Skipað í samstarfsnefnd sem kannar ávinning af sameiningu Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps

 

Á fundum sveitarstjórna Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar í morgun var samþykkt samhljóða að hvort sveitarfélag skipi þrjá fulltrúa og tvo til vara í samstarfsnefnd sem kanna skal ávinning af sameiningu sveitarfélaganna í samræmi við 119. grein sveitarstjórnarlaga. Markmiðið er að kortleggja sameiningu sveitarfélaganna með það fyrir augum að hún leiði til bættrar þjónustu, öflugri stjórnsýslu og auknum slagkrafti við að ná árangri í byggða-, atvinnu- og samgöngumálum.

 

Að mati sveitarstjórna Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar er skynsamlegt að sveitarfélögin hefji formlegar sameiningarviðræður sem munu leiða til þess að tillaga um sameiningu verði lögð fyrir íbúa í atkvæðagreiðslu. Á þann hátt er valdið sett í hendur íbúanna. Tillagan verður unnin með virkri þátttöku íbúa m.a. á íbúafundum þar sem tekin verður umræða um tækifæri og áskoranir sem geta falist í sameiningu þessara tveggja sveitarfélaga. Hlutverk kjörinna fulltrúa og starfsmanna sveitarfélaganna er að undirbúa tillöguna eins vandlega og kostur er og kynna verkefnið svo íbúar geti tekið upplýsta ákvörðun, líkt og segir í bókun beggja sveitarstjórna. Stefnt skal að því að samstarfsnefndin skili áliti sínu til sveitarstjórna fyrir lok árs 2020. Samstarfsnefndinni er falið að setja verkefninu nánari verkáætlun og tímaramma.

Verði sameining þessara sveitarfélaga samþykkt í íbúakosningu verður til langstærsta sveitarfélag landsins að flatarmáli eða rétt rúmlega 12 þús. ferkm.

Helgi Héðinsson, oddviti sveitarstjórnar Skútustaðahrepps, segir að skynsamlegt sé að skoða sameiningu þessara tveggja nágrannarsveitarfélaga:

„Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit hafa átt í farsælu samstarfi sín á milli, m.a. um skipulags-og byggingamál og brunavarnamál og eru auk þess aðilar að ýmsum samstarfsverkefnum. Í Skútustaðahreppi búa um 500 íbúar og um 900 í Þingeyjarsveit. Við teljum að ýmis tækifæri geti falist í því að sameina sveitarfélögin tvö í eitt öflugra sveitarfélag, með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi. Sameinað sveitarfélag hefði aukinn slagkraft og styrk til að ráðast í mikilvæg samfélagsverkefni.“

Arnór Benónýsson, oddviti Þingeyjarsveitar, segir eðlilegt að þessi tvö sveitarfélög, sem nú þegar eiga í samstarfi á ýmsum sviðum, skoði kosti og galla sameiningar.

„Fulltrúar sveitarfélaganna hafa átt viðræður um að leggja fram tillögu um sameiningu sveitarfélaganna tveggja  í atkvæðagreiðslu meðal íbúa. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur markað þá stefnu að innan fárra ára verði ekkert sveitarfélag á Íslandi með færri en 1.000 íbúa. Sú stefna er byggð á skýrslunni Staða og framtíð íslenskra sveitarfélaga, sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið gaf út í júlí 2017. Okkur finnst skynsamlegt að fara strax í formlegar viðræður um hugsanlega sameiningu sveitarfélaganna og vera á undan straumnum. Við göngum til þessa samtals með þá trú að í sameiningu þessara sveitarfélaga geti falist tækifæri til sóknar fyrir svæðið.“

Fulltrúar sveitarfélaganna hafa jafnframt átt fundi með fulltrúum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að fá upplýsingar um aðkomu ráðuneytisins og stuðning Jöfnunarsjóðs við verkefnið.

Fulltrúar sveitarfélaganna í samstarfsnefndinni eru:

Aðalmenn Skútustaðahrepps eru  Helgi Héðinsson oddviti, Ragnhildur Hólm Sigurðardóttir og Halldór Þorlákur Sigurðsson en varamenn eru Friðrik Jakobsson og Elísabet Sigurðardóttir.

Aðalmenn Þingeyjarsveitar eru Arnór Benónýsson oddviti, Margrét Bjarnadóttir og Jóna Björg Hlöðversdóttir en varamenn eru Árni Pétur Hilmarsson og Hlynur Snæbjörnsson.

Sveitarstjórar sveitarfélaganna, Þorsteinn Gunnarsson í Skútustaðahreppi og Dagbjört Jónsdóttir í Þingeyjarsveit, starfa með samstarfsnefndinni.

Stefnt er að kynningarfundum þann 20. júní n.k., í Félagsheimilinu Skjólbrekku í Skútustaðahreppi kl. 17 og í Ljósvetningabúð í Þingeyjarsveit kl. 20. Á fundunum verður ferli verkefnisins kynnt og íbúum gefst tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri strax í upphafi.

Við undirbúning málsins var leitað eftir ráðgjöf RR ráðgjafar sem hefur sinnt verkefnastjórn og annarri ráðgjöf við verkefnið Sveitarfélagið Austurland og undirbúning sameiningar Garðs og Sandgerðisbæjar, sem nú ber heitið Suðurnesjabær. Þá hafa ráðgjafar RR ráðgjafar reynslu af sameiningu annarra sveitarfélaga.

Nánari upplýsingar veita:

Helgi Héðinsson, oddviti Skútustaðahrepps, sími 663 1410.
Arnór Benónýsson, oddviti Þingeyjarsveitar, sími 661 6292.