Hólasandslína - Opinn kynningarfundur um frummatsskýrslu á Breiðumýri 22. nóvember kl. 17:30

Dagana 21. nóvember og 22. nóvember stendur Landsnet fyrir opnu húsi á tveimur stöðum á Norðurlandi til kynna frummatsskýrslu vegna Hólasandslínu 3.

Markmiðið með Hólasandslínu 3, nýrri 220 kV raflínu milli Akureyrar og Hólasands norðan við Mývatn, er bætt orkunýting, aukin flutningsgeta og að tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi. Með auknum stöðugleika minnka líkur á spennusveiflum í kerfinu sem geta og hafa valdið tjóni á raftækjum notenda á landsbyggðinni. Framkvæmdin er einnig mikilvæg fyrir flutningskerfi landsins í heild sinni þar sem um er að ræða mikilvægan hlekk í styrkingu tengsla milli sterkari hluta kerfisins á Suðvesturhorninu og veikari hluta þess á Austurlandi.

Frummatsskýrsla

Samkvæmt lögum eru loftlínur til flutnings raforku með 66kV spennu eða hærri ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum framkvæmda. Fyrirhuguð 220 kV Hólsandslína er því matsskyld framkvæmd. Matsferlinu má í grófum dráttum skipta í tvennt, annars vegar gerð og kynningu matsáætlunar og hins vegar vinnslu umhverfismatsins sjálfs sem kynnt er í frummatsskýrslu sem skilað er til Skipulagsstofnunar. Þann 9. nóvember hófst kynning Skipulagsstofnunar á frummatsskýrslu vegna Hólsandslínu 3 en kynning skýrslunnar mun standa yfir í sex vikur eða til 21. desember Á kynningartíma gefst öllum sem áhuga hafa tækifæri til að kynna sér framkvæmdina og leggja fram athugasemdir. (sjá nánar á skipulag.is)Svör við athugasemdum eru skrifuð inn í lokaskýrslu, svokallaða matsskýrslu, sem er send til Skipulagsstofnunar. Stofnunin veitir svo álit sitt á mati á umhverfisáhrifum byggt á matsskýrslu og ber sveitarstjórnum að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar við útgáfu framkvæmdaleyfa. Að því loknu er framkvæmdaleyfið auglýst en kærufrestur vegna útgáfu leyfisins er einn mánuður.

Þín skoðun skiptir máli

Landsnet hefur á undanförnum misserum lagt aukna áherslu að efla samráð með fjölbreyttum leiðum út í samfélagið. Markmiðið er að tryggja virkara samtal, skilning og betra upplýsingaflæði milli hagsmunaaðila í aðdraganda ákvarðana um framkvæmdir á okkar vegum. Þann 21. nóvember verðum við hjá Landsneti með opin hús á Hótel KEA frá kl: 17.30 – 20.30 og þann 22. nóvember á Breiðumýri í Reykjadal frá kl:17.30 til 20.30. Við hvetjum íbúa og alla sem áhuga hafa á uppbyggingu raforkukerfisins að kíkja við og kynna sér niðurstöðu frummatsskýrslu vegna Hólsandslínu 3. Við verðum með heitt á könnunni og sérfræðingar þeir komu að vinnu skýrslunnar verða á staðnum.

Allir hjartanlega velkomnir