Þingeyjarsveit auglýsir eftir sviðsstjóra stjórnsýslusviðs

Auglýst hefur verið eftir sviðsstjóra stjórnsýslusviðs sameinaðs sveitarfélags Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar. Leitað er að einstaklingi sem býr yfir framsækni, krafti og metnaði til að stýra starfsemi sveitarfélagsins, leiða áframhaldandi uppbyggingu innan þess og innleiðingu breytinga í kjölfar sameiningar Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar. Um er að ræða stöðu æðsta stjórnanda sveitarfélagsins. 

Starfssvið:

  • Sviðsstjóri er æðsti yfirmaður starfsfólks sveitarfélagsins og skal sjá um að stjórnsýsla sveitarfélagsins samræmist lögum, samþykktum og stefnu sveitarstjórnar
  • Sviðsstjóri hefur yfirumsjón með rekstri sveitarfélagsins og ber ábyrgð á framkvæmd ákvarðana sveitarstjórnar.
  • Fer með prókúru sveitarfélagsins og fyrirsvar þess
  • Yfirumsjón með skipulagi og virkni stjórnsýslu sveitarfélagsins og starfsmannamálum
  • Náið samstarf við sveitarstjórn, undirbúningur og upplýsingagjöf á fundum sveitarstjórnar og nefnda
  • Annast upplýsingamiðlun og samskipti við samstarfsaðila, stofnanir, samtök, fyrirtæki og íbúa
  • Gæta hagsmuna sveitarfélagsins út á við, vinna að framfaramálum þess og vera talsmaður sveitarstjórnar
  • Stefnumarkandi vinna og mótun framtíðarsýnar fyrir sveitarfélagið og starfsemi þess.
  • Leiða uppbyggingu og eflingu atvinnulífs á svæðinu

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Háskólamenntun sem nýtist í starfi, menntun á sviði stjórnsýslufræða eða lögfræði er kostur
  • Farsæl reynsla af stjórnun, rekstri og fjármálum
  • Þekking og reynsla af opinberri stjórnsýslu er æskileg
  • Reynsla af störfum á sveitarstjórnarstigi er æskileg
  • Þjónustulund og framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum
  • Leiðtogahæfni, frumkvæði og skipulögð vinnubrögð
  • Áhugi og reynsla á uppbyggingu og eflingu atvinnulífs
  • Færni til að tjá sig í ræðu og riti
  • Æskilegt er að sviðsstjóri sé búsettur í sveitarfélaginu

Þingeyjarsveit er sameinað sveitarfélag úr nokkrum hreppum í Suður-Þingeyjarsýslu, Hálshreppi, Ljósavatnshreppi, Bárðdælahreppi, Reykdælahreppi, Aðaldælahreppi og nú síðast Skútustaðahreppi.

Hið nýja sveitarfélag er landmesta sveitarfélag landsins með um 12% af flatarmáli landsins og um 1.400 íbúa. Stór hluti sveitarfélagsins er í óbyggðum en byggð takmarkast við Fnjóskadal, Ljósavatnsskarð, Kaldakinn, Bárðardal, Laxárdal, Aðaldal, Reykjadal og Mývatnssveit.

Þingeyjarsveit státar af einstakri náttúrufegurð og náttúruauðlindum. Margar af eftirsóttustu náttúruperlum Íslands eru í sveitarfélaginu s.s. Mývatn, Laxá í Aðaldal, Goðafoss, Aldeyjarfoss, Vaglaskógur, Askja og fjalladrottningin Herðubreið.

Atvinnulífið er öflugt með fjölbreyttum möguleikum m.a. í ferðaþjónustu, landbúnaði og matvælaframleiðslu.

Sveitarfélagið rekur þrjá grunnskóla og fjóra leikskóla, á Stórutjörnum, Hafralæk, Laugum og í Reykjahlíð.

Skrifstofur sveitarfélagsins eru á Laugum og í Reykjahlíð og á báðum stöðum er að finna alla nauðsynlega þjónustu. Í sveitarfélaginu starfar fólk frá ýmsum stofnunum og er aðstaða fyrir störf án staðsetningar í boði ásamt umfangsmiklu samstarfi sveitarfélagsins við ýmsar opinberar stofnanir s.s. Vatnajökulsþjóðgarð og Umhverfisstofnun. Þingeyjarsveit leggur áherslu á umhverfismál og sjálfbæra nýtingu auðlinda ásamt blómlegu mannlífi.

Umsóknarfrestur er til og með 15. ágúst 2022. Umsóknir óskast fylltar út á www.hagvangur.is. Umsóknum skal fylgja ítarleg ferilskrá og kynningarbréf. Nánari upplýsingar veita Geirlaug Jóhannsdóttir, geirlaug@hagvangur.isog Hlynur Atli Magnússon, hlynur@hagvangur.is.

Sótt er um starfið á heimasíðu Hagvangs.