S
M
Þ
M
F
F
L
28
29
30
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
1
2
3
4
5
6
7
8
Fyrri mánuður
október 2014
Næsti mánuður
Kortasjá Þingeyjarsveitar
Myndavefur Þingeyjarsveitar

22. október 2014

 Það verður rafmagnslaust í Bárðadal að Víðikeri, Bjarnastöðum, Rauðafelli, Engidal, Stóra Tunga, Mýri og Bólstaður á morgun fimmtudaginn 23.10.2014 frá klukkan 13:00 til 17:00.

 Þetta er síðasta straumleysið sem þörf er á vegna styrkingar á línunni sem Rarik hefur unnið að undanfarið.

 

 

17. október 2014

Eins og fram kemur í bókun sveitarstjórnar frá 16. okt. s.l.  hefur sveitarstjórn samþykkt að ganga til samninga við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um að framkvæma skoðanakönnum meðal kosningabærra manna í sveitarfélaginu um fyrirkomulag grunnskólastigs Þingeyjarskóla. Þar með verður breyting á stefnu A listans um íbúakosningu eins og talað var um fyrir kosningar.

Ástæður fyrir þessari stefnubreytingu eru nokkrar og skulu þær tíundaðar hér.

Í kosningabaráttunni og í sumar hafa þær raddir heyrst að íbúakosningar, með því formi sem stefnt var að, standist ekki sveitarstjórnarlög eða í besta falli séu á gráu svæði hvað þau varðar.

Meirihluti sveitarstjórnar hlustar og leggur áherslu á að vanda til verka í jafn viðamiklu og viðkvæmu máli. Því var ákveðið að leita til Guðjóns Bragasonar sviðsstjóra lögræði- og velferðarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það er hans mat að íbúakosningar eins og fyrirhugaðar voru gætu skapað lögfræðilega óvissu eins og segir í bréfi frá honum:

   

„ Minn skilningur á 107. gr. sveitarstjórnarlaga er að íbúakosning nái til allra kosningarbærra íbúa sveitarfélagsins, þótt ég vilji ekki alveg útiloka aðrar útfærslur. Mér þykir við hæfi að minna á að ákvarðanir um breytingar á skólahaldi snúa ekki eingöngu að hagsmunum nemenda og foreldra þeirra, auk hagsmuna starfsfólks skólanna og t.d. verktaka sem sinna skólaakstri. Þessi mál snúast að jafnaði líka um fjárhagslega hagsmuni sveitarfélagsins og þar með allra íbúa þess. Ef hugmyndin er sú að einungis hluti íbúa fái að taka þátt í íbúakosningu er því ákveðin hætta á því að einhverjir íbúar kæri slíka ákvörðun. [...]mögulega myndi vönduð skoðanakönnun um málið leiða fram skýrari afstöðu til málsins heldur en íbúakosning. Í skoðanakönnun gæti líka verið betri möguleiki að greina afstöðu íbúa sveitarfélagsins eftir búsetu og væri líklega aðferðafræðilega ekkert því til fyrirstöðu að allir íbúar á ákveðnu aldursbili geti verið í úrtaki“

 

Eins átti oddviti fund með Ólafi Hjörleifssyni lögfræðingi í Innanríkisráðuneytinu og sjónarmið hans voru þau sömu og hjá Guðjóni.

Það er sannfæring fulltrúa meirihlutans í sveitarstjórn að versta hugsanlega niðurstaða í þessu máli væri að það yrði viðfangsefni lögfræðitúlkana og kærumála. Því finnst okkur rétt að hlíta ráðum þessara manna og efna til skoðanakönnunar í sveitarfélaginu.

Gengið er út frá því að þrátt fyrir að könnunin nái til allra kjörgengra íbúa sveitarfélagsins þá verði skilgreint hvert viðhorfið er á skólasvæði Þingeyjarskóla eins og stefnt var að með íbúakosningunni. Það var alltaf megin markmið að leita eftir sjónarmiðum íbúa á skólasvæði Þingeyjarskóla og verður það gert með þessum hætti.

Á fyrrnefndum sveitarstjórnarfundi var auk þess samþykkt að boða til íbúafundar 28. október n.k.  Á þeim fundi munu þeir Haraldur Líndal Haraldsson, Ingvar Sigurgeirsson og Bjarni Þór Ólafsson fylgja úr hlaði greinargerðum sem þeir hafa unnið um starfsemi Þingeyjarskóla og svara fyrirspurnum. Eins mun Guðjón Bragason lögfræðingur mæta á fundinn.

Í tengslum við fundinn verða greinagerðirnar aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins og hálfum mánuði síðar mun Félagsvísindastofnun framkvæma skoðanakönnunina í gegnum síma. Úrvinnslu könnunarinnar ætti að vera lokið í síðasta lagi um mánaðamótin nóvember desember og í framhaldi af því tekur sveitarstjórn ákvörðun um fyrirkomulag á starfi Þingeyjarskóla  frá og með næsta skólaári, það er frá 1. ágúst 2015.  Þetta er ferlið eins og það liggur fyrir og við væntum að meiri upplýsingar leiði til aukins skilnings og samstöðu í þessu viðkvæma máli.

Sveitarstjórn hefur ákveðið að þar sem verið er að framkvæma skoðanakönnun í sveitarfélaginu sé rétt að nota tækifærið og kanna hug íbúanna til ljósleiðaravæðingar. Því munu í könnuninni verða nokkrar spurningar sem tengjast lagningu ljósleiðara um sveitarfélagið.

Af því tilefni er rétt að upplýsa kosti þess að leggja ljósleiðar um sveitarfélagið.

Við könnumst flest við annmarka þeirra fjarskipta sem okkur er boðið uppá í dag. Okkur er t.d. ekki boðið uppá nema lítinn hluta þeirra sjónvarps- og útvarpsstöðva sem flestir landsmenn njóta, það mun gjörbreytast með tilkomu ljósleiðara sem og allar tölvutengingar og önnur vinnsla.  Ljósleiðari er besta mögulega nettenging sem völ er á og mun breyta verulega aðstæðum til atvinnuuppbyggingar og náms.

Með ósk um gott og málefnalegt samstarf í þessum stóru hagsmunamálum sveitarfélagsins

 

Fyrir hönd fulltrúa A-lista

Arnór Benónýsson oddviti

 

14. október 2014

Fundarboð

155. fundur verður haldinn

í Kjarna fimmtudaginn 16. október kl. 13:00

 

 

Dagskrá:

 

1.      Hluthafafundur Norðurorku hf.

2.      Starfshættir í sveitarstjórn

3.      Íbúafundur

4.      Verkefnistillaga frá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands

 

 

Til kynningar:

 

a)      Fundargerð 819. og 820. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga

b)      Fundargerð stjórnar Sorpsamlags Þingeyinga ehf. frá 29.09.2014

c)      Ályktun frá Skógræktarfélagi Íslands

d)      Ályktun frá Félagi tónlistarskólakennara

 

 

Sveitarstjóri

 

 

13. október 2014

Íbúafundur verður haldinn í Skjólbrekku, Mývatnssveit, miðvikudaginn 15. október nk. kl. 20:00.
Efni fundarins tengist eldsumbrotunum í Holuhrauni og margvíslegra áhrifa þess á daglegt líf fólks.
Fulltrúar almannavarna, Umhverfisstofnunar og viðbragðsaðila sitja fyrir svörum.

Íbúar Þingeyjarsveitar eru eindregið hvattir til að mæta.

 

13. október 2014

Á undanförnum vikum hefur loftmengandi gasefnið brennisteinsdíoxíð SO2 borist frá eldstöð í Holuhrauni norðan Vatnajökuls til íbúa í mörgum sveitarfélögum og hefur styrkur efnisins stundum verið svo mikill að mælt er með mjög afgerandi varnaraðgerðum, svo sem að halda sig innandyra, loka öllum gluggum, hækka hitastig innanhús o.þ.h.

Svo virðist að útbreiðsla brennisteinsdíoxíðs mun halda áfram um sinn og því er aðkallandi að huga að upplýsingagjöf til almennings sem er einföld í nálgun, áreiðanleg og skiljanleg.

Brennisteinsdíoxíð er ertandi lofttegund vegna þess að það myndast brennisteinssýra þegar efnið kemst í snertingu við vatn, jafnvel þó litlu magni sé, eins og t.d. á slímhimnum. Ekki er reynsla hér á landi af svo þrálátri loftmengun sem raun ber vitni. Málið snertir flesta íbúa landsins, suma mjög mikið vegna nálægðar við eldstöðina. Upplýsingagjöf um málið hefur ekki verið nægilega kerfisbundin og almenningur þarf að leita sér upplýsinga eftir fleiri en einni leið, t.d. með því að fara á vefsíður opinberra aðila.

Mælingar á loftmengun eru ekki gerðar á öllum þéttbýlissvæðum og því þarf oft að meta út frá næstu loftgæðamælistöð, sem getur verið á svæði þar sem engin loftmengun er, á sama tíma og hún er talsverð hjá viðkomandi sem er að leita að leiðbeiningum um hvernig best sé að halda sig frá loftmengun. Sums staðar hefur heilbrigðiseftirlitið frumkvæði að því að láta t.d. skóla og leikskóla vita ef loftmengun nálgast mikinn styrk.

Hér að neðan eru nokkur góð ráð um hvernig hægt er að nálgast upplýsingar um loftmengun. Til að kanna hvort ástæða er til að gera varúðarráðstafanir er hægt að gera eftirfarandi:

  1. Fara að morgni dags á vefsíðu um dreifingu loftmengunar og fylgjast með fram eftir degi ef ástæða er til: http://www.vedur.is/vedur/spar/textaspar/oskufok/. Ef rennt er niður síðuna og smellt á „nýjustu keyrslu“ má fá mat á dreifingu loftmengunar u.þ.b. sólarhring fram í tímann.
  2. Fara á vefsíðu Umhverfisstofnunar http://www.ust.is/einstaklingar/loftgaedi/maelingar og velja sér loftgæðamælistöð næst viðkomandi stað. Athugið að velja brennisteinsdíoxíð (SO2) ef fleiri mengunarefni er mæld í stöðinni. Íbúar í Reykjavík geta t.d. farið á vefsíðu Reykjavíkurborgar http://reykjavik.is/loftgaedi. og fengið frekari upplýsingar um loftmengun.

Ef loftmengun verður óviðunandi á tilteknu svæði má búast við að almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, landlæknisembættið og fleiri opinberir aðilar gefi út viðvaranir.

Fólk getur verið misjafnlega viðkvæmt fyrir loftmengandi efnum. Þeim sem eru viðkvæmir fyrir áhrifum slíkra efna er ráðlagt að fylgjast náið með spáum um dreifingu mengunarefna.

Gott er líka að hafa í huga að allt mat á loftmengunarhættu gildir fyrst og fremst fyrir fullorðið fólk. Ungabörn eru almennt viðkvæmari fyrir loftmengun og ættu þau ekki vera utandyra, t.d. sofandi í barnavagni, ef spár um dreifingu mengunarefna gefa til kynna að mengunar sé að vænta á tilteknu svæði.

Eftirfarandi aðilar hafa hlutverki að gegna í viðbrögðum við vá frá náttúrufyrirbærum sem eldgos eru:

  • Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra vegna samhæfingar aðgerða og tilkynningar til almennings ef vá er á ferðum. Vefsíða: http://www.almannavarnir.is/
  • Veðurstofa Íslands og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands vegna jarðfræðilegra og jarðeðlisfræðilegra mælinga og líkangerðar svo og tilkynningar á því sem er að gerast. Vefsíður: http://www.vedur.is/ og http://www.jardvis.hi.is/. Þessar síður hafa fyrst og fremst vísindalegt gildi en þessi síða sýnir spá um dreifingu gass frá eldstöðinni http://www.vedur.is/vedur/spar/gasdreifing.
  • Umhverfisstofnun vegna loftgæðamælinga, upplýsinga um loftmengun, leiðbeiningar og tilkynningar til almennings um viðbrögð við loftmengun. Vefsíða: http://www.ust.is/einstaklingar/loftgaedi/maelingar. Hér má velja gasmælistöð og skoða loftgæði liðandi stundar. Ekki þarf að spá mikið í mæligildum því með litavalinu er gefið til kynna núverandi ástand (grænn litur = góð loftgæði, gulur litur = nálgast óviðunandi ástand, rauður litur = óviðunandi ástand).
  • Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga vegna loftgæðamælinga, leiðbeiningar og tilkynningar til almennings um viðbrögð við loftmengun. Sum heilbrigðiseftirlit reka loftgæðamælistöðvar, t.d. í Reykjavík: http://reykjavik.is/loftgaedi.
  • Landlæknisembættið vegna upplýsinga um heilsuhættur og leiðbeininga um rétt viðbrögð við að halda sig frá loftmengandi efnum. Vefsíða: http://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item24696/Eldgosid-i-Holuhrauni---Upplysingar