Eyjardalsvirkjun. Breyting á aðalskipulagi og gerð deiliskipulags. Skipulags- og matslýsing.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samþykkti þann 27. júní 2018 að heimila forsvarsmönnum Eyjardalsvirkjunar ehf  að vinna tillögu að deiliskipulagi af fyrirhuguðu virkjanasvæði í Bárðardal á sinn kostnað skv. framkominni skipulagslýsingu skv. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Jafnframt verður gerð samhliða breyting á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 þar sem skilgreint verður nýtt iðnaðarsvæði fyrir vatnsaflsvirkjun á fyrirhuguðu virkjunarsvæði.

Fyrirhuguð virkjun yrði rennslisvirkjun án teljandi miðlunar. Virkjað fall um 180 m og virkjað rennsli um 500 l/s og uppsett afl 0,7 MW. Inntaksstífla yrði á Eyjardal í um 350 m hæð yfir sjávarmáli og ofan hennar myndaðist allt að 1,0 ha inntakslón að mestu í farvegi árinnar.  Inntakslón og efri hluti þrýstipípu yrðu ekki sýnileg frá þjóðvegi.  Stöðvarhúsið yrði í brekkurótum í landi Hlíðarenda sunnan Eyjardalsár.

Þegar vinna við gerð nýs deiliskipulags hefst, skal sveitarstjórn taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu. Í skipulagslýsingu koma fram áherslur sveitarstjórn við skipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli, svo sem um kynningu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum.

Skipulags- og matslýsing vegna nýs deiliskipulags og samhliða breytingar á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 skv. 1. mgr. 30. gr. og 1. mgr.  40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mun liggja frammi á skrifstofu Þingeyjarsveitar frá og með miðvikudeginum 18. júlí til og með föstudeginum 10. ágúst 2018. Lýsingin verður einnig aðgengileg á sama tíma á heimasíðu Þingeyjarsveitar HÉR.

Þeim sem vilja gera athugasemdir við lýsinguna eða koma með ábendingar er gefinn frestur til og með 10. ágúst 2018 til að koma þeim skriflega á framfæri til skrifstofu Þingeyjarsveitar, Kjarna, 650 Laugar og/eða í tölvupósti á netfangið: bjarni@thingeyjarsveit.is.   

Skipulags- og matslýsing (Uppdráttur)

Allar nánari upplýsingar veitir undirritaður.

Bjarni Reykjalín,
skipulags- og byggingarfulltrúi Þingeyjarsveitar