Fara í efni

Aldeyjarfoss – deiliskipulag – kynningarfundur

Skipulagsnefnd Þingeyjarsveitar hefur samþykkt að kynna vinnslutillögu fyrir deiliskipulag ferðamannasvæðisins við Aldeyjarfoss, Ingvarafoss og Hrafnabjargafoss í Skjálfandafljóti.

Tillagan verður kynnt á opnum fundi í Kiðagili í Bárðardal þann 14. október nk. Kl 16:30. Íbúar, ferðaþjónustuaðilar og fulltrúar náttúruverndarsamtaka eru hvattir til að mæta til að kynna sér málið og taka þátt í umræðum. Gögnin eru aðgengileg á skipulagsgátt, mál nr. 105/2025 og er tekið við umsögnum og athugasemdum til 4. nóvember n.k.

Deiliskipulag ferðamannasvæðisins við Aldeyjarfoss, Ingvarafoss og Hrafnabjargafoss í Skjálfandafljóti verður áætlun um uppbyggingu áfangastaða fyrir ferðamenn. Í deiliskipulaginu verður mörkuð heimild til framkvæmda við gerð gönguleiða, endurhönnunar bílastæða, salernisaðstöðu, útsýnispalla og öryggisaðgerða með bættu aðgengi. Skipulagið markar einnig vernd umhverfisins í kring og kemur í veg fyrir skemmdir á landi vegna átroðnings og hentistígamyndunar sem geta leitt til jarðvegsrofs og utanvegaaksturs.

Skipulagssvæðið nær til Aldeyjarfoss, upp með Skjálfandafljóti og upp fyrir Hrafnabjargarfoss. Gönguleiðir og vegir beggja vegna árinnar eru innan skipulagssvæðisins eins og nauðsynlegt telst til að gefa heildræna mynd af aðkomu, aðgengi, uppbyggingu og verndun svæðisins.

Getum við bætt efni þessarar síðu?