259. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022

27.06.2019

259. fundur

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022

haldinn í Kjarna fimmtudaginn 27. júní kl. 13:00

Fundarmenn

Arnór Benónýsson, Margrét Bjarnadóttir, Árni Pétur Hilmarsson, Jóna Björg Hlöðversdóttir, Hlynur Snæbjörnsson, Hanna Jóna Stefánsdóttirog  Ásvaldur Ævar Þormóðsson.

Starfsmenn

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði: Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.

 Dagskrá:

1.  Aðalfundarboð Dvalarheimilis aldraðra sf. - 1906025

Lagt fram aðalfundarboð Dvalarheimilis aldraðra sf. sem haldinn var 26. júní s.l. í húsnæði félagsins, Vallholtsvegi 17 á Húsavík.

Sveitarstjórn staðfestir afgreiðsluna.                   

2. Skipulags- og umhverfisnefnd: Fundargerðir - 1804018

Lögð fram fundargerð 115. fundar Skipulags- og umhverfisnefndar frá 21.06.2019. Ásvaldur gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í níu liðum.

1.liður fundargerðar; Hólasandslína 3, beiðni um breytingu á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010 -2022.

Sveitarstjórn samþykkir skipulags- og matslýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi í samræmi við aðalvalkosti Landsnets í umhverfismati fyrir Hólasandslínu ásamt þeim breytingum sem nefndin lagði til á fundi sínum. Sveitarstjórn felur skipulagsfulltrúa að kynna skipulags- og matslýsinguna fyrir íbúum sveitarfélagsins, Skipulagsstofnun og öðrum hagsmunaaðilum líkt og 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kveður á um.

8.liður fundargerðar; Kambsstaðir rafstöðvarhús, stofnun lóðar.

Sveitarstjórn samþykkir erindið og felur byggingarfulltrúa að annast málsmeðferð vegna stofnun lóðarinnar eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina að öðru leyti.                       

3.  Flatey: Stebbaskúr - 1905023

Tekið fyrir að nýju erindi sem áður var á dagskrá sveitarstjórnar þann 4. júní s.l. og var fjallað um undir liðnum um fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 23. maí 2019. Sveitarstjórn samþykkti þar bókun skipulags- og umhverfisnefndar vegna umsóknar frá Stefáni Guðmundssyni dags. 23.4.2019 þar sem sótt var um leyfi til að rífa og endurbyggja skúr í Flatey sem kallaður var Stebbaskúr.

Í bókun skipulags- og umhverfisnefndar kom fram að umræddur skúr hafi verið í mikilli niðurníðslu í áratugi og hann standi við sjávarkamb sem gengur á með árunum. Þar kom fram að það stæði til að stækka plötu skúrsins um c.a. 1,5 m að kambinum og gera þar með vörn í framhaldinu innan við kambinn, sem og lengja skúrinn til NV um ca. 2 m. Átti að gera þetta til að eignin myndi nýtast eiganda betur.

Skipulags- og umhverfisnefnd gerði ekki athugasemdir við byggingaráformin og fól skipulagsfulltrúa að grenndarkynna byggingaráformin í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Í bókun skipulags- og umhverfisnefndar var rangt farið með fyrirhugaðar stækkanir á umræddu húsi vegna mistaka. Rétt er að fyrirhuguð breyting geri ráð fyrir að lengja umrætt hús um 3,5m, úr 8,54m í 12m, breikka húsið um 2m, úr 5,0m í 7,0m, og hækka húsið um 1m, úr 3,5m í 4,5m. Er þetta í samræmi við fyrirliggjandi teikningu dags. 3.5.2019 frá Faglausn. Á þeirri teikningu segir einnig að húsið verði nýtt sem geymsluhúsnæði fyrir tæki og búnað. Ráðgert er að klæða húsið með lerki og þak verði klætt með bárujárni. Gluggar eiga að vera viðhaldslitlir og fjölpósta.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við fyrirhuguð byggingaráform á skúr í Flatey að sinni og vísar í fyrri rökstuðning skipulags- og umhverfisnefndar frá fundi hennar 23. maí s.l. hvernig slík byggingaráform eru í samræmi við gildandi aðalskipulag. Sveitarstjórn felur skipulagsfulltrúa að uppfæra grenndarkynningu sem nú þegar hefur verið send út með réttum gögnum í samræmi við fyrirliggjandi teikningu þar sem gert er ráð fyrir að fyrirhuguð stærð hússins verði um 12,0m að lengd, 7,0m að breidd og 4,5m að hæð. Grenndarkynningin skal fara fram í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.                      

4.  Sálubót - Styrkbeiðni - 1906031

Lagt fram erindi frá Sigrúnu Jónsdóttur f.h. Söngfélagsins Sálubótar, ódags. þar sem óskað er eftir styrk að upphæð 193.781 kr. vegna húsaleigu í Ýdölum. Söngfélagið Sálubót fagnaði 25 ára afmæli kórsins á síðastliðnu starfsári 2018-2019 og af því tilefni hélt kórinn ásamt söngstjóra sínum Jaan Alavere veglega söngskemmtun í Ýdölum laugardaginn 6. apríl s.l.

Sveitarstjórn samþykkir styrkbeiðni til Sálubótar að upphæð 193.781 kr. Upphæðin rúmast innan gildandi fjárhagsáætlunar 2019.                         

5.  Fasteignir sveitarfélagsins - 1906024

Umræða tekin um fasteignir sveitarfélagsins.                         

6.  Markaðsstofa Norðurlands: Gagnagrunnur um gönguleiðir á Norðurlandi - 1906026

Lagt fram bréf Birni H. Reynissyni f.h. Markaðsstofu Norðurlands, dags. 6.06.2019 þar sem segir frá uppbyggingu á gagnagrunni fyrir gönguleiðir á Norðurlandi. Verkefnið gengur út á það að safna gögnum um gönguleiðir á Norðurlandi þar sem þær eru geymdar á mismunandi stöðum og mismunandi uppsettar. Ávinningur verkefnisins er að upplýsingar um gönguleiðirnar verði samræmdar og þær settar á sama vefsvæði sem auðveldar markaðssetningu á þeim.

Samþykkt að vísa erindinu til Skipulags- og umhverfisnefndar.                

7.  Heilbrigðisstofnun Norðurlands: Samningur um vettvangsliða á svæði HSN við Mývatn og á Laugum - 1906027

Lagður fram samningur milli Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og Brunavarna Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar um vettvangsliða á svæði HSN við Mývatn og á Laugum. Brunavarnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar gera út og halda utan um hóp vettvangsliða sem hægt er að kalla út til aðstoðar sjúkrabíls frá Húsavík á starfssvæðinu.

Sveitarstjórn staðfestir samninginn.              

8.  Skýrsla sveitarstjóra - 1903026

Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri fór yfir helstu verkefni úr starfi sveitarfélagsins síðustu vikur.             

9.  Samstarfsnefnd um sameiningarferli: Fundargerðir - 1906023

Fundargerð 1. fundar samstarfsnefndar um sameiningarferli lögð fram til kynningar.

10. Eyþing: Menntunarþörf í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum - 1906028

Menntunarþörf í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum - Könnun meðal fyrirtækja og stofnana á starfssvæði Eyþings lögð fram til kynningar.                    

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 15:35