Einstakt verkefni á heimsvísu við bæjardyrnar

Frá vinstri: Arnór Benónýsson sveitarstjórnarfulltrúi, Björn Þór Guðmundsson framkvæmdastjóri KMT, G…
Frá vinstri: Arnór Benónýsson sveitarstjórnarfulltrúi, Björn Þór Guðmundsson framkvæmdastjóri KMT, Gerður Sigtryggsdóttir oddviti, Hjalti Páll Ingólfsson framkvæmdastjóri GEORG og formaður fjármögnunarnefndar KMT og Ottó Elíasson framkvæmdastjóri Eims, í München.

Í byrjun apríl fóru Gerður Sigtryggsdóttir oddviti og Arnór Benónýsson sveitarstjórnarfulltrúi á málþing um Kröflu Magma Testbed í München í Þýskalandi. KMT er risa stórt alþjóðlegt jarðvísindaverkefni sem fram fer við Kröflu í Mývatnssveit.

Árið 2009 kom í ljós að bergkvikan í Kröflu er einstaklega grunnstæð þegar borað var í kviku á tveggja km dýpi fyrir slysni. Krafla er eini staðurinn í heiminum þar sem er vitað nákvæmlega hvar kviku er að finna í eldfjalli og slík vitneskja skapar einstakt tækifæri fyrir jarðvísindasamfélagið. Verkefnið felst í að bora ofan í bergkvikuna við Kröflu og koma þar fyrir mælitækjum til að öðlast aukna þekkingu á tengslum jarðhita og bergkviku og kanna möguleika á nýtingu þess mikla varma sem í kvikunni felst. Verkefnið er gríðarlega umfangsmikið og fyrsta sinnar tegundar í heiminum.

Ásamt því að gera rannsóknir á bergkvikunni stendur til að byggja upp alþjóðlega rannsóknarmiðstöð í jarðhitafræðum með aðstöðu fyrir vísindamenn við Kröflu, fræðslumiðstöð og efla samstarf við skóla og íbúa nærumhverfisins. 

„Málþingið var haldið í TUM, Technical University of München og var tilgangur þess að sameina jarðvísindafólk og djúpborunarsérfræðinga til að miðla þekkingu á Kröflu verkefninu. Ég sat einnig fund með forsvarsmönnum verkefnisins ásamt fulltrúum nokkurra af þeim ríkjum sem hafa skuldbundið sig til þátttöku. Staðgengill ráðuneytisstjóra í umhverfisráðuneytinu tók einnig þátt í þeim fundi og staðfesti þátttöku íslenska ríkisins í KMT verkefninu. Verkefnið er af áður óþekktri stærðargráðu og einstakt á heimsvísu.

Það vekur okkur einnig til umhugsunar um samband manns og náttúru og stöðuga tilhneigingu okkar mannfólksins til að temja náttúruna. Næsta víst er að verkefnið mun hafa jákvæð áhrif á íslenskt vísindastarf, efnahagslíf og mannlíf. Tækifærin sem geta skapast hér á svæðinu eru fjölmörg og fjölbreytileg þegar Krafla verður miðstöð vísindarannsókna á Íslandi fyrir jarðhita- og eldfjallafræði. Stofnunin getur tekið á móti hundruðum vísindafólks árlega, hvaðanæva úr heiminum ýmist til rannsókna eða sem gesta á ráðstefnum tengdum viðfangsefninu. Mikil tækifæri felast í því að flétta viðfangsefnið inn í skólastarf á öllum skólastigum. Sá mikli fjöldi vísindafólks og starfsmanna sem munu koma að verkefninu munu þurfa þjónustu frá nærsamfélaginu, gistingu, veitingaþjónustu, afþreyingu og eins mun verkefnið opna á tækifæri til nýsköpunar í hátækni, kennslu, ferðaþjónustu og jafnvel ýmsu öðru“ segir Gerður. 

Fyrri holan verður boruð árið 2026 og fer niður að mörkum jarðhita og bráðinnar bergkviku þar sem verður komið fyrir mælitækjum.  Síðari holan sem fer niður í efsta lag kvikunnar þar sem er búist við því að hitinn sé um  900°C og kvikan fljótandi, verður gerð árið 2028. Í þeirri holu verða gerðar rannsóknir til að greina betur möguleika á beinni nýtingu varmans sem í kvikunni er og þeim tæknilegu áskorunum sem því fylgja. Gert er ráð fyrir vísindasetri við Kröflu árið 2030.

Verkefnið er leitt af KMT sem er sjálfseignarstofnun 24 fyrirtækja og stofnana, bæði innlendra og erlendra.

Í kjölfar málþingsins hefur Ragnheiður Jóna sveitarstjóri verið í sambandi við framkvæmdastjóra verkefnisins og skoðað tækifærin sem gætu falist í samstarfi sveitarfélagsins við verkefnið.

Það er vægt til orða tekið að verkefnið geti haft gríðarlega jákvæð áhrif á nærsamfélagið okkar!