Fjárhagsáætlun Þingeyjarsveitar 2021-2024 samþykkt á 291. fundi sveitarstjórnar

Fjárhagsáætlun Þingeyjarsveitar 2021-2024 var samþykkt á fundi sveitarstjórnar í gær, 3. desember.

Á þessum tímum er mikil áskorun að gera fjárhagsáætlun til lengri tíma þar sem óvissan er mikil. Stefna sveitarstjórnar við gerð fjárhagsáætlunar nú er að bregðast við því ástandi sem uppi er í þjóðfélaginu vegna COVID-19 með því að halda óskertri þjónustu við íbúa í stað þess að fara í niðurskurð og uppsagnir. Einnig að bæta í fjárfestingar og framkvæmdir og efla þannig atvinnulíf, nýsköpun og búsetugæði. Því fylgir vissulega kostnaðarauki og hallarekstur en undanfarin ár hefur sveitarfélagið greitt niður skuldir vegna betri afkomu í rekstri og þess vegna er nú möguleiki til sóknar og lántöku.

Þess ber að geta að um mjög varfærna áætlun er að ræða hvað varðar tekjur í langtímaspánni og ekki er gert ráð fyrir neinum niðurskurði í rekstri næstu árin. Fari svo að tekjur hækki ekki meira en þriggja ára áætlun gerir ráð fyrir er ljóst að ekki verður hjá því komist að grípa til hagræðingar í rekstri.

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 eru heildartekjur áætlaðar 1.218 m.kr. sem er 53 m.kr. lægra en í fjárhagsáætlun fyrir árið 2020. Gert er ráð fyrir mun lægri útsvarstekjum og framlögum úr Jöfnunarsjóði.

Rekstrargjöld árið 2021 eru áætluð 1.247 m.kr. sem er hækkun um 55 m.kr. miðað við fjárhagsáætlun 2020. Það helsta sem felst í hækkun gjalda er:

  • Almenn verðlagshækkun á þjónustu sem verður óskert.
  • Þegar umsamdar launahækkanir.
  • Aukinn kostnað vegna snjómoksturs.
  • Einskiptiskostnaður vegna viðspyrnuaðgerða og nýsköpunar.

Rekstrarhalli á samstæðu er áætlaður 105 m.kr. fyrir árið 2021 og verður fjármagnaður með lántöku.

Áætlaðar fjárfestingar eru uppá 122 m.kr. á árinu 2021 og lántaka áætluð fyrir þeim.

Helstu fjárfestingar eru:

  • Bygging hjúkrunarheimilis á Húsavík.
  • Framkvæmdir í Seiglu vegna flutnings skrifstofu í samhengi við eflingu heilsugæslu á Laugum.
  • Malbikunarframkvæmdir.
  • Bílaplan við Þingeyjarskóla.
  • Framlag til Leiguíbúða Þingeyjarsveitar hses. vegna byggingar leiguíbúða.

Lántaka á árinu 2021 er áætluð samtals 265 m.kr. Þrátt fyrir þá upphæð er aukning skulda þó ekki nema 183 millj.kr. vegna afborgana eldri lána.

Í þriggja ára áætlun er gert ráð fyrir hallarekstri öll árin þó sjá megi batamerki síðustu árin.

Gjaldskrárbreytingar fyrir árið 2021 eru varfærnar, engar gjaldskrár hækka umfram verðlagshækkun samkvæmt Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem er 2,8% og aðrar eru óbreyttar.

Áfram verður boðið uppá fríar máltíðir fyrir nemendur í grunn- og leikskólum sem og frí námsgögn. Frístundastyrkur barna og ungmenna verður óbreyttur eða 15.000 kr.

Fjárhagsáætlun Þingeyjarsveitar 2021-2024 má sjá hér

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri