Fara í efni

Náttúruhamfaratrygging - varðandi upplýsingar til almennings varðandi byggingar á viðkvæmum svæðum

Málsnúmer 2509042

Vakta málsnúmer

Skipulagsnefnd - 41. fundur - 15.10.2025

Fyrir skipulagsnefnd liggur bréf til kynningar frá Náttúruhamfaratryggingu Íslands er varðar áhrif 16. gr. laga nr. 55/1992 ef byggingar eru reistar á svæðum sem fyrir fram er vitað að eru sérlega næm fyrir náttúruhamförum sem eru bótaskyldar hjá NTÍ.
Skipulagsnefnd þakkar fyrir bréfið. Sveitarfélagið hefur unnið greiningar á náttúruvá í tengslum við gerð aðalskipulags þar sem í Þingeyjarsveit eru margskonar náttúruvár.

Skipulagsnefnd - 43. fundur - 19.11.2025

Svar barst frá Náttúruhamfaratryggingu Íslands þar sem segir:

Bréfið sem sent var út til sveitarfélaga var fyrst og fremst hugsað til að vekja athygli sveitarfélaga á mikilvægi þess að taka góðar skipulagsákvarðanir. Það er í raun ekki mögulegt fyrir tryggingafélag að gefa út fyrirfram yfirlýsingar um það hvort og þá hvernig er farið með tilvonandi tjónamál, því það eru svo margir þættir sem geta haft áhrif á niðurstöðu þeirra. Þess vegna getum við aldrei annað en vísað til laga og reglugerðar varðandi endanlega túlkun, þegar til tjóns kemur.

Við getum engu að síður sagt að ef skipulagsákvarðanir byggja á vel ígrundaðri vinnu, þar sem allir helstu sérfræðingar sem eru til ráðgjafar á því sviði hafa komið að, eru ekki miklar líkur á því að 16. gr. laga nr. 55/1992 yrði beitt, sem hljómar svona:

Heimilt er að lækka bætur eða synja alveg bótakröfu:

1. Þegar hús eða annað mannvirki, sem skemmist, er reist á stað sem almennt var vitað fyrir fram að var hættulegur með tilliti til náttúruhamfara, t.d. ef mannvirki á sama stað hefur oftar en einu sinni orðið fyrir sams konar tjóni. Sama á við um lausafé sem geymt er í húsi eða öðru mannvirki við þær aðstæður sem hér greinir.

2. Þegar gerð eða viðhald húss eða annars vátryggðs hlutar er óforsvaranlegt eða andstætt fyrirmælum í settum rétti og ljóst er að tjón hefur hlotist af eða orðið víðtækara af þessum sökum.

NTÍ kemur ekki gerð hættumatskorta eða skipulagsmálum og því getum við ekki vísað með beinum hætti til sérstakra svæða í þessu sambandi. Við höfum svarað öðrum sveitarfélögum á þann veg að þar sem fullt samráð hefur verið haft við þær stofnanir sem hafa formlega það hlutverk að meta tilteknar áhættur, s.s. Veðurstofu vegna ofanflóða og Vegagerðina vegna sjávarflóða, teljum við að það yrðu gögn sem litið yrði til, ef til tjóns kemur. Hafi samráð verið haft og tillit tekið til þeirra ábendinga og athugasemda sem þar hafa komið fram er afar ólíklegt að 16. gr. laganna yrði beitt í því skyni að takmarka eða hafna tjónabótum.
Skipulagsnefnd þakkar fyrir svarið.
Getum við bætt efni þessarar síðu?