Nýtt stjórnskipulag Þingeyjarsveitar

Á 22. fundi sveitarstjórnar þann 13. apríl sl. var skipaður starfshópur um stjórnskipulag og húsnæðismál stjórnsýslu sveitarfélagsins. Starfshópnum var falið að leggja fram tillögu að stjórnskipulagi sameinaðs sveitarfélags. Á 23. fundi sveitarstjórnar þann 23. apríl sl. var tillagan samþykkt af sveitarstjórn.

Nýtt stjórnskipulag gerir ráð fyrir þremur sviðum: fjármála- og stjórnsýslusviði, fjölskyldusviði og umhverfis- og framkvæmdasviði. Í ljósi verkefnastöðu í kjölfar sameiningar og til að efla stjórnsýsluna og gera hana skilvirkari lagði starfshópurinn til að stofnuð yrði ný fastanefnd sveitarstjórnar, byggðarráð. Byggðarráð hefur að meginstefnu það hlutverk að undirbúa ákvarðanir sveitarstjórnar og hafa eftirlit með því að ákvarðanir sem hún tekur séu framkvæmdar. Byggðarráð hefur því almennt ekki það meginhlutverk að taka ákvarðanir fyrir hönd sveitarstjórnarinnar, fremur ber að líta á byggðarráð sem framkvæmdanefnd fyrir sveitarstjórnina.

Fjármála- og stjórnsýslusvið

Hlutverk og markmið fjármála- og stjórnsýslusviðs er að leiða vandaða stjórnsýslu og fjármálastjórn sveitarfélagsins. Verkefni sviðsins eru fjölbreytt en um er að ræða þjónustu og ráðgjöf þvert á önnur svið sveitarfélagsins. Fjármála- og stjórnsýslusvið hefur forgöngu um að þróa vinnuaðferðir og auka rafræna stjórnsýslu auk þess að hafa að leiðarljósi að veita framúrskarandi þjónustu til viðskipavina og leitast við að koma til móts við þarfir og væntingar viðskiptavina sinna innan marka laga, reglna og samþykkta sveitarstjórnar.

Fjármálatengd verkefni eru fjármálastjórn sveitarfélagsins og stofnana þess. Undir það falla bókhald, reikningagerð, reikningsskil og launavinnsla. Umsjón og stýring á gerð fjárhagsáætlana og uppgjör og gerð ársreikninga. Einnig að hafa eftirlit með tekjum og útgjöldum sveitarfélagsins ásamt því leita leiða til að bæta verklag og auka hagræði í rekstri, stýra, samræma og hagræða í innkaupum samkvæmt innkaupastefnu og innkaupareglum sveitarfélagsins ásamt ýmsum öðrum verkefnum.

Undir fjármála- og stjórnsýslusvið fellur símavarsla, upplýsingagjöf og almenn þjónusta við viðskiptavini sveitarfélagsins, ytri sem innri. Önnur verkefni á sviðinu eru gæðamál, mannauðsmál, persónuverndarmál, skjalavarsla og jafnlaunavottun. Undir stjórnsýslusvið fellur ritstjórn heimasíðu Þingeyjarsveitar og umsjón með samfélagsmiðlum.

Leiðarljós fjármála- og stjórnsýslusviðs er ávallt að koma til móts við þarfir og væntingar viðskiptavina sinna innan marka laga, reglna og samþykkta sveitarstjórnar.

Fjölskyldusvið

Fjölskyldusvið fer með málefni grunnskóla, leikskóla og tónlistarskóla, æskulýðs- íþrótta- og frístundamál barna og ungmenna sem og forvarnir. Sviðsstjóri fjölskyldusviðs er tengiliður við

Norðurþing sem fer með málefni félagsþjónustu, barnaverndar og málefni fatlaðs fólks með samningi þar um. Fjölskyldusvið heldur utan um heimaþjónustu og félagsstarf eldra fólks í sveitarfélaginu.

Í fræðslu-, íþrótta- og æskulýðsmálum leggur fjölskyldusvið áherslu á að Þingeyjarsveit sé góður staður fyrir börn og ungmenni til að njóta fræðslu og frístunda. Sveitarfélagið hefur sett sér það markmið að skólar sveitarfélagsins séu í fremstu röð fyrir metnaðarfullt og framsækið skólastarf sem byggir á samspili tækni, auðlinda og náttúru svæðisins með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í sjálfbærni og hringrásarhagkerfi að leiðarljósi.

Umhverfis- og framkvæmdasvið

Umhverfis- og framkvæmdasvið fer með skipulags-, umhverfis- og byggingarmál samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum um mannvirki nr. 160/2010, þar sem það á við. Verkefni sviðsins eru einnig að hafa umsjón með fasteignum sveitarfélagsins, nýframkvæmdum, viðhaldi fasteigna, vatnsveitum, fráveitum og hitaveitum, viðhaldi gatna og snjómokstri. Sviðið hefur yfirumsjón með þjónustumiðstöð, garðyrkju og umhverfi, opnum svæðum, landgræðslu og skógrækt, vinnuskóla, sorpmálum og hreinlætismálum sem og umsjón með fjallskilum, girðingum og meindýravörnum.

Í samræmi við nýtt stjórnskipulag hafa nú verið auglýstar tvær stöður sviðsstjóra, fjármála- og stjórnsýslusviðs annars vegar og umhverfis- og framkvæmdasviðs hins vegar. Umsóknarfrestur er til og með 7. júní nk.