Skipulagslýsing vegna fyrirhugaðrar Einbúavirkjunar

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samþykkti þann 30. janúar 2020 að heimila Einbúavirkjun ehf. að vinna deiliskipulag á sinn kostnað af fyrirhugaðri Einbúavirkjun, 9,8 MW rennslisvirkjun í Skjálfandafljóti. Nýtt verður um 24 m fall á um það bil 2,6 km kafla fljótsins. Reistur verður þröskuldur þvert yfir Skjálfandafljót og vatni veitt úr Skjálfandafljóti um 1,3 km langan aðrennslisskurð að stöðvarinntaki. Stöðvarhús verður reist skammt neðan við inntakið og þaðan verður frárennsli veitt um 1,3 km langan veg út í Skjálfandafljót á móts við bæinn Einbúa, um 800 m neðan við ármótin við Kálfborgará. Samhliða gerð deiliskipulags þarf að breyta Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 til samræmis við fyrirhugaða deiliskipulagsgerð þannig að nýtt iðnaðarsvæði verður skilgreint á virkjanasvæðinu.

Þegar vinna við breytingu á aðalskipulagi og gerð nýs deiliskipulags hefst, skal sveitarstjórn taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu. Í skipulagslýsingu koma fram áherslur sveitarstjórnar við skipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli, svo sem um kynningu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum.

Skipulagslýsing vegna breytingar á aðalskipulagi og gerð nýs deiliskipulags mun liggja frammi á skrifstofu Þingeyjarsveitar frá og með miðvikudeginum 15. júlí 2020 til og með fimmtudeginum 6. ágúst 2020. Lýsingin verður einnig aðgengileg á sama tíma á heimasíðu Þingeyjarsveitar:https://www.thingeyjarsveit.is/is/stjornsysla/skipulagsmal/skipulagsauglysingar.

Þeim sem vilja gera athugasemdir við lýsinguna eða koma með ábendingar er gefinn frestur til og með 6. ágúst til að koma þeim skriflega á framfæri til skrifstofu Þingeyjarsveitar, Kjarna, 650 Laugar og/eða í tölvupósti á netfangið: gudjon@skutustadahreppur.is

Allar nánari upplýsingar veitir undirritaður.

Guðjón Vésteinsson

skipulagsfulltrúi Þingeyjarsveitar