Gleðilegt nýtt ár!

Ágætu sveitungar.

Um ármót lítum við gjarnan um öxl, rifjum upp atburði liðins ár og lítum til framtíðar, nýs árs með nýjum tækifærum.

Gott er að eiga góðs að minnast  (Jakobína Sigurðardóttir, Dægurvísa).

Nýliðið ár er fyrsta heila rekstrarár sameinaðs sveitarfélags. Að lokinni sameiningu lágu fjölmörg verkefni fyrir og einkenndist árið af vinnu tengdri sameiningunni ásamt reglubundnum verkefnum stjórnsýslunnar. Ánægjulegt er að segja frá að í desember náðist að fullmanna stjórnsýsluna, samkvæmt nýju skipuriti sem samþykkt var um mitt síðastliðið ár, þegar gengið var frá ráðningu æskulýðs-, tómstunda- og menningarfulltrúa. Óhætt er að segja að nú sé sveitarfélagið vel mannað af starfsfólki, öflugum hópi, sem leggur sitt af mörkum við að byggja upp nýtt sveitarfélag. Hafið öll bestu þakkir fyrir.

Milli nýs og gamals er allt óskapað  (Svava Jakobsdóttir, Gunnlaðar saga).

Með sameiningunni skapast fjölmörg tækifæri til að byggja upp öflugt og framsækið sveitarfélag, þróa og bæta stjórnsýsluna og reksturinn til að Þingeyjarsveit sé í stakk búin til að takast á við fjölmörg og sífellt flóknari verkefni sem sveitarfélögunum eru falin.

Við uppbyggingu nýs sveitarfélags er mikilvægt að hafa skýra framtíðarsýn og marka stefnu, hvert viljum við halda og hvernig ætlum við að fara að því?

Á árinu verður farið í heildarstefnumörkun fyrir nýtt sveitarfélag ásamt stefnumörkun fyrir ákveðna málaflokka s.s. atvinnu-, menningar- og þjónustustefnu. Munu allir íbúar sveitarfélagsins fá tækifæri til að koma að þeirri vinnu á opnum íbúafundum. Á síðasta ári var unnið að nýrri skólastefnu og í lok ársins var hún sett í opið umsagnarferli. Allnokkrar umsagnir bárust og á næstu vikum verður unnið úr þeim og má vænta að ný skólastefna verði kynnt áður en langt um líður.

Á nýliðnu ári var hafist handa við greiningar á ýmsum rekstrarþáttum hjá sveitarfélaginu og verður þeirri vinnu haldið áfram á þessu ári með það að markmiði að ná fram hagræðingu í rekstri í kjölfar sameiningar. Áhersla sveitarstjórnar er að þjónusta íbúa á sem hagkvæmastan hátt en um leið að verja grunnþjónustu.

Tími tækifæra

Ánægjulegt er að íbúum Þingeyjarsveitar fer fjölgandi og fátt sem bendir til annars en að fjölgunin haldi áfram. Því er mikilvægt að uppbygging íbúðarhúsnæðis sé í samræmi við það. Sveitarstjórn hyggst skoða möguleika á því að fara í samstarf við Leigufélagið Bríeti um áframahaldandi uppbyggingu og rekstur íbúða í sveitarfélaginu. Einnig ætlar sveitarstjórn í samstarfi við stjórn Leiguíbúða Þingeyjarsveitar skoða fýsileika þess að sameina Leiguíbúðir Þingeyjarsveitar hses. við húsnæðissamvinnufélagið Brák hses. og halda áfram uppbyggingu íbúða í almenna leigukerfinu. Sveitarstjórn stefnir á að fara í heildarúttekt á eignum sveitarfélagsins s.s. fasteignum, jörðum og félögum með það að markmiði að greina þörf og mikilvægi þeirra fyrir starfsemi sveitarfélagsins.

Helstu framkvæmdir ársins verða m.a. uppbygging nýs stjórnsýsluhúss á Laugum, endurnýjun og viðhald á hitaveitum, framkvæmdir við leikskólann Tjarnaskjól ásamt fjölmörgum minni viðhaldsverkefnum.

Þingeyjarsveit vinnur nú að gerð samstarfssamnings við Mývatnsstofu sem er samnefnari atvinnu- og mannlífs í Þingeyjarsveit. Mývatnsstofa sinnir markaðssetningu, upplýsingaöflun og miðlun ásamt hagsmunagæslu og umræðuvöktun á svæðinu. Með samstarfssamningnum mun Mývatnsstofa halda utan um markaðs-, upplýsinga- og kynningarmál sveitarfélagsins sem og vinna við vef og samfélagsmiðla. Samstarf sem þetta er mikill fengur fyrir sveitarfélagið þar sem hagsmunir atvinnulífs, samfélags og sveitarfélagsins fara saman þegar litið er til framtíðar.

Þingeyjarsveit býr yfir miklum auðlindum og ótal möguleikar og tækifæri eru handan við hornið. Tækfæri sem við þurfum að nýta og byggja þannig traustan grunn fyrir góð búsetuskilyrði allra aldurshópa í Þingeyjarsveit.

Hvað boðar nýárs blessuð sól – kvað Matthías Jochumsson – hvað hún boðar okkur íbúum Þingeyjarsveitar mun tíminn leiða í ljós, en: sú framtíð sköpuð af fólksins höndum er framtíðin þín orti Jakobína Sigurðardóttir sumarið 1954 og eiga orð hennar enn vel við í dag.

Ágætu íbúar, ég óska ykkur gleðilegs nýs árs og farsældar um leið og ég þakka fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir sveitarstjóri.