Ný vettvangsakademía á Hofsstöðum

Loftmynd af heimtúni Hofstaða, bæjarhúsið uppi hægra megin og útihús til vinstri. Uppgrafinn víkinga…
Loftmynd af heimtúni Hofstaða, bæjarhúsið uppi hægra megin og útihús til vinstri. Uppgrafinn víkingaaldarskálinn er niðri til hægri og miðaldakirkjugarðurinn er til vinstri, hann er í uppgreftri þegar myndin er tekin, þeirri vinnu er lokið núna.

Á Hofsstöðum í Mývatnssveit verður komið á fót vettvangsakademíu fyrir kennslu og rannsóknir á sviði fornleifafræði, minjaverndar og menningarferðaþjónustu. Þar verður boðið upp á fjölbreytt námskeið á meistara- og doktorsstigi og aðstöðu til þverfaglegra vettvangsrannsókna, tilrauna og þróunar til að byggja upp þekkingu á íslenskri menningarsögu og hagnýtingu hennar.

Vettvangsakademían er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Háskólans á Hólum og Minjastofnunar og hlaut á dögunum styrk upp á 30.9 milljónir króna úr Samstarfi háskóla fyrir árið 2023. Samstarf háskóla miðar að því að auka gæði háskólanáms og samkeppnishæfni háskólanna. Alls var tæplega 1,6 milljarði króna úthlutað til 35 verkefna. Nánar má lesa um úthlutanir úr sjóðnum hér.

Rúnar Leifsson, forstöðumaður Minjastofnunar segir verkefnið hafa legið í loftinu lengi en farið formlega af stað í vetur þegar sótt var um styrkinn. Stórkostlegar fornminjar séu á Hofsstöðum enda verið stundaðar fornleifarannsóknir þar nær samfellt í 100 ár. Miðstöðin sé hugsuð sem suðupottur fræðslu og rannsókna í fornleifafræði og menningarþjónustu. Hugmyndin sé ekki ný af nálinni enda hafi verið til tveir alþjóðlegir vettvangsskólar í fornleifafræði upp úr aldamótum, einn á Hólum í Hjaltadal og hinn á Hofsstöðum.

Fyrstu nemarnir með haustinu

Fljótlega verður auglýst eftir verkefnisstjóra, hann á meðal annars að útfæra og þróa starfsemi miðstöðvarinnar, gera starfsáætlun til 10 ára og finna lausnir til að gera verkefnið sjálfbært til framtíðar. Stefnt er að fyrsta tilraunanámskeiðinu á haustmánuðum og á Rúnar von á því að færri komist að en vilja enda mikil þörf fyrir aðstöðu til vettvangsnáms í fornleifafræði. Stefnt er að því að nemarnir dvelji á Hofsstöðum mánuð í senn.

Fornminjar og ferðamenn

Verkefnið er virkilega jákvætt fyrir ferðaþjónustuna í Mývatnssveit enda á meðal annars að þróa námsleiðir og rannsóknarverkefni sem tengja saman fornleifafræði og ferðamálafræði. Fornleifar og nýting þeirra er háð ýmsum lagalegum skyldum og takmörkunum og samþætting þekkingar á fornleifa- og ferðamálafræði er mikilvægur grundvöllur til sjálfbærrar og ábyrgrar nýtingu þeirra í ferðaþjónustu.

Á Hofsstöðum hefur verið grafinn upp veisluskáli frá víkingaöld og kirkja og kirkjugarður frá miðöldum. Þessar minjar eru aðgengilegar og Rúnar segir gríðarleg tækifæri til að þróa miðlun og afþreyingu í þágu ferðaþjónustu á Hofsstöðum; svæði með einstökum fornleifum sem hundruð þúsund ferðamanna fara um árlega.