Samfélag og lýðheilsa

Formáli

Umhverfisþættir í hverju samfélagi eru samofnir náttúru landsins, vistkerfum, lifnaðarháttum fólks, nýtingu landsins og sjálfbærri þróun. Áherslur í umhverfismálum sem stuðla að bættri umgengni við manngert og náttúrulegt umhverfi auka umhverfisvitund íbúa og bæta lífsgæði. Útivist og hreyfing stuðlar að bættri lýðheilsu, bæði líkamlegri og andlegri.

 

Hlutverk

Sveitarfélögum er ætlað að leysa af hendi þau verkefni í umhverfismálum sem lög fela þeim. Stór hluti opinberra verkefna og þjónustu er á ábyrgð þeirra, s.s. fræðslumál og félagsþjónusta sem og að sjá íbúum sínum fyrir almennri grunnþjónustu. Sveitarfélög mynda stoðir þess velferðarsamfélags sem við búum í. Auk lögbundinna verkefna hafa sveitarfélög svigrúm til að taka að sér önnur verkefni sem varða íbúa þeirra. Þingeyjarsveit getur sett fram stefnur og markmið í umhverfismálum og unnið markvisst að því að efla samfélagið með það að sjónarmiði að bæta umhverfisvitund og lýðheilsu og þannig stuðla að heilbrigðari lifnaðarháttum, betri heilsu og vellíðan allra íbúa.

 

Forsendur

Þingeyjarsveit er landfræðilega stórt og dreifbýlt og þar af leiðandi eru fjarlægðir oft miklar. Þó er Þingeyjarsveit aðlaðandi búsetukostur. Reknir eru tveir grunnskólar og þrjár leikskóladeildir. Eins er framhaldsskóli í samfélaginu. Í Þingeyjarsveit eru fjögur félagsheimili og jafn margir íþróttavellir. Í öllum gömlu hreppunum var að finna félagasamtök sem stóðu fyrir félags- og íþróttastarfi. Þau eru ekki öll virk í dag, en Ungmennafélagið Efling er virkt á Laugum og Ungmennafélagið Bjarmi í Fnjóskadal. Hægt væri að nýta þau eða HSÞ til að ná til íbúa varðandi íþrótta- eða félagsstarf. Þingeyjarsveit gegnir mikilvægu samfélagslegu hlutverki og á að vera leiðandi og hvetjandi fyrir samfélagið og vinna markvisst að því að hvetja til og skapa umhverfi og aðstæður sem bæta lífsgæði, heilsu og vellíðan þeirra sem í samfélaginu búa. Þessu má meðal annars ná fram með því að auka umhverfisvitund íbúa og gera þá meðvitaðri um helstu kosti þess að búa í hreinu og fögru umhverfi og með því að auka fræðslu og aðgengi að upplýsingum.

 

 

Markmið sem tengjast þessum kafla

3 Að Þingeyjarsveit hvetji til vistvænni ferðamáta

4 Að auka nýsköpun innan svæðisins með sjálfbærni í fyrirrúmi

5 Að lögð verði áhersla á hringrásarhagkerfi

7 Að auka fræðslu um umhverfismál og lýðheilsu ásamt því að gera fræðsluefni aðgengilegt fyrir íbúa

8 Að hvetja íbúa og fyrirtæki til umhverfisvænni og heilsusamlegri lífsstíls

 

Leiðir

Markmið 3

Að Þingeyjarsveit hvetji til vistvænni ferðamáta. Stefnt er að því markmiði með því að:

 • Kortleggja stíga og slóða sem hægt er að nota til göngu og hjólreiða.
 • Vinna að því að fá fleiri hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla í sveitarfélagið
 • Stuðla að öruggum og umhverfisvænum samgöngum.

 

Markmið 4

Að auka nýsköpun innan svæðisins með sjálfbærni í fyrirrúmi. Stefnt er að því markmiði með því að:

 • Halda áfram og hvetja til þátttöku íbúa í verkefninu Nýsköpun í norðri.

Markmið 5

Að lögð verði áhersla á hringrásarhagkerfi. Stefnt er að því markmiði með því að:

 • Kynna og hvetja til hringrásarhugsunar í neyslu og framleiðslu.
 • Bæta og auka flokkun og endurvinnslu ýmissa úrgangstegunda frá heimilum, sumarhúsum og fyrirtækjum.
 • Hvetja íbúa til að endurnýta og endurvinna í stað þess að farga.
 • Setja upp nytjagám á gámasvæði.
 • Hvetja til þess að dregið verði úr matarsóun.
 • Halda áfram samstarfi við Landgræðsluna um uppgræðslu á eyddum svæðum.

Markmið 7

Að auka fræðslu um umhverfismál og lýðheilsu, ásamt því að gera fræðsluefni aðgengilegt fyrir íbúa. Stefnt er að því markmiði með því að:

 • Hafa upplýsingar um umhverfismál á vísum stað fyrir íbúa.
 • Hvetja skóla sveitarfélagsins til taka þátt í grænfánaverkefni og öðrum umhverfisvænum verkefnum.
 • Sveitarfélagið fari í átak til að hvetja íbúa til að bera virðingu fyrir umhverfinu og sýna ábyrgð í umhverfismálum.
 • Stuðla að aukinni vitundarvakningu á meðal almennings um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sjálfbæra þróun og áhrifaþætti umhverfis á heilsu og mannlíf.
 • Bæta aðgengi að upplýsingum um útivistarafþreyingu á svæðinu.

 

Markmið 8

Að hvetja íbúa og fyrirtæki til umhverfisvænni og heilsusamlegri lífstíls. Stefnt er að því markmiði með því að:

 • Gera sveitarfélagið að heilsueflandi samfélagi.
 • Styðja samfélagið í að skapa umhverfi og aðstæður í lífi, leik og starfi sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, sem bæta heilsu og vellíðan íbúa.
 • Kortleggja stíga og slóða sem hægt er að nota til göngu og hjólreiða sem og annarrar útivistar.
 • Setja bekki eða einföld æfingartæki við göngustíga eða áningarstaði.
 • Setja upplýsingar um útivistar-og afþreyingarsvæði á heimasíðu sveitarfélagsins.
 • Setja upplýsingar um viðburði í sveitarfélaginu á heimasíðu sveitarfélagsins.