Staða landbúnaðar - bókun sveitarstjórnar

Á fundi sveitarstjórnar fyrr í dag, 26. október lýsti sveitarstjórn áhyggjum af stöðu bænda og íslensks landbúnaðar og lögð var fram eftirfarandi bókun:

"Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar lýsir þungum áhyggjum yfir stöðu bænda og íslensks landbúnaðar. Gríðarlegar kostnaðarhækkanir á aðföngum og íþyngjandi vaxtakostnaður hefur gert það að verkum að afkomubrestur er í flestum greinum landbúnaðar.
Landbúnaður er ein af undirstöðuatvinnugreinum í sveitarfélaginu og er mikilvægt að matvælaframleiðslu séu skapaðar öruggar rekstraraðstæður til framtíðar.

Mikil sóknarfæri eru í íslenskri matvælaframleiðslu hvort sem litið er til garðyrkju, kornræktar eða hefðbundins búskapar enda skiptir innlend matvælaframleiðsla miklu máli þegar kemur að fæðuöryggi þjóðarinnar ásamt því að vera ein af grunnstoðum búsetu í dreifðum byggðum.

Þar skiptir nýliðun í greininni höfuðmáli enda meðalaldur bænda hár, því skiptir höfuðmáli að bæta rekstrarskilyrði búa, afkomu bænda, viðunandi starfskilyrði og að fjármögnun vegna kaupa á búum sé hreinlega gerleg fyrir fólk sem vill stunda matvælaframleiðslu.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hvetur stjórnvöld til að bregðast strax við þeirri alvarlegu stöðu sem uppi er í íslenskum landbúnaði. Að óbreyttu er framtíð íslensk landbúnaðar og matvælaframleiðslu í landinu í hættu eins og bent hefur verið á um nokkurt skeið. Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar skorar á stjórnvöld til að tryggja stuðning við landbúnað til lengri tíma og með því tryggja möguleika á nýliðun í greininni sem og matvælaöryggi þjóðarinnar."

Bókuninni hefur verið komið á framfæri við stjórnvöld.