Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar óskar eftir fundum með Landsneti, RARIK og Símanum hf. vegna atburða síðast liðna daga.

Sveitarstjórn tekur undir bókanir sveitarstjórna Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Húnaþings vestra en þar segir m.a.:

„Það er óviðunandi á árinu 2019 að í kjölfar óveðurs skuli tugþúsundir manna verða innlyksa án rafmagns og hita sólarhringum saman, auk þess að njóta bágborinna fjarskipta og upplýsinga um hvaða endurbótum og lagfæringum liði. Ekki er boðlegt að stefna hundruðum manna út í mannskaðaveður, með tilheyrandi hættu, til að ráðast í lagfæringar á innviðum sem hefði þegar átt að vera búið að byggja upp með því öryggi sem tilheyrir 21. öldinni“

„Það er algerlega óviðunandi að grunnstofnanir samfélagsins, RARIK, Landsnet og fjarskiptafyrirtækin hafi ekki verið betur undirbúin og mönnuð á svæðinu en raun ber vitni. Aftur á móti voru Björgunarsveitirnar og Rauði krossinn, sem rekin eru í sjálfboðavinnu, vel undirbúin og komin með tæki og fólk á staðinn áður en veðrið skall á.“

Í þeim veðurofsa sem gekk yfir landið síðustu daga kom í ljós að íbúar Þingeyjarsveitar búa við verra fjarskiptaöryggi núna en fyrir 20 árum síðan, í dag erum við með fullkomnari fjarskiptakerfi en ljóst er við uppsetningu á þeim var þess ekki gætt að fullnægjandi varaafl væri fyrir hendi enda brugðust flest kerfi. Á öllum helstu fjarskiptastöðvum þarf að vera alvöru varaafl sem heldur til lengri tíma. Sveitarstjórn fer fram á fundi með stjórnendum Landsnets, RARIK og Símans hf. vegna atburða síðast liðna daga.

Þá vill sveitarstjórn koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem brugðust við ástandinu sem upp kom í sveitarfélaginu vegna óveðursins sem gekk yfir.