271. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022

16.01.2020

271. fundur

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022

haldinn í Kjarna fimmtudaginn 16. janúar kl. 13:00

Fundarmenn

Arnór Benónýsson, Margrét Bjarnadóttir, Árni Pétur Hilmarsson, Jóna Björg Hlöðversdóttir, Ásvaldur Ævar Þormóðsson og Sigríður Hlynur Helguson Snæbjörnsson, Sigurbjörn Árni Arngrímsson boðaði forföll á síðustu stundu.

Starfsmenn

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði: Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.

Í upphafi fundar óskaði oddviti eftir að bæta einu máli á dagskrá undir 5. lið; 2001017-Ungmennaráð: Fundargerðir og aðrir liðir færast neðar á dagskrá sem því nemur.

Samþykkt samhljóða.

1.

Skipulags- og umhverfisnefnd: Fundargerðir - 1804018

 

Lögð fram fundargerð 120. fundar Skipulags- og umhverfisnefndar frá 19.12.2019. Ásvaldur gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í ellefu liðum.

 

1. liður fundargerðar; Endurskoðun Aðalskipulags Þingeyjarsveitar 2010-2022. 
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu nefndarinnar um að semja við Alta ehf. um að vinna fyrsta áfanga endurskoðunar aðalskipulags á grunni fyrirliggjandi minnisblaðs. Kostnaður sveitarfélagsins er áætlaður 2,5 m.kr. að viðbættum vsk. þegar tekið er tillit til helmings mótframlags Skipulagsstofnunar. Sveitarstjóra falið að undirrita samning við Alta ehf. fyrir hönd sveitarfélagsins. Kostnaður rúmast innan gildandi fjárhagsáætlunar  020. 
  
3. liður fundargerðar; Litlu-Tjarnir, umsókn um framkvæmdaleyfi efnistöku. 
 Sveitarstjórn samþykkir samhljóða erindið og felur skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfið skv. reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 og 13. - 16. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 
  
4. liður fundargerðar; Ljótsstaðir í Fnjóskadal, framkvæmdaleyfi til efnistöku. 
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða erindið og felur skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfið skv. reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 og 13. - 16. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 
  
5. liður fundargerðar; Veturliðastaðir, Grænbrekka, landskipti. 
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða erindið og felur byggingarfulltrúa að annast málsmeðferð vegna hennar eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um. 
  
6. liður fundargerðar; Veturliðastaðir, Grænahlíð 2, landskipti. 
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða erindið og felur byggingarfulltrúa að annast málsmeðferð vegna hennar eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um. 
  
7. liður fundargerðar; Veturliðastaðir, Hádegishóll, stofnun lóðar. 
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða erindið og felur byggingarfulltrúa að annast málsmeðferð vegna hennar eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um. 
  
9. liður fundargerðar; Fulltrúi Þingeyjarsveitar í samráðsvettvangi sveitarfélaga í Héraðsnefnd Þingeyinga. 
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að tilnefna Jónu Björgu Hlöðversdóttur og skipulagsfulltrúa sem fulltrúa Þingeyjarsveitar í samráðsvettvang um skipulagsmál og Ásvald Ævar Þormóðsson til vara. 
  
Fundargerðin staðfest að öðru leyti.

     

2.

Brunavarnarnefnd: Fundargerðir - 1809018

 

Lögð fram fundargerð 29. fundar Brunavarnanefndar Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar frá 19.12.2019. Arnór gerði grein fyrir fundargerðinni sem er tveimur liðum.

 

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina.

     

3.

Brunavarnaáætlun 2020-2025 - 2001008

 

Lögð fram brunavarnaáætlun Brunavarna Skútustaðahrepps   og Þingeyjarsveitar ásamt áhættumati sem unnið hefur verið að undanfarin   misseri í samráði við Mannvirkjastofnun. Slökkviliðsstjóri mætti til   fundarins undir þessum lið og gerði grein fyrir áætluninni.

 

Sveitarstjórn frestar afgreiðslunni og vísar áætluninni   til Brunavarnanefndar Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar til frekari umfjöllunar.

     

4.

Atvinnumálanefnd - Fundargerðir - 1810033

 

Lögð fram fundargerð 28. fundar Atvinnumálanefndar frá 18.12.2019. Árni Pétur gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í tveimur liðum.

 

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina en vísar frekari breytingum á gjaldskrá um hundahald, sem fjallað er um í 1. lið fundargerðar, til umræðu og afgreiðslu á næsta fundi sveitarstjórnar.

     

5.

Ungmennaráð: Fundargerðir - 2001017

 

Lögð fram fundargerð 6. fundar Ungmennaráðs frá 13.01.2020. Sveitarstjóri gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í sjö liðum.

 

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina.

     

6.

Félagsheimilið Breiðamýri: Umsögn vegna umsóknar um tækifærisleyfi - 2001003

 

Lagðar fram tvær umsagnarbeiðnir frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra dags. 13.12.2019 þar sem sótt er um tækifærisleyfi fyrir dansleik og harmónikkudansleik í Félagsheimilinu Breiðamýri 27.12.2019 og 04.01.2020. Sveitarstjórn afgreiddi erindin með tölvupósti milli funda þar sem hún gerði ekki athugasemdir við veitt tækifærisleyfi með fyrirvara um að jákvæðar umsagnir bærust frá byggingarfulltrúa og heilbrigðis- og eldvarnareftirlitinu, sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 67/2016, um breytingu á lögum nr. 85/2007.

 

Sveitarstjórn staðfestir afgreiðsluna.

     

7.

Ferðaþjónustan á Narfastöðum ehf.: Umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi - 2001005

 

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra dags. 7.01.2020 þar sem Unnsteinn Ingason sækir um rekstrarleyfi, flokkur IV, gististaður með áfengisveitingum, á Narfastöðum í Þingeyjarsveit.

 

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við veitt rekstrarleyfi með fyrirvara um að jákvæðar umsagnir berist frá byggingarfulltrúa og heilbrigðis og eldvarnareftirlitinu, sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 67/2016, um breytingu á lögum nr. 85/2007.

     

8.

Kiðagil: Umsögn vegna umsóknar um tækifærisleyfi - 2001004

 

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra dags. 6.01.2020 þar sem Heiðrún Tryggvadóttir sækir um tækifærisleyfi vegna þorrablóts í Kiðagili í Bárðardal í Þingeyjarsveit.

 

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við veitt tækifærisleyfi með fyrirvara um að jákvæðar umsagnir berist frá byggingarfulltrúa og heilbrigðis og eldvarnareftirlitinu, sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 67/2016, um breytingu á lögum nr. 85/2007.

     

9.

Tónlistarskólinn á Akureyri: Umsókn um hljóðfæranám - 1912022

 

Tekið fyrir erindi frá Tónlistarskólanum á Akureyri, dags. 16.12.2019 þar sem óskað er eftir að lögheimilissveitarfélag greiði kostnað vegna tónlistarnáms nemanda á grundvelli samkomulags sem ríki og sveitarfélög undirrituðu árið 2011 um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til eflingar   tónlistarnáms og jöfnunar á aðstöðumun nemenda.

 

Sveitarstjórn samþykkir erindið sem fellur undir 1. gr. reglna um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til eflingar tónlistarnáms og jöfnunar á aðstöðumuni nemenda frá árinu 2011.

     

10.

Framhaldsskólinn á Laugum: Styrkbeiðni - 2001007

 

Fyrir fundinum liggur erindi frá Guðmundi Smára Gunnarssyni f.h. Framhaldsskólans á Laugum, dags. 8. janúar s.l. þar sem óskað er eftir styrk vegna þátttöku skólans í alþjóðlegu verkefni „Water is   Life“ sem snýst um vatn og hreina orku. 
Næstkomandi sumar munu fjórir nemendur og verkefnastjóri fara til Florida á ráðstefnu til að kynna verkefni sem þeir hafa unnið að undanfarin þrjú ár sem snýst um rannsókn á smádýralífi í Laxá.

 

Sveitarstjórn samþykkir styrk til verkefnisins að fjárhæð kr. 250 þús. Fjárhæð rúmast innan gildandi fjárhagsáætlunar 2020.

     

11.

Þjóðgarður á miðhálendi Íslands: Umsögn - 1902026

 

Í samráðsgátt stjórnvalda liggja fyrir drög að frumvarpi til laga um Hálendisþjóðgarð sem tekur til stofnunar þjóðgarðs á miðhálendi Íslands, á landsvæði sem er í sameign þjóðarinnar; þjóðlendum og friðlýstum svæðum innan miðhálendisins. Það er í samræmi við tillögur nefndar fulltrúa allra þingflokka og stjórnvalda, bæði ríkis og sveitarfélaga, sem vann að undirbúningi stofnunar þjóðgarðsins.

 

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar telur að gott samráð   hafi verið haft við sveitarstjórnir á svæðinu við undirbúningsvinnu að stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Sveitarstjórn er jákvæð gagnvart stofnun slíks þjóðgarðs en telur mikilvægt að eftirfarandi sé haft til   hliðsjónar: 
Umræðan hefur snúist mikið um orkunýtingu og raforkuflutning en gert er ráð fyrir að orkunýting innan þjóðgarðs taki mið af stefnu stjórnvalda hverju sinni. Þriðji áfangi verndar- og orkunýtingaráætlunar (rammaáætlun) er enn óafgreidd á Alþingi. Þá er ekki gert ráð fyrir að háspennulínur í lofti verði leyfðar innan þjóðgarðs. Það er álit sveitarstjórnar að nauðsynlegt sé að útkljá ágreining um þessi atriði. 
Hálendisþjóðgarður getur haft jákvæð áhrif á byggðaþróun í nærliggjandi byggðum en til þess að svo geti orðið þarf að tryggja fjármagn til innviðauppbygginga svo sem uppbyggingu vega og þjónustumiðstöðva sem tryggir gott aðgengi að garðinum.

     

12.

Samgönguáætlun 2020-2034:Umsögn - 2001012

 

Tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020-2034 hefur verið lögð fram á Alþingi. Um er að ræða uppfærða   og endurskoðaða samgönguáætlun til fimmtán ára á grunni þeirrar sem samþykkt var á Alþingi síðasta vetur. Einnig var lögð fram tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun (aðgerðaráætlun) fyrir fyrsta tímabilið 2020-2024. Samgönguáætlunin er nú í umsagnarferli hjá nefndasviði Alþingis.

 

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar tekur undir umsögn og athugasemdir Markaðsstofu Norðurlands um samgönguáætlun sem sendar voru inn í haust á samráðsgátt stjórnvalda en ekki virðist hafa verið tekið tillit til þeirra ennþá. 
  
Í umsögninni gagnrýnir MN harðlega og mótmælir fjársvelti til flugvalla en Akureyrarflugvöllur fær aðeins 5,9% af framlögum til viðhalds á alþjóðaflugvöllum þremur utan Keflavíkurflugvallar. Framlög til   stofnkostnaðar og nýframkvæmda á flugvöllum, þ.m.t. alþjóðaflugvöllum, er 0 kr. næstu 5 árin, að undanskildum 30 milljónum í Reykjavíkurflugvöll. Sveitarstjórn tekur undir með MN og gerir kröfur á að haldið verði áfram með þróun á Akureyrarflugvelli sem alþjóðaflugvelli og farið verði í heildstæða   uppbyggingu þannig að hann uppfylli þær þarfir sem alþjóðaflugvelli ber að gera og mögulegt sé að byggja þar upp aukið millilandaflug. 
  
Einnig tekur sveitarstjórn undir með MN og gerir athugasemdir við að framlög til vegaframkvæmda næstu 15 árin eru afgerandi minnst á Norðursvæði. Ríflega 30% af vegakerfi landsins er á Norðursvæði en framlög til nýframkvæmda næstu 15 árin eru tæplega 10% af heildarfjárframlögum.

     

13.

Skýrsla sveitarstjóra - 1903026

 

Sveitarstjóri fór yfir helstu verkefni úr starfi sveitarfélagsins síðustu vikur.

 

Beiðni frá forsætisráðuneytinu um upplýsingaöflun í tengslum við afleiðingar óveðurs í desember. 
Á fundi ríkisstjórnar þann 13. desember síðastliðinn var skipaður átakshópur fimm ráðuneyta sem hefur það hlutverk með höndum að koma með tillögur um eflingu innviða í flutnings- og dreifikerfi raforku, fjarskiptum, samgöngum og byggðamálum til skemmri og lengri tíma. Átakshópurinn hefur þegar hafið   störf og hyggst vinna hratt og vel að öflun upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að hægt verði að móta tillögur til ríkisstjórnar. Hópurinn mun hvorki leggja mat á tjón vegna óveðursins og né rannsaka hvað fór úrskeiðis. Til að tryggja að hægt sé að vinna að tillögum er nauðsynlegt að afla upplýsinga frá sem flestum aðilum sem hafa hlutverki að gegna, búa yfir gagnlegum upplýsingum og ábendingum og geta hjálpað til við vinnu starfshópsins. Það á sérstaklega við aðila sem hafa lögbundið hlutverk við uppbyggingu og rekstur innviða og öryggiskerfa, sem reyndi á í óveðrinu. Það á einnig við um sveitarfélög, sem og félagasamtök og fyrirtæki. 
  
Noregsferð Samtaka orkusveitarfélaga. 
Stjórn Samtaka orkusveitarfélaga hefur ákveðið að fara í kynnisferð til Noregs dagana 16 - 20. mars nk. með það að markmiði að fræðast um orkugeirann í Noregi með áherslu á vindorku og vindorkugarða. 
  
Jafnlaunavottun. 
Samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, með síðari breytingum (jafnlaunavottun), sem tóku gildi í janúar 2018, skulu opinberar stofnanir sem hafa fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli, öðlast vottun á jafnlaunakerfi og framkvæmd þess eigi síðar en 31. desember 2019. Vinna við jafnlaunavottun er í ferli en ekki lokið. 
  
Ráðningar. 
Valdís Stefánsdóttir hóf störf sem launafulltrúi í byrjun árs en hún mun einnig sinna ýmsum öðrum skrifstofustörfum. 
Gengið verður frá ráðningu við Björn Guðmundsson í stöðu verkefnastjóri og mun hann hefja störf í byrjun apríl n.k. 
Þá hefur verið gengið til samninga við Helgu Sveinbjörnsdóttur, sem hefur sinnt starfi byggingafulltrúa síðast liðið ár, um áframhaldandi starf. 
  
Nýtt bókhalds- og launakerfi. 
Greint frá innleiðing á nýju bókhalds- og launakerfi á skrifstofu sveitarfélagsins.

     

Fundi slitið kl. 16:57