Sveitarstjórar Norðurþings og Þingeyjarsveitar funduðu í dag með innviðaráðherra og lykilstarfsfólki innviðaráðuneytis vegna áætlunarflugs um Húsavíkurflugvöll í Aðaldal. Niðurstaða fundarins kemur fram í sameiginlegri fréttatilkynningu aðila.
„Flugfélagið Ernir hefur haldið út reglubundnu áætlunarflugi milli Reykjavík og Húsavíkur frá árinu 2012. Flugið hefur verið rekið á markaðslegum forsendum, án beinna opinberra styrkja. Nú er ljóst að breyting hefur orðið á og hafa forsvarsmenn félagsins upplýst sveitarfélögin á svæðinu um að áætlunarflugi verði ekki haldið áfram án stuðnings. Viðræður hafa farið fram á milli innviðaráðuneytisins og sveitarfélaganna Norðurþings og Þingeyjasveitar um málið þar sem rætt er um möguleika þess að til komi opinber stuðningur við flug til Húsavíkur, afmarkað yfir vetrarmánuðina. Aðilar eru sammála um það að mikilvægt sé að greina vel forsendur fyrir slíkum stuðningi og stefna að því að ljúka þeirri vinnu fyrir næstu mánaðarmót með farsælli niðurstöðu.“
Sveitarstjórnir sveitarfélaganna beggja munu halda áfram vinnu með innviðaráðuneytinu að lausn málsins.