 en var 37,9% í árslok 2018.

Heilt yfir eru málaflokkar samkvæmt áætlun en helstu frávik eru í fræðslumálum sem fóru 3% framúr áætlun og í umferðar- og samgöngumálum en þar fór snjómokstur um 10 milljónir framúr áætlun. Seinni umræðu ársreiknings fer fram á næsta fundi sveitarstjórnar þann 11. júní n.k.