Tilkynning til íbúa Þingeyjarsveitar vegna samkomubanns og takmörkunar á skólastarfi

Í kjölfar samkomubanns og takmörkunar á skólahaldi vegna COVID-19 hafa stjórnendur og starfsfólk Þingeyjarsveitar tekið höndum saman og brugðist við en ljóst er að ýmis þjónusta og starfsemi sveitarfélagsins verður með breyttu sniði næstu vikurnar vegna þessa.

Ég vil þakka stjórnendum og starfsfólki sérstaklega fyrir snör viðbrögð og góða vinnu sem unnin hefur verið á stuttum tíma og ánægjulegt að finna samheldni og vilja ykkar til þess að bregðast sem best við í þessum sérstöku aðstæðum. Allt er þetta liður í því að minnka útbreiðslu veirunnar COVID-19 og því mikilvægt að fara í einu og öllu eftir tilmælum yfirvalda.

Eftirfarandi ákvarðanir hafa verið teknar hjá okkur, en vert er að hafa í huga að margt getur breyst og breytingar verða tilkynntar jafnóðum hér á heimasíðunni sem og með tilkynningum frá hverri stofnun fyrir sig, til að mynda skólunum.

 

Skólar

Skólastjórnendur og starfsfólk grunn- leik- og tónlistadeilda hafa lagt fram breytt skipulag skólastarfs sem tekur gildi þriðjudaginn 17. mars.

Helstu áhersluatriði um breytt skólastarf í grunn- tónlista- og leikskóladeild Stórutjarnaskóla eru eftirfarandi:

  • Við leggjum áherslu á að halda skólastarfinu í sem venjulegustum skorðum en verðum þó að gera ákveðnar óhjákvæmilegar breytingar vegna tilmæla frá yfirvöldum.
  •  Foreldrum, sem eiga börn eða aðra á heimilinu sem eru með undirliggjandi sjúkdóma eða annan heilsubrest og því sérstaklega viðkvæm fyrir Covid-19 veirunni er bent á að það er þeirra að taka ákvörðun um að halda nemendum heima ef þeim sýnist svo.  Í slíkum tilfellum fá nemendur verkefni og eftirfylgd frá skólanum og þetta skoðast ekki sem fjarvistir. 
  •  Íþróttakennsla fer fram úti og nemendur þurfa því ekki að hafa með sér sérstök íþróttaföt.  Mikilvægt er að nemendur mæti vel búnir til útiveru, t.d. með góða skó og utanyfirföt.
  • Sé nemandi með kvef eða önnur pestareinkenni eru foreldrar beðnir um að halda honum heima 
  •  Skólaakstur verður með óbreyttum hætti, þó þurfum við að hafa strangari reglur í bílunum.  Skólabílstjórar þrífa og sótthreinsa bílana milli ferða og raða nemendum í sæti eftir ákveðnum reglum. - Foreldrum er heimilt að aka börnum sínum sjálfir í skólann ef þeim sýnist svo.
  •  Skipulag skóladagsins mun eitthvað breytast, tímasetningar matartíma o.fl.  Það er gert til að geta aðskilið nemendahópa sem ákveðin krafa er uppi um frá yfirvöldum.
  •  Í skólanum verða sérstök aukaþrif og sótthreinsanir og þar verða börnin látin sápuþvo hendur sínar í tengslum við máltíðir o.fl.
  •  Við óskum eftir að foreldrar láti börn sín þvo sér vel með sápu um hendur áður en þau fara í skólabílinn.  Einnig óskum við eftir að börnin skipti um föt reglulega, helst daglega.
  •  Til að minnka smitlíkur óskum við eftir að foreldrar og börn verði sem minnst á ferðinni meðan þetta ástand varir (16. mars - 13. apríl) og reyni að umgangast fyrst og fremst þann hóp sem menn eru almennt í daglegum samskiptum við.
  •  Skóla mun ljúka kl 15:00 þannig að nemendur koma 20 mín. fyrr heim en venjulega fram að páskafríinu.  Það á við um leikskólann líka.
  • Við biðjum foreldra um að vera vakandi yfir tölvupóstum og heimasíðu skólans næstu dagana því líklegt er að við þurfum að senda frá okkur fleiri upplýsingar fljótlega.

 

Helstu áhersluatriði um breytt skólastarf í grunn- og tónlistadeild Þingeyjarskóla eru eftirfarandi:

  • Skóli verður frá kl. 8:15 – 12:00
  • Nemendum ekið heim fyrir hádegisverð (fá ekki hádegisverð í skóla)
  • Nemendur fá morgunverð í skólanum á mismunandi tímum og í þeim hópum sem tilheyra heimastofum þeirra.
  • Til að fylgja eftir takmörkunum um hámark 20 nemendum í hópi og á svæðum verður nemendum skipt upp í 5 hópa. 1. – 2. bekkur, 3. – 4. bekkur, 5. bekkur, 6. – 7. bekkur og 8. – 10. bekkur.
  • Hver nemendahópur hefur sína heimastofu.
  • Verkgreinastofur verða lokaðar.
  • Íþróttasalir og sundlaug lokuð.
  • Frímínútur skipulagðar þannig að hópar skarist ekki.
  • List- og verkgreinakennsla fellur niður en kennarateymi hvers hóps fyrir sig hvött til að skipuleggja skapandi vinnu með nemendum á heimasvæði eftir því sem aðstæður leyfa.
  • Íþrótta- og sundkennsla fellur niður en kennarateymi hvers hóps fyrir sig skipuleggur hreyfingu og útiveru með tilliti til annarra hópa. Þ.e. að ekki verði um skörun hópa að ræða.
  • Endurröðun húsgagna á svæðum til að minnka nánd og snertingu.
  • Foreldrum er heimilt að óska eftir því að barn þeirra stundi nám heimafyrir með stuðningi kennara. Koma þarf upp heimastundatöflu og heimapakka. Ef til þessa kemur þarf að láta umsjónakennara vita.
  • Salernum skólans skipt upp á milli mismunandi hópa.
  • Skólaakstur helst óbreyttur á eftirfarandi forsendum. Val er um það hvort börn foreldra eða systkina sem eru í áhættuhópi eru keyrð á einkabílum/af aðstandendum. Börnum í skólabíl er raðað þannig að systkini sitja hlið við hlið og aðrir sitja með einhverja fjarlægð á milli. Við komu í skólann skal þess gætt að skólabílar séu ekki hleypa nemendum út á sama tíma.
  • Kennari tekur á móti nemendum í heimastofu í upphafi dags þannig að ekki myndist skörun fyrir framan kennslustofur.
  • Ekkert samstarf við Framhaldsskólann á Laugum á þessu tímabili.
  • Ráðleggingum um þrif og sóttvarnir fylgt í hvívetna.

 

Helstu áhersluatriði um breytt skólastarf í leikskóladeildum Þingeyjarskóla eru eftirfarandi:

  • Leikskólinn Barnaborg verður opinn alla virka daga frá 8:00 – 14:30
  • Börnunum verður skipt í tvo alveg aðskilda hópa; systkini verða á sama svæði.  
  • Það sem eftir er af vinnutíma starfsfólks fer í þrif og sótthreinsun. Leikskólastarfið er einnig mun viðkvæmara fyrir forföllum starfsfólks svo meiri líkur eru á að a.m.k. „önnur deildin“ gæti lokast með litlum fyrirvara. 
  • Samkvæmt tilmælum mun móttaka og brottför barna að einhverju leyti fara fram undir beru lofti. Sérstaklega í upphafi og lok dags. Hægt er  að hringja inn í leikskólann og biðja starfsfólk að koma út. Leikskólagarðurinn er lítill, við þurfum einnig að gæta að því að ekki séu of margir á sama tíma þar.
  • Ekki er í boði að koma með börnin inn í leikskólann í gegnum húsnæði grunnskólans. 
  • Annar barnahópurinn hefur til umráða suðurinngang leikskólans og gula svæði. Foreldrar barna á gula svæði skulu koma með börnin að suðurinngangi, þar sem starfsfólk tekur á móti þeim. Þar verður handfrjálsi heimasíminn: 464 - 3590 
  • Hinn hópurinn hefur græna svæði til umráða auk forstofu. Foreldrar/systkini þeirra barna skulu koma með barnið að bíslagi utan við forstofudyr þar sem starfsfólk tekur á móti börnunum. Þar verður farsími leikskólans: 862 -6483. 
  • Barnahóparnir munu matast niðri á sínum svæðum. Við förum ekki í Ýdali og tónlistarstofu.
  • Tónlistarkennari og íþróttakennari koma ekki til okkar. Starfsfólk mun hins vegar nýta þekkingu sína og bjóða upp á tónlistar- og leikfimitíma þegar tækifæri gefast.
  • Það verður erfiðast fyrir yngstu börnin að takast á við nýtt skipulag. Það er því sérstaklega mikilvægt fyrir foreldra þeirra að huga að möguleikum til vinnu að heiman svo börnin geti einnig verið heima. Það er einnig erfiðast að sinna þeim án mikillar snertingar og erfiðast að meta að morgni hvort þau eru þreytt. Einnig eru yngstu börnin töluvert oft með stöðugt nefrennsli, snuð, nudda augun, munninn o.s.frv. 
  • Leikskólinn vill hins vegar huga að námi og félagslegum tengslum barnanna, sem skipta æ meira máli eftir því sem þau verða eldri. Þá skiptir máli að einstaka börn lendi ekki í algjörri einangrun heima hjá sér svo vikum skiptir. Foreldar verða samt sem áður að meta þeir hvort þeir vilja senda börnin í skólann og taka ákvörðun út frá því.  
  • Leikskólinn Krílabær verður með óbreytta opnun og mun halda starfsemi gangandi á sem öruggastan hátt samkvæmt tilmælum sóttvarnalæknis.  

Nánari útfærsla og upplýsingar eru á heimasíðum skólanna.

https://www.thingeyjarskoli.is

http://www.storutjarnaskoli.is

 

Íþróttamiðstöðin á Laugum

Starfsemi í íþróttasal verður mjög takmörkuð og öllum föstum tímum í sal verður frestað í óákveðinn tíma. Sundlaug og líkamsræktarsalur verða opin en með takmörkunum hvað varðar fjölda gesta hverju sinni.

Opið verður í sundlaug og líkamsrækt mánudag til fimmtudags frá 7:30 til 9:30 og seinnipart frá kl. 16:00 til 20:00.  Á föstudögum er opið frá 7:30 til 9:30. Um helgar verður opið frá 12:00 til 15:00. Opnunin er háð því að ekki séu fleiri en 10 gestir í einu í líkamsræktarsal og ekki fleiri en 25 gestir í einu í sundlauginni.  Lokað er aðgengi að kalda karinu.

Allar frekari breytingar verða auglýstar á Facebook síðu sundlaugarinnar og á heimasíðu sveitarfélagsins og biðjum við fólk að fylgjast með þar sem margt getur breyst á stuttum tíma.

 

Bókasöfn

Öll bókasöfnin, Bókasafn Aðaldæla, Bókasafn Reykdæla og Bókasafnið í Stórutjarnaskóla verða lokuð frá og með 16. mars í óákveðinn tíma.

 

Opið hús eldri borgara

Opið hús, félagsstarf eldri borgara hefur verið fellt niður um óákveðinn tíma.

 

Félagsheimili

Starfsemi félagsheimila verður takmörkuð í samræmi við gildandi samkomubann. Húsverðir taka við bókunum og veita upplýsingar varðandi takmörkunina í gegnum síma.

 

Heimaþjónusta

Heimaþjónusta verður óbreytt nema þjónustuþegar óski annars. Starfsfólki heimaþjónustu hafa verið send fyrirmæli um að fylgja áherslum sýkingavarna samkvæmt leiðbeiningum landlæknis.   

 

Skrifstofa sveitarfélagsins

Skrifstofan verður lokuð almenningi frá og með mánudeginum 16. mars um óákveðinn tíma en starfsemi óbreytt að öðru leyti. Íbúum og öðrum er bent á að hafa samband í gegnum síma og tölvupóst. Opið verður fyrir síma frá kl. 9:00 til 15:00 alla virka daga. Er þetta liður í að reyna að tryggja órofna starfsemi skrifstofunnar. Þá mun starfsfólk sinna sínum störfum og verkefnum að hluta með fjarvinnslu og vinnu heima fyrir. Allar upplýsingar um símanúmer og netföng starfsfólks má finna á heimasíðu sveitarfélagins  https://www.thingeyjarsveit.is/is

 

Upplýsingar um samkomubann og fleiri góðar upplýsingar má finna inn á vefsíðunni http://wwww.covid.is

Einnig eru góðar upplýsingar á eftirfarandi síðum:

https://www.landlaeknir.is/

https://www.almannavarnir.is/

 

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri