Fyrri umræða fjárhagsáætlunar o.fl. á fundi sveitarstjórnar

Á 290. fundi sveitarstjórnar í síðustu viku, 19. nóvember tók sveitarstjórn fjárahagsáætlun sveitarfélagsins 2021-2024 til fyrri umræðu en áætlað er að taka seinni umræðu og afgreiðslu fjárhagsáætlunar þann 3. desember n.k.

Í áætluninni er gert ráð fyrir tekjuskerðingu, lækkun útsvarstekna sem og lækkun framlaga Jöfnunarsjóðs á árinu 2021. Þá er gert ráð fyrir útgjaldaaukningu m.a. vegna aukins snjómoksturs, óskertrar þjónustu, viðspyrnuaðgerða og nýsköpunar. Reiknað er með hallarekstri og lántöku árið 2021.

Einnig var til umræðu bygging hjúkrunarheimilis á Húsavík. Verkefnið er á forræði Framkvæmdasýslu ríkisins (FRS) og verkkaupar eru tveir, heilbrigðisráðuneytið og sveitarfélögin sem koma að rekstri Dvalarheimilis aldraðra, Hvamms.
Heildarkostnaðaráætlun er áætlaður 3,52 milljarðar og hlutdeild sveitarfélaganna 898 milljónir króna. Útreikningar á hlut hvers sveitarfélags um sig er áætlaður út frá þeirri hlutdeild sem framkvæmdakostnaði ber að skipta skv. samþykktum Dvalarheimilisins Hvamms.

Kostnaður verkefnisins er verulega mikið hærri en upphaflegar áætlanir FRS gerðu ráð fyrir en endanlegur kostnaður ræðst þó aldrei fyrr en búið er að bjóða verkið út og tilboð opnuð.
Áætlað er að tvískipta útboðum í verkið, annars vegar bjóða út jarðvinnuframkvæmdir í mars/apríl 2021 og hins vegar uppbyggingu hússins sem færi fram í október/nóvember 2021.

Þá fór sveitarstjóri yfir helstu verkefni úr starfi sveitarfélagsins síðustu vikur.Umhverfisverðlaun 2020.


Þann 6. nóvember hlaut Þingeyjarsveit umhverfisverðlaun Ferðamálastofu fyrir árið 2020. Verðlaunin voru veitt fyrir uppbyggingu innviða við Goðafoss sem hefur staðið yfir síðastliðin ár. Við erum að sjálfsögðu ákaflega ánægð með verðlaunin.

Efling heilsugæslu á Laugum.
Sveitarstjóri og oddviti áttu fund með framkvæmdastjóra og fulltrúa Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) þann 10. nóvember um eflingu heilsugæslu á Laugum. Verkefnið hefur fengið jákvæð viðbrögð og miðar ágætlega áfram. Sveitarstjóri mun vinna áfram tillögur og útfærslur í samráði við fulltrúa HSN.

Snjóflóðavakt í Ljósavatnsskarði.
Formlegri snjóflóðavakt hefur nú verið komið á í Ljósavatnsskarði og snjómæli komið þar fyrir en sveitarstjóri og Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra sendu formlegt erindi til snjóflóðavaktar Veðurstofunnar eftir að snjóflóð féll þar í desember í fyrra. Einnig er búið er að setja upp lokunarhlið við veginn beggja vegna hættusvæðis svo hægt verði að loka svæðinu fyrir umferð. Snjóflóðavakt Veðurstofunnar mun tilkynna til Vegagerðarinnar þegar snjóflóðahætta vofir yfir sem sér um lokanir vegarins. Þetta er afar mikilvægt og jákvætt skerf í átt að auknu öryggi vegfarenda.

Varaaflstöðvar.
Sveitarstjóri óskaði eftir upplýsingum frá Neyðarlínunni varðandi varaaflstöðvar sem lofað var að setja upp víða um land eftir óveðrið sem gekk yfir í desember í fyrra. Í Þingeyjarsveit eru nú sex varaaflstöðvar, fastar og færanlegar, í Fnjóskadal, Stórutjarnaskóla, Breiðumýri, Laugum, við Goðafoss/Hrútey og á Skollahnjúk.

Fjarskiptamál.
Fjarskiptamál voru til umræðu á haustfundi Almannavarnarnefndar Norðurlands eystra þann 12. nóvember s.l. Sveitarstjóri vakti athygli á lélegu GSM sambandi víða í Þingeyjarsveit en fjarskiptafyrirtæki á samkeppnismarkaði hafa takmarkaðan áhuga á að leysa þau mál þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir. Þetta er stórt öryggismál og ekki síst þar sem nú er verið að leggja niður koparvírinn. Á nokkrum stöðum í sveitarfélaginu hefur heimasíminn í gegnum koparvírinn verið eina örugga fjarskiptasambandið á staðnum. Almannavarnanefndin mun setja sig í samband við Neyðarlínuna sem hefur ákveðnu hlutverki að gegna í þessum málum og fara fram á úrbætur.

Rjúpnaveiðibann á Þeistareykjum.
Hjálparsveit skáta í Aðaldal, Hjálparsveit skáta í Reykjadal og Björgunarsveitin Þingey hafa staðið vaktina á Þeistareykjum vegna rjúpnaveiðibanns. Vel hefur gengið sem af er og almennt séð eru menn að virða bannið. Sveitarfélagið mun greiða björgunarsveitunum styrki fyrir vaktirnar.

Starfsemi grunn- og leikskóla í COVID-19.
Mikið hefur mætt á skólastjórnendum, starfsfólki og nemendum í grunn- og leikskólum sveitarfélagsins í COVID og ekki síst undanfarnar vikur eftir hertar sóttvarnaraðgerðir þann 3. nóvember s.l. Full ástæða er til þess að hrósa skólastjórnendum og starfsfólki skólanna fyrir vilja í verki, þolinmæði og þrautseigju við að halda úti skólastarfi eins og kostur er við erfiðar aðstæður. Nú hefur aðeins verið létt á sóttvarnaraðgerðum og smitum fer fækkandi, það mun birta upp um síðir.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga var haldinn 18. nóvember s.l. Tekjur Jöfnunarsjóðs 2020 hafa verið minni en áætlanir gerðu ráð fyrir vegna COVID sem hafa bein áhrif á framlög sjóðsins til sveitarfélaga. Í ávarpi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á fundinum kom fram að ríkið muni standa að baki sveitarfélögum með beinum stuðningi til sjóðsins sem nemi 3,3 milljörðum og til viðbótar 1,5 milljarði úr Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs til almennra framlaga sjóðsins. Það er því von á nýrri áætlun Jöfnunarsjóðs fyrir þetta ár á allra næstu dögum.

Stytting vinnuvikunnar.
Tillögur að styttingu vinnuvikunnar eru í vinnslu innan stofnana sveitarfélagsins en breytingin tekur gildi um næstu áramót. Þegar tillögurnar liggja fyrir þarf sveitarstjórn að samþykkja þær.

 

Fundargerð 290. fundar má sjá í heild sinni hér

 

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.