Skólastefna Þingeyjarsveitar

Í Þingeyjarsveit eru þrír samreknir leik- og grunn- og tónlistarskólar; Reykjahlíðarskóli, Stórutjarnaskóli og Þingeyjarskóli. Eftir sameininguna var ákveðið að setja hinu nýja sveitarfélagi skólastefnu og var leitað til rannsóknar- og ráðgjafafyrirtækisins Skólastofunnar slf um að leiða verkefnið í samráði við stýrihóp. Sveitarstjórn skipaði stýrihópinn 23. febrúar 2023  og í honum áttu sæti: Anna Sigríður Sveinbjörnsdóttir, skólastjóri Reykjahlíðarskóla, Arnór Benónýsson, fulltrúi sveitarstjórnar, Birna Davíðsdóttir, skólastjóri Stórutjarnaskóla, Eygló Sófusdóttir, fulltrúi sveitarstjórnar, Gunnhildur Hinriksdóttir, formaður fræðsluog velferðarnefndar og Jóhann Rúnar Pálsson, skólastjóri Þingeyjarskóla. Fyrir hönd Skólastofunnar slf komu þau Ingvar Sigurgeirsson og Lilja M. Jónsdóttir skólaráðgjafar að verkefninu og með hópnum starfaði einnig Ásta F. Flosadóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs.

Ákveðið var að hafa víðtækt samráð um stefnumótunina. Haldnir voru mats- og umræðufundir með grunnskólanemendum, starfsfólki skólanna, auk þriggja íbúafunda. Á fundunum var leitast við að leggja mat á skólastarfið, ræða sterkar hliðar þess og hvað brýnast sé að bæta, afmarka sóknarfæri og leggja drög að þeim áherslum sem æskilegt er að horfa til. Sú skólastefna, sem hér er sett fram, byggir á þeim viðhorfum sem fram komu á fundunum auk niðurstaðna samræðna í stýrihópnum. Auk þess var litið til fyrri skólastefnu sveitarfélaganna, laga, reglugerða og námskráa. Við lokafrágang voru hafðar til hliðsjónar athugasemdir sem borist höfðu við drög að stefnunni. Skólastefnunni er ætlað að vera sáttmáli samfélagsins um þróun skólastarfsins á næstu árum og mikilvægt að hún sé lifandi tæki sem er markvisst beitt til að gera gott skólastarf enn betra. Til þess er ætlast að allir aðilar sem koma að skóla- og frístundastarfi móti aðgerðaáætlanir á grundvelli hennar. Við gerð þessarar skólastefnu er byggt er á grunnþáttum menntunar eins og þeir eru skilgreindir í Aðalnámskrá þar sem menntun til sjálfbærni, lýðræðisuppeldi, jafnrétti, mannréttindi, læsi, sköpun, heilbrigði og velferð eru sett á oddinn. Þá mótast framkvæmd stefnunnar af innleiðingu nýrra farsældarlaga og mannauðsstefnu sveitarfélagsins, þar sem velferð nemenda og starfsfólks er í brennidepli.

Þann 22. febrúar 2024 samþykkti sveitarstjórn nýja skólastefnu sveitarfélagsins og hana má lesa hér.