Fara í efni

Laugasel og Víðar - athugasemdir vegna skógræktarframkvæmda

Málsnúmer 2510033

Vakta málsnúmer

Skipulagsnefnd - 43. fundur - 19.11.2025

Skipulagsstofnun gerir athugasemd við útgáfu framkvæmdaleyfa fyrir skógrækt á jörðunum Laugaseli og Víðum.

Skipulagsstofnun bendir á að í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu segir að lögin taki enn fremur til „vatnsverndar á vatnasviði Mývatns og Laxár, sbr. kort í fylgiskjali með lögunum.“ Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna skal forðast að valda spjöllum á vatnasviði Mývatns og Laxár sem raskað gætu vernd vatnsins og árinnar samkvæmt ákvæðum laganna, sérstaklega gæðum og rennsli grunnvatns. Skógræktarframkvæmdirnar eru innan svæðis sem fellur undir hið tilvitnaða orðalag.

Í b-lið í iii-lið í 2. tölul. 2. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana er minnst á svæði sem njóta verndar samkvæmt sérlögum, svo sem Þingvellir, Mývatns- og Laxársvæði og Breiðafjörður. Með þetta í huga telur stofnunin ljóst að svæðið, sem skógræktarframkvæmdirnar eru á, séu verndarsvæði í skilningi laga nr. 111/2021.

Í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 111/2021 segir að framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B í 1. viðauka við lögin skuli háðar umhverfismati þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skv. 2. viðauka. Síðan segir svo: „Sama á við um framkvæmdir sem eru að umfangi undir viðmiðunarmörkum í flokki B í 1. viðauka ef þær eru fyrirhugaðar á verndarsvæði, sbr. iii lið 2. tölul. 2. viðauka.“

Í tölulið 1.04 í viðauka 1 er vikið að nýræktun skóga sem tekur til 200 ha eða stærra svæðis. Umræddar skógræktarframkvæmdir eru undir þessum stærðarmörkun en þar sem þær eru á verndarsvæði , skv. skilgreiningu Skipulagsstofnunar, falla þær undir hið tilvitnaða orðalag í 1. mgr. 18. gr.

Í ljósi framangreinds telur stofnunin að framkvæmdaraðilum beri að tilkynna Skipulagsstofnun um skógræktarframkvæmdirnar til ákvörðunar um matsskyldu, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021. Stofnunin bendir jafnframt á að óheimilt er að gefa út leyfi til framkvæmdar sem fellur undir lögin fyrr en ákvörðun Skipulagsstofnunar skv. 19. gr. um að framkvæmdin skuli ekki háð umhverfismati

liggur fyrir, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 111/2021. Þótt framkvæmdaraðili beri frumábyrgð á því að

tilkynna inn framkvæmdir á borð við þessa skógræktarframkvæmd þá hvílir einnig skylda á

Þingeyjarsveit sem leyfisveitanda að ganga úr skugga um, áður en tekin er ákvörðun um hvort veita

skuli framkvæmdaleyfi, hvort framkvæmdir séu tilkynningarskyldar, sbr. rannsóknarreglu

stjórnsýsluréttar.
Skipulagsnefnd lýsir undrun sinni á ákvörðun og ábendingum Skipulagsstofnunar. Hingað til hefur sveitarfélagið ekki krafist þess að matsskylda sé könnuð áður en framkvæmdaleyfi er veitt fyrir framkvæmdir sem eru innan afmarkaðs vatnasviðs Mývatns og Laxár í Suður Þingeyjarsýslu nema að umfang gefi tilefni til. Sveitarfélagið hefur litið þannig á að skýrt sé í 4. gr. laga nr 97/2004 að verndun vatnasviðsins eigi fyrst og fremst við um gæði og rennsli grunnvatns og möguleg áhrif á grunnvatn. Til nánari skýringar má líta á 18. gr. reglugerðar nr. 665/2012 þar sem vísað er til laga um hollustuhætti, meðhöndlun úrgangs og stjórn vatnamála og annarra laga sem lúta að mengunarvörnum. Einnig má líta til 19-24 gr. sömu reglugerðar þar sem fjallað er um takmarkanir innan vatnasviðsins, en þær takmarkanir lúta allar að mengunarvörnum og verndun vatns.
Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að koma viðbrögðum nefndarinnar til Skipulagsstofnunar og vinna málið áfram.
Getum við bætt efni þessarar síðu?