Rósa Emilía Sigurjónsdóttir handhafi menningarverðlauna Þingeyjarsveitar 2023

Þjóðhátíðardagur Íslendinga 17. júní var haldinn hátíðlegur í Skjólbrekku í Þingeyjarsveit. Kvenfélag Mývatnssveitar stóð fyrir samkomunni með aðkomu Ungmennafélagsins Eflingar.

Á hátíðinni voru veitt í fyrsta sinn Menningarverðlaun Þingeyjarsveitar en slík viðurkenning var veitt um nokkurra ára skeið í Skútustaðahreppi.

Umsjón með Menningarverðlaunum Þingeyjarsveitar er á höndum íþrótta-, tómstunda- og menningarnefndar sem auglýsti eftir tilnefningum. Hægt var að tilnefna einstakling, hóp eða félagasamtök og rétt til að tilnefna hafa félagasamtök og íbúar Þingeyjarsveitar.

Við val á verðlaunahafa er m.a. horft til framlags viðkomandi til menningarstarfs í Þingeyjarsveit. Auk viðurkenningar hlýtur verðlaunahafi peningaverðlaun frá sveitarfélaginu samkvæmt fjárhagsáætlun hvers árs.

Niðurstaða íþrótta-, tómstunda og menningarnefndar var að Menningverðlaun Þingeyjarsveitar 2023 hlyti Rósa Emelía Sigurjónsdóttir.

Rósa hefur undanfarin áratug haldið úti Facebook-síðu þar sem hún birtir 100 ára gamlar dagbókarfærslur frænku sinnar, Guðnýjar Helgu Sigurjónsdóttur saumakonu frá Miðhvammi í Aðaldal. Dagbókarfærslurnar eru ómetanleg heimild um daglegt líf einstæðrar verkakonu í Suður-Þingeyjarsýslu á fyrri hluta síðustu aldar. Helga eins og hún var alltaf kölluð hélt dagbækur frá árinu 1916-1938. Hún hafði lífsviðurværi sitt af saumaskap og sinnti þess á milli almennri verkamannavinnu. Með þeirri ákvörðun að opna, í gegnum Facebook, aðgengi að dagbókum Helgu frænku sinnar hefur Rósa Emelía opnað glugga inn í löngu liðinn heim sem veitir einstaka sýn á veröld sem var.

Auk Rósu Emelíu hlutu eftirtaldir aðilar tilnefningu til Menningarverðlauna Þingeyjarsveitar.

Karlakórinn Hreimur var tilnefndur fyrir að hafa verið hornsteinn í menningarlífi sveitarfélaganna í Þingeyjarsýslum síðan árið 1975. Kórinn vann meðal annars til silfurverðlauna á kóramóti í Póllandi nú á vordögum.

Ragnar Þorsteinsson bóndi í Sýrnesi. Ragnar var einn af stofnendum leikfélagsins Búkollu, en hann ritstýrði einnig Búkollubókunum svokölluðu (Byggðir og bú Suður – Þingeyinga). Ragnar hefur undanfarin ár gefið út lambadagatöl sem notið hafa mikilla vinsælda.

Freydís Anna Arngrímsdóttir (Systa) hefur verið formaður leikdeildar Umf. Eflingar í mörg ár og staðið fyrir reglulegum leiksýningum í Breiðumýri. Ásamt því að gegna formannsembættinu er Systa einnig öflugur leikari og hefur leikið í flestum ef ekki öllum sýningum frá því leikdeildin var endurvakin kringum 1990.

Hermann Róbert Herbertsson hlaut tilnefningu fyrir að hafa lyft Grettistaki í varðveislu örnefna í sveitarfélaginu sérstaklega í suðurdölum Fnjóskadals og víðar s.s. í Ljósavatnsskarði. Söfnunina hefur hann unnið í samstarfi við Emil Björnsson. Fram kemur að afrek hans stuðli að því að örnefnin séu staðsett og skráð inn á Örnefnavef Landmælinga Íslands.

Ásdís Erla Jóhannesdóttir og Yngvi Ragnar Kristjánsson ( Ásdís og Raggi í Selinu ) fá tilnefningu fyrir sitt góða starf í þágu sveitarinnar, eða eins og segir í tilnefningunni: „ Þau eru að gera ótal marga flotta hluti sem geta vel flokkast undir menningarviðburði. Með bruggi sínu auka þau við bjórmenningu, þau bjóða eldri borgurum í partí, hafa prjónakvöld, gönguskíðaviðburði/gönguskíðaspor, jóga, taka þátt í vetrarhátíðinni með foreldrafélaginu, standa fyrir fjölskyldu jólahlaðborði og taco dinner svo lítið eitt sé nefnt.“

Sveitarstjórn óskar Rósu Emelíu Sigurjónsdóttur handhafa Menningarverðlauna Þingeyjarsveitar til hamingju með verðlaunin og vonar að viðurkenning sem þessi verði öðrum hvatning til áframhaldandi góðra verka.