310. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn

09.12.2021

310. fundur

haldinn í Seiglu fimmtudaginn 09. desember kl. 13:00

Fundarmenn

Arnór Benónýsson, Margrét Bjarnadóttir, Árni Pétur Hilmarsson, Jóna Björg Hlöðversdóttir, Ásvaldur Ævar Þormóðsson, Sigurbjörn Árni Arngrímsson og Sigríður Hlynur Helguson Snæbjörnsson.

Starfsmenn

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði: Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.

Fornleifaskráning á Flateyjardal og í Náttfaravíkum - 2101013

Lagt fram bréf frá Kristborgu Þórisdóttur fornleifafræðingi hjá Fornleifastofnun Íslands, dags. 7.12.2021. Erindi Kristborgar er að kanna áhuga sveitarstjórnar á því að styrkja að hluta ítarlega fornleifaskráningu á Flateyjardal og í Náttfaravíkum. Um er að ræða tveggja ára verkefni þar sem sótt er um í Fornminjasjóð með mótframlagi sveitarfélagsins að upphæð 2 m.kr.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða styrk til verkefnisins með þeim fyrirvara að styrkur fáist úr Fornminjasjóði.

   

Gjaldskrár 2022 - 2111017

Gjaldskrár 2022 teknar til síðari umræðu og lagðar fram til samþykktar. Engar gjaldskrár hækka umfram verðlagshækkun sem er samkvæmt Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands og minnisblaði Sambands íslenskra sveitarfélaga um forsendur fjárhagsáætlunar 2022-2025 dags. 1. desember 2021 sem er um 3%.

Framlagðar gjaldskrár Þingeyjarsveitar 2021 samþykktar samhljóða. Gjaldskrár 2021 verða aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins að fundi loknum.

   

Viðauki við fjárhagsáætlun 2021 - 2106003

Lagðir fram tveir viðaukar við fjárhagsáætlun 2021.

Viðauki nr. 3: Viðskiptakröfur aðalsjóðs á veitustofnanir að fjárhæð 26.964 þús. kr. breytt í langtímakröfu. Afborgun ársins nemur 1.130 þús.kr. og vextir 581 þús.kr.

Viðauki nr. 4: Kaup á fasteign, húsnæði Matarskemmunnar á Laugum að fjárhæð 23 m.kr. sem er liður í innviðauppbyggingu sveitarfélagsins sem mætt verður með lántöku.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi viðauka við fjárhagsáætlun 2021.

   

Fjárhagsáætlun 2022-2025: Seinni umræða - 2109005

Fjárhagsáætlun Þingeyjarsveitar 2022-2025 lögð fram til síðari umræðu og afgreiðslu með þeim breytingum sem hafa verið gerðar á milli umræðna. Sveitarstjóri gerði grein fyrir áætluninni ásamt skrifstofustjóra sem sat fundinn undir þessum lið.

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 eru heildartekjur A og B hluta 1.456 m.kr. sem er 238 m.kr. hærra en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun fyrir árið 2021. Gert er ráð fyrir hærri útsvarstekjum árið 2022 en þær voru varlega áætlaðar árið 2021, en ljóst að þær verða hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Einnig er gert ráð fyrir hærri framlögum úr Jöfnunarsjóði í áætlun fyrir árið 2022 vegna sameiningar við Skútustaðahrepp sem áætlað er að nemi 119 m.kr. á næsta ári.

Rekstrargjöld A og B hluta árið 2022 eru áætluð 1.314 m.kr. sem er hækkun um 67 m.kr. miðað við fjárhagsáætlun 2021. Þar ber helst að nefna almenna verðlagshækkun á þjónustu og þegar umsamdar launahækkanir.

Rekstrarniðurstaða A og B hluta eftir afskriftir er áætlaður 50 m.kr. fyrir árið 2022 og er mikill viðsnúningur frá fyrra ári þar sem gert var ráð fyrir rekstrarhalla uppá 116,8 m.kr.
Áætlaðar fjárfestingar A og B hluta nema 178 m.kr. á árinu 2022 og lántaka til fjárfestinga samtals 140 m.kr.

Helstu fjárfestingar eru bygging hjúkrunarheimilis á Húsavík, framkvæmdir í Seiglu vegna flutnings skrifstofu og malbikunarframkvæmdir og bílaplan við Þingeyjarskóla.

Í þriggja ára áætlun er gert ráð fyrir rekstrarafgangi öll árin og hóflegri lántöku þrátt fyrir töluverðar fjárfestingar öll fjögur árin. Um mitt næsta ár mun sveitarfélagið sameinast Skútustaðahreppi og fjárhagsáætlanir beggja sveitarfélaga renna saman í eina áætlun, þriggja ára áætlunin tekur því mið af sameiningu sveitarfélaganna og þeim tækifærum sem felast í henni.

Framlögð fjárhagsáætlun Þingeyjarsveitar 2021-2025 samþykkt samhljóða.

   

Skipulags- og umhverfisnefnd: Fundargerð - 1804018

Lögð fram fundargerð 143. fundar Skipulags- og umhverfisnefndar frá 2.12.2021. Jóna Björg gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í fjórum liðum.

2. liður fundargerðar; Beiðni um umsögn vegna áforma um aflaukningu Hólsvirkjunar - 2111020
Sveitarstjórn tekur undir bókun skipulags- og umhverfisnefndar um að framkvæmdaraðili geri nægjanlega grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar og umhverfisáhrifum að teknu tilliti til viðmiða í 2. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Sveitarstjórn felur skipulagsfulltrúa að veita umsögn til Skipulagsstofnunar.

Fundargerðin staðfest að öðru leyti.

   

Félags- og menningarmálanefnd: Fundargerðir - 1804034

Lögð fram fundargerð 68. fundar Félags- og menningarmálanefndar frá 7.12.2021. Sigríður Hlynur gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í þremur liðum.

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina.

   

Húsnæðisáætlun Þingeyjarsveitar 2019-2026: Uppfærsla - 1904020

Tekið fyrir erindi varðandi uppfærslu húsnæðisáætlunar Þingeyjarsveitar. Húsnæðis og mannvirkjastofnun hefur komið því á að húsnæðisáætlanir sveitarfélaganna verði stafrænar og á stöðluðu formi frá og með 2022. Því er unnið að uppfærslu húsnæðisáætlunar Þingeyjarsveitar sem var samþykkt í sveitarstjórn 14.maí 2020.

Uppfærslu framhaldið í samræmi við umræður á fundinum.

   

Breytingar á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 og gerð deiliskipulags vegna Einbúavirkjunar: Erindi - 1908034

Tekið fyrir öðru sinni erindi frá Hilmari Ágústssyni, dags. 6.09.2021 þar sem hann ítrekar ósk sína um breytingu á aðalskipulagi og heimild til að vinna deiliskipulag. Erindið var lagt fram í sveitarstjórn 29. september s.l. og vísaði sveitarstjórn þá til fyrri bókunar sinnar frá 11.02.2021 þar sem samþykkt var að vísa tillögunni til heildarendurskoðunar á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar áréttar sjónarmið er liggja til grundvallar stefnumótun sem unnið er að á vettvangi sveitarfélagsins um hagnýtingu til framtíðar á landgæðum við Skjálfandafljót. Í þeirri vinnu hafa þau sjónarmið mikið vægi að bygging og rekstur vatnsaflsvirkjana í Skjálfandafljóti teljist ekki til æskilegrar landnýtingar við fljótið, sbr. kafli 4.1 í gildandi aðalskipulagi 2010-2022.

Sveitarstjórn ákvað á fundi sínum þann 11. febrúar sl. að setja erindi Einbúavirkjunar ehf. í farveg heildarendurskoðunar á aðalskipulagi sem fram fer á grundvelli laga og að teknu tilliti til fyrrgreindra sjónarmiða. Niðurstaða heildarendurskoðunar kemur til afgreiðslu sveitarstjórnar og verður þá kynnt aðilum máls lögum samkvæmt.

Ásvaldur Ævar Þormóðsson sat hjá við afgreiðslu málsins.

   

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra: Breyting á samþykkt nr. 463/2002 um umgengni og þrifnað utan húss - 2112006

Fyrir liggur breyting á samþykkt nr. 463/2002 um umgengni og þrifnað utanhúss á starfssvæði heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra. Breytingin er þess efnis að geymslutími skv. 6. gr. verði styttur úr 45 dögum í 30 daga. Óskað er eftir formlegu svari allra sveitarstjórna á starfssvæði heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra á því hvort sveitarstjórnir sé samþykkar umræddri breytingartillögu. Eftir breytingu er orðalag samþykktarinnar eftirfarandi:

6. gr. samþykktarinnar
Heilbrigðisnefnd er heimilt að fjarlægja skráningarskyld ökutæki án skráningarmerkja, tæki, kerrur, vinnuvélar, báta og aðra lausamuni og drasl á kostnað og ábyrgð eiganda að undangenginni viðvörun, t.d. með álímingarmiða eða ábyrgðarbréfi þar sem eiganda/ábyrgðarmanni skal almennt veittur 7 daga frestur til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri eða bregðast við tilmælum. Telji heilbrigðisfulltrúi svo alvarlega hættu stafa af geymslu hlutar eða tækis að aðgerð þoli enga bið er heimilt að fjarlægja slíka hluti eða tæki án viðvörunar. Bílflökum og öðrum verðlausum hlutum er heimilt að farga strax að loknum fresti sem veittur er samkvæmt 1. málsl., enda hafi þá engin andmæli borist. Skráningarskyld ökutæki án skráningarmerkja og aðrir hlutir og verðmæti sem eru fjarlægð að loknum fresti skulu geymd í vörslu viðkomandi sveitarfélags í 30 daga og síðan fargað hafi eigandi ekki vitjað eigna sinna og leyst út gegn greiðslu áfallins kostnaðar (svo sem dráttar- og geymslugjöld). Heilbrigðisnefnd skal reyna til þrautar að kanna eignarhald og koma tilkynningu með sannarlegum hætti til eiganda. Liggi fyrir skráningarmerki, vélarnúmer eða annað sambærilegt skal eiganda tilkynnt um förgunina með tryggilegum hætti með a.m.k. 15 daga fyrirvara. Þá skal viðkomandi sýslumanni og eftir atvikum bifreiðaskrá og veðhöfum (sé um þá kunnugt) gert viðvart um förgunina með 15 daga fyrirvara. Áfallinn kostnað vegna töku og geymslu skráningarskyldra ökutækja án skráningarmerkja og annarra hluta er heimilt að innheimta hjá eigendum samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Heimilt er að selja nýtilega hluti úr bifreiðum og annað nýtilegt sem er tekið í vörslu og ekki leyst út samkvæmt framansögðu til að mæta kostnaði vegna töku og geymslu.

Samþykkt þessi, sem er samin af Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra og samþykkt af sveitarstjórnum á svæðinu, er sett samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, sbr. ákvæði 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, og öðlast þegar gildi.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða umrædda breytingartillögu.

   

Fjárhagsáætlun 2022-2025 og viðaukar við fjárhagsáætlun 2021 í Skútustaðahreppi - 2112005

Lögð fram fjárhagsáætlun Skútustaðahrepps 2022-2025, sem samþykkt var í sveitarstjórn Skútustaðahrepps þann 8.12.2021, ásamt viðaukum við fjárhagsáætlun Skútustaðahrepps 2021.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samþykkir fyrir sitt leyti, sbr. 121. gr. sveitarstjórnarlaga, fyrirliggjandi fjárhagsáætlun Skútustaðahrepps 2022-2025 sem og viðauka við fjárhagsáætlun Skútustaðahrepps 2021.

   

Samband íslenskra sveitarfélaga: Fundargerð - 1804006

Fundargerð 903. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Lögð fram til kynningar.

   

Héraðsnefnd Þingeyinga: Fundargerð - 1804023

Fundargerð 14. fundar fulltrúaráðs Héraðsnefndar Þingeyinga bs.

Lögð fram til kynningar.

   

Undirbúningsstjórn vegna sameiningar: Fundargerð - 2109007

Fundargerð 4. fundar undirbúningsstjórnar sameiningar.

Lögð fram til kynningar.

Í lok fundar þakkaði oddviti fundarmönnum fyrir samstarfið á árinu sem er að líða og óskaði þeim gleðilegra jóla.