312. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022

13.01.2022

312. fundur

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022

haldinn í fjarfundi fimmtudaginn 13. janúar kl. 13:00

Fundarmenn

Arnór Benónýsson, Margrét Bjarnadóttir, Árni Pétur Hilmarsson, Jóna Björg Hlöðversdóttir, Ásvaldur Ævar Þormóðsson, Freydís Anna Ingvarsdóttir og Sigríður Hlynur Helguson Snæbjörnsson 

Starfsmenn

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði: Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.

Dagskrá:

1.

Vetrarhátíð við Mývatn: Samningur - 2110010

 

Lagður fram styrktarsamningur við Mývatnsstofu ehf. vegna Vetrarhátíðar við Mývatn í framhaldi af 306. fundi sveitarstjórnar þann 14.10.2021. Markmiðið er að stækka hátíðina og bæta við viðburðum í Þingeyjarsveit. Styrkupphæðin er kr. 960.000.

 

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi samning og felur sveitarstjóra að skrifa undir hann. Styrkfjárhæðin rúmast innan gildandi fjárhagsáætlunar 2022.

 

   

2.

KOLNÍN: Hrappstaðir - 2201004

 

Lagt fram erindi frá Sigurlínu Tryggvadóttur f.h. KOLNÍN, kolefnisbindingarverkefnisins, ódags. þar sem óskað er eftir þátttöku Þingeyjarsveitar með því að veita svæði undir uppgræðslu og skógrækt í landi Hrappstaða sem er í eigu sveitarfélagsins.

 

Sveitarstjórn tekur jákvætt í erindið og vísar því til endurskoðunar aðalskipulags þar sem umrætt svæði verði skilgreint uppgræðslu og skógræktarsvæði.

 

   

3.

Vegagerðin: Fundur um snjóflóðamál á hringvegi (1-q5) um Ljósavatnsskarð - 2201007

 

Fundur var haldinn með fulltrúum Vegagerðarinnar, Veðurstofunnar og Þingeyjarsveitar þann 4. janúar s.l. þar sem farið var yfir snjóflóðamál í Ljósavatnsskarði. Fundurinn var haldinn að beiðni sveitarfélagsins og ætlaður til upplýsingar, sérstaklega til þeirra sem aka skólabílum þar um. Veðurstofan hóf reglulega vöktun á svæðinu veturinn 2020-2021 og þar með snjóflóðaspá fyrir þennan kafla sem er afar jákvætt. Rætt hefur verið um mögulega hjáleið vestan Ljósavatns þegar þjóðveginum er lokað vegna snjóflóðahættu en það þykir ekki fýsilegur kostur að mati Vegagerðarinnar miðað við ástand vegarins í dag.

 

Sveitarstjórn leggur áherslu á mikilvægi þess að hjáleið um Ljósavatnsskarðs verði raunverulegur kostur. Þegar leið um Ljósavatnsskarð lokast vegna snjóflóðahættu eða snjóflóða þá er engin önnur leið fær nema austur fyrir land. Því er hér um að ræða mikilvæga lausn út frá öryggi og búsetugæðum íbúa austan Ljósavatnsskarðsins. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra og oddvita að vinna málið áfram og kynna stöðuna fyrir þingmönnum kjördæmisins, samgöngunefnd Alþingis og ráðherra samgöngumála að höfðu samráði við landeigendur.

 

   

4.

Hjólreiðafélag Akureyrar: Íslandsmót í tímatöku - 2201003

 

Lagt fram erindi frá Árna F. Sigurðssyni, formanni Hjólreiðafélags Akureyrar, dags. 6.01.2022. Hjólreiðafélag Akureyrar hefur tekið að sér að halda Íslandsmót í tímatöku og götuhjólreiðum fyrir Hjólreiðasamband Íslands sumarið 2022. Óskað er eftir umsögn Þingeyjarsveitar sem og góðu samstarfi en viðburðurinn fer að hluta til fram í sveitarfélaginu.

 

Sveitarstjórn tekur jákvætt í erindið og lýsir sig reiðubúna til samvinnu eftir því sem við á.

 

   

5.

N4 ehf.: Samstarf ellefu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra - 2201005

 

Lagt fram erindi frá Maríu Björk Ingvadóttur framkvæmdastjóra N4 ehf., dags. 17.12.2021 þar sem verið er að kanna áhuga ellefu sveitarfélaga innan SSNE um samningsstyrk til starfsemi stöðvarinnar. Einnig lögð fram ályktun frá stjórn N4 til fjárlaganefndar Alþingis vegna fyrirætlana um að skerða styrki til frjálsra fjölmiðla á næsta ári.

 

Sveitarstjórn tekur jákvætt í erindið og felur sveitarstjóra að vinna málið áfram í samvinnu við önnur sveitarfélög á svæðinu.

 

   

6.

Húsnæðisáætlun Þingeyjarsveitar 2022 - 1904020

 

Fyrir liggur uppfærð Húsnæðisáætlun Þingeyjarsveitar 2022 til samþykktar.

 

Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi Húsnæðisáætlun Þingeyjarsveitar 2022 sem verður aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins að fundi loknum.

 

   

7.

Skýrsla sveitarstjóra - 1903026

 

Sveitarstjóri fór yfir helstu verkefni úr starfi sveitarfélagsins síðustu vikur.

 

Framkvæmdir í Seiglu
Á fundi sveitarstjórnar þann 28. október s.l. samþykkti sveitarstjórn að hefja framkvæmdir í Seiglu (Áður Litlulaugaskóli) og undirbúa flutning skrifstofu stjórnsýslu sveitarfélagsins þangað í framhaldinu. Undirbúningur er hafinn, hönnunarvinna er á lokastigi og reiknað er með að framkvæmdir hefjist í febrúar og flutningur eigi sér stað fyrir lok þessa árs.
Hluti starfseminnar sem fyrir er í Seiglu mun verða þar áfram um sinn ásamt skrifstofu sveitarfélagsins eins og snyrti- og hárgreiðslustofan og Þekkingarnet Þingeyinga. Bókasafn Reykdæla verður flutt yfir í húsnæði leikskólans Krílabæjar þar sem áður var tónlistarskóli. Mötuneyti leikskólans verður lagt niður og samið hefur verið við Dalakofann um matarsendingarnar sem hefjast um miðjan þennan mánuð.
Áfram verður unnið að eflingu heilsugæslu á svæðinu sem fyrirhugað er að verði starfrækt í núverandi húsnæði skrifstofu sveitarfélagsins.

Framvinda vinnu vegna sameiningar Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps
Undirbúningur sameiningar sveitarfélaganna er í fullum gangi og reiknað með að starfshópar skili sinni vinnu nú í febrúar.
Á allra næstu dögum mun fara fram hugmyndasamkeppni um nafn á nýju sveitarfélagi en opnað verður fyrir aðgang að tillögum íbúa og annarra þar sem þeim verður safnað saman. Í framhaldinu verða vel valdar tillögur lagðar fram fyrir íbúa og það nafn sem hlýtur flest atkvæði verður lagt fram fyrir nýja sveitarstjórn sem tekur endanlega ákvörðun um val á nafni nýs sveitarfélags.
Fundur var haldinn með skólastjórum grunnskólanna í Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi þar sem rætt var um sameiginlega viðburði skólanna á vorönn 2022. Aukið samstarf elstu bekkinga er liður í Menntasókn í norðri sem er verkefni sveitarfélaganna samhliða sameiningunni.
Stefnt er á opinn íbúafund beggja sveitarfélaga þann 9. febrúar n.k. til að kynna framvindu sameiningarvinnunnar sem og annað sem er að gerast í sveitarfélögunum því tengt og ótengt.

Skriður í Útkinn
Samantekt vegna skriðufallanna í Útkinn sem féllu í haust er á lokastigi, m.a. skýrsla RML, samantekt fulltrúa ábúenda og minnisblað Veðurstofu Íslands. Sveitarfélagið hefur gengið frá samningi við EFLU verkfræðistofu til að vinna mat kostnaðar við endurbætur eftir skriðuföllin á grundvelli fyrrgreindra gagna. Skýrsla RML hefur nú þegar verið send til Bjargráðasjóðs en heildarsamantekt ásamt kostnaðarmati vegna endurbóta verður sent forsætisráðuneytinu þegar það liggur fyrir.

Vaðlaheiðargöng hf.
Viðræður milli hluthafa Vaðlaheiðarganga hf. og ríkisins um endurfjármögnun ganganna hafa staðið yfir síðast liðið ár sem lauk með tillögu lánveitanda nú rétt fyrir áramótin. Aukahluthafafundur var haldinn í Greiðri leið ehf. þann 29. desember s.l. þar sem tillagan var kynnt hluthöfum. Í framhaldinu samþykkti hluthafafundurinn að heimila stjórn félagsins að samþykkja tillögu lánveitanda um endurfjármögnun. Greið leið ehf. fer nú með 66% hlut í Vaðlaheiðargöngum en félagið er í eigu allra sveitarfélaga á Norðurlandi eystra en einnig eiga nokkur fyrirtæki hlut í félaginu.

 

   

8.

Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE): Fundargerð - 2002017

 

Fundargerð 32. fundar stjórnar SSNE

 

Lögð fram til kynningar.

 

   

9.

Samband íslenskra sveitarfélaga: Fundargerð - 1804006

 

Fundargerð 904. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 

Lögð fram til kynningar.

 

   

Fundi slitið kl. 14:27.