Fara í efni
21. nóvember 2025 kl. 16:00-17:00 Viðburðir Skútustaðir Mývatnssveit

Opið hús hjá gestalistamanni

 

Hrafnkell Sigurðsson, gestalistamaður í Gíg, vinnur þessa dagana að skúlptúr úr fundnu efni í Mývatnssveit, í samvinnu við heimafólk og nemendur í skúlptúrgerð í Þingeyjarskóla. Þann 21. nóvember klukkan 16 til 17 verður opið hús í vinnustofu Hrafnkels, skemmunni hans Láka, á Skútustöðum og er öllum velkomið að koma við, sjá listamanninn að störfum og fá innsýn í það hvernig verkið mun verða.

Hrafnkell hefur lengi lagt stund á umhverfislist, þar sem landslag og náttúra - einnig manngert umhverfi - verða hluti af sköpunarferlinu og móta listaverkið með listamanninum. Í Mývatnssveit hefur hann einkum áhuga á aflóga landbúnaðartækjum sem, ásamt staðsetningu og umgjörð verksins, hafa sín áhrif á heildarniðurstöðuna. Samspil vélræns efniviðar og lífrænna forma er meginþema.

Verk Hrafnkels og skúlptúrar nemenda í Þingeyjarskóla verða flutt til Akureyrar þar sem þau verða hluti af sýningunni Viðbragð á Listasafninu á Akureyri, sem opnar 27. nóvember klukkan 20:30. 

Getum við bætt efni þessarar síðu?