198. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022

08.09.2016

198. fundur

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022

Fundargerð
Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar
08.09.2016


198. fundur
sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar
haldinn í Kjarna fimmtudaginn 8. september 2016 


Fundinn sátu:

Arnór Benónýsson, Margrét Bjarnadóttir, Ásvaldur Ævar Þormóðsson, Árni Pétur Hilmarsson, Heiða Guðmundsdóttir, Ragnar Bjarnason og Sigurður Hlynur Snæbjörnsson.

Að auki sat fundinn Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

Oddviti setti fund. Hann óskaði eftir að bæta á dagskrá undir 6. lið; Tilnefning varafulltrúa í Fræðslunefnd.

Samþykkt samhljóða.  

Dagskrá:

  1. Erindi frá Tónlistarskólanum á Akureyri
  2. Erindi frá Umf. Eflingu
  3. Snjómokstur
  4. Samningur – Sundlaugin á Laugum
  5. Fundargerð Fræðslunefndar frá 29.08.2016

1. Erindi frá Tónlistarskólanum á Akureyri

Tekið fyrir erindi frá Tónlistarskólanum á Akureyri dags. 2.og 18. ágúst s.l. þar sem óskað er eftir að lögheimilissveitarfélagið greiði kostnað vegna tónlistarnáms nemenda á grundvelli samkomulags sem ríki og sveitarfélög undirrituðu árið 2011 um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til eflingar tónlistarnámi og jöfnunar á aðstöðumun nemenda.

Sveitarstjórn samþykkir að þessu sinni að greiða kostnað vegna tónlistarnáms þess nemenda sem fellur undir reglur um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til eflingar tónlistarnámi og jöfnunar á aðstöðumun nemenda frá árinu 2011. Öðrum umsóknum hafnað.

2. Erindi frá Umf. Eflingu

Fyrir fundinum liggur erindi frá Kára Steingrímssyni f.h. Umf. Eflingar, dags. 21. ágúst s.l. þar sem sótt er um styrk til sveitarfélagsins  til þess að greiða húsaleigu vegna íþrótta- og æfingatíma barna og unglinga.

Sveitarstjórn samþykkir að vísa erindinu til Félags- og menningarmálanefndar til umfjöllunar.

3. Snjómokstur

Samningar um heimreiðamokstur í sveitarfélaginu eru útrunnir. Sveitarstjóri gerði grein fyrir hugmyndum um endurskipulagningu sem snýr að skilgreiningu snjómoksturssvæða, verklagsreglum, tækjabúnaði og töxtum.

Sveitarstjórn stefnir á að halda áfram að bjóða uppá heimreiðamokstur í sveitarfélaginu.  Sveitarstjóra falið að vinna áfram að endurskipulagningu heimreiðamoksturs í samræmi við umræður á fundinum og auglýsa eftir verktökum til að þjónusta fyrirfram skilgreind svæði í framhaldinu. 

4. Samningur – Sundlaugin á Laugum

Lagður fram samningur milli sveitarfélagsins og North Aurora Guesthouse um tímabundna leigu á Sundlauginni á Laugum vegna atvinnu- og nýsköpunarverkefnisins North Aurora baths sem snýr að aukinni afþreyingu og þjónustu fyrir ferðamenn. Samningurinn er til fjögurra mánaða, frá 1. september til 31. desember 2016.

Sveitarstjórn staðfestir samninginn.  Arnór Benónýsson vék af fundi undir þessum lið vegna vanhæfis.

5. Fundargerð Fræðslunefndar frá 29.08.2016

Lögð fram fundargerð Fræðslunefndar frá 29. ágúst s.l. Margrét gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í 4. liðum.

2. liður fundargerðar; Reglur um skólaakstur í Þingeyjarsveit (drög)

Samþykkt að vísa reglunum til síðari umræðu og afgreiðslu á næsta fundi sveitarstjórnar.

Fundargerðin staðfest að öðru leyti.

6. Tilnefning varafulltrúa í Fræðslunefnd

Þar sem varafulltrúi T lista í Fræðslunefnd, Anna Karen Arnarsdóttir er flutt úr sveitarfélaginu tilnefna fulltrúar T lista Freydísi Önnu Arngrímsdóttur í hennar stað.

Samþykkt samhljóða. 

Til kynningar:

a)      Fundargerðir 283. og 284. funda stjórnar Eyþings

b)     Bændasamtök Íslands – Upplýsingaöflun vegna fjallskila

c)      Áhrif nýrrar húsnæðislöggjafar gagnvart sveitarfélögum

d)     Skýrsla starfshóps sambandsins um stefnumótun í úrgangsmálum

e)      Landsfundur um Jafnréttismál 2016

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:15