308. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn

11.11.2021

308. fundur

haldinn í Seiglu fimmtudaginn 11. nóvember kl. 13:00

Fundarmenn

Arnór Benónýsson, Margrét Bjarnadóttir, Freydís Anna Ingvarsdóttir, Friðrika Sigurgeirsdóttir, Ásvaldur Ævar Þormóðsson og Sigurbjörn Árni Arngrímsson. Sigríður Hlynur Helguson Snæbjörnsson forfallaðist á síðustu stundu.

 

 

 

Starfsmenn

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.

 

 

Fundargerð ritaði: Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.

Dagskrá:

1.

Skipulags- og umhverfisnefnd: Fundargerð - 1804018

 

Lögð fram fundargerð 142. fundar Skipulags- og umhverfisnefndar frá 04.11.2021. Ásvaldur Ævar Þormóðsson gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í tíu liðum.

 

3. Halldórsstaðir í Reykjadal, umsókn um stofnun lóðar - 2110015
Sveitarstjórn samþykkir erindið og felur byggingarfulltrúa að annast málsmeðferð eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.

5. Deiliskipulag á landi Hóla og Lauta - 2110018
Sveitarstjórn samþykkir tillögu skipulags- og umhverfisnefndar og felur skipulagsfulltrúa leiða áfram þá vinnu sem unnin hefur verið við deiliskipulag Hóla og Lauta, Reykjadal.

6. Loftslagsstefna Þingeyjarsveitar - 2110029
Sveitarstjórn tekur undir bókun skipulags- og umhverfisnefndar um að leitað verði til Skútustaðahrepps um samvinnu við vinnslu loftslagsstefnu fyrir Þingeyjarsveit í samræmi við 5. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál.

7. Reglugerð um sjálfbæra landnýtingu - 2110005
Skipulags- og umhverfisnefnd vísaði því til sveitarstjórnar að taka fyrir drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Umsagnarfrestur er til 11. nóvember 2021.

8. Selland, stofnun þjóðlendu í Þingeyjarsveit - 2110024
Sveitarstjórn samþykkir stofnun þjóðlendunnar Sellands í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar í máli nr. 1/2007 frá 6. júní 2008 og felur skipulagsfulltrúa tilkynna ráðuneytinu um samþykkt þess efnis. Jafnframt felur sveitarstjórn byggingarfulltrúa að senda umsókn um stofnun þjóðlendunnar í fasteignaskrá til Þjóðskrár Íslands.

Fundargerðin staðfest að öðru leyti.

 

   

2.

Sorpsamlag Þingeyinga; Kostnaður vegna athugasemda UST - 2009009

 

Lagt fram erindi frá Drífu Valdimarsdóttur, f.h. Norðurþings, dags. 29.10.2021 um skiptingu kostnaðar vegna frágangs á hluta af hreinsiviki og vísað til samkomulags aðildarsveitarfélaganna um útgöngu úr Sorpsamlagi Þingeyinga ehf. frá 28. nóvember 2014.

 

Sveitarstjórn telur að ákvæði í samkomulagi um sameiginlega ábyrgð sé ekki skýr og á þeim forsendum er erindinu hafnað að svo stöddu. Sveitarstjóra falið að óska eftir viðræðum við fulltrúa aðildarsveitarfélaganna um málið.

 

   

3.

Drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu: Umsögn - 2111007

 

Í samráðsgátt stjórnvalda eru drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu til umsagnar.
Lög um landgræðslu nr. 155/2018 voru samþykkt á Alþingi árið 2018 og er markmið laganna að vernda, endurheimta og bæta þær auðlindir þjóðarinnar sem fólgnar eru í gróðri og jarðvegi og tryggja sjálfbæra nýtingu lands. Í 11. gr. laganna er kveðið á um að ráðherra skuli setja reglugerð með það að markmiði að tryggja sjálfbæra landnýtingu, með leiðbeiningum og viðmiðum þar að lútandi sem taki mið af ástandi lands, m.a. varðandi beit búfjár, umferð fólks og ökutækja, framkvæmdir og akuryrkju.

 

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar tekur undir efnislegar athugasemdir sveitarstjórnar Skútustaðahrepps við drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu:

1.Sjálfbær landnýting snertir marga hagaðila, s.s. bændur, náttúruverndarsamtök og sveitarfélög. Reglugerðin er nokkuð flókin og er mikilvægt hagaðilar geti með auðveldum hætti áttað sig til hvers er ætlast. Lagt er til að orðalag reglugerðarinnar verði einfaldað eins og framast er unnt.

2.Því er fagnað að lögð séu til viðmið varðandi hönnun og uppbyggingu innviða tengt umferð fólks og ökutækja (viðauki 4) og framkvæmdum (viðauki 3). Umferð og framkvæmdir geta haft mikil áhrif á landnýtingu og mikilvægt að taka tillit til þessara þátta eins og beitar og annarra þátta.

3.Tímarammi umbóta þarf að vera raunhæfur m.t.t. stefnumótunar og skipulagsmála í sveitarfélögum. Það er sannarlega þörf á hröðum umbótum í landnotkun víða, en mikilvægt að slíkar umbætur séu fjármagnaðar með fullnægjandi hætti.

4.Mikilvægt er að skilgreina vel hvað telst “straumvatn? í reglugerðinni. Jafnvægi í steinefnabúskap jarðvegs er mikilvæg forsenda sjálfbærrar landnýtingar og þarf því að meta ávinning af dreifingu búfjáráburðar, tilbúins áburðar, seyru og annarra áburðarefna til móts við mögulega áhættu af dreifingunni í samhengi vistkerfa straumvatna. Á Íslandi þarf að horfa til aukinnar notkunar á búfjáráburði, seyru og öðrum innlendum áburðarefnum, í stað tilbúins áburðar, til að stuðla að fæðuöryggi og jafnvægi í gjaldeyrismálum, og væri vert að því verði velt upp hvort notkun slíkra áburðarefna ætti að verðlauna, t.d. með rýmri heimildum til dreifingar en í tilviki tilbúins áburðar. Fyrir bændur þarf að vera skýrt til hvers er ætlast í þessum efnum, ella er hætt við að virðing fyrir þeim viðmiðum sem sett eru fram verði takmörkuð.

5.Umræða um beitarhólf innan afréttarlands hefur átt sér stað í Skútustaðahreppi. Slík hólf kunna að hafa jákvæð áhrif á búskap (t.d. með því að auðvelda smalamennsku) en jafnframt gefa aukna möguleika á landgræðslu, endurheimt birkiskóga og kolefnisbindingu almennt, þar sem hluti þess lands sem hefur verið beittur verður friðaður fyrir beit. Til að mögulegt sé að skilgreina beitarhólf þarf að vera praktískt að girða þau af. Eins og gefur að skilja kunna hlutar slíkra beitarhólfa að falla innan þeirra marka sem skilgreind eru sem “land í ósjálfbærri nýtingu? (sbr. 2.gr viðauka 1). Ef hins vegar beit innan beitarhólfs telst sjálfkrafa ósjálfbær (t.d. sökum hæðar yfir sjó) er hætt við að vilji bænda og landeigenda til að girða slík hólf af muni verða takmarkaður og tækifæri til jákvæðra breytinga glatist (þrátt fyrir að beit muni verða afar takmörkuð á þeim svæðum sem t.d. liggja ofan við 600 m.h.y.s.). Það er mikilvægt að sveitarfélög og landeigendur hafi sveigjanleika innan þess ramma sem skilgreindur verður, til að meiri hagsmunir verði ekki látnir víkja fyrir minni hagsmunum í samhengi sjálfbærrar landnýtingar. Praktískt séð kann að vera nauðsynlegt að hafa brattar hlíðar (yfir 30° halli) eða há fjöll (yfir 700 m.y.s.) innan beitarsvæða. Beit í slíkum hólfum getur samt sem áður talist sjálfbær.

6.Ekki er ljóst hver muni bera kostnað af eftirliti með sjálfbærri landnýtingu. Kostnaður vegna eftirlits fyrir bændur, t.d. vegna Matvælastofnunar, er ærinn fyrir. Til að takast megi að byggja upp sjálfbæra fæðuframleiðslu á Íslandi, er mikilvægt að starfs-, rekstrar- og fjárfestingaskilyrði bænda verði bætt. Þannig er stuðlað að nýliðun meðal fæðuframleiðenda (bænda). Liður í slíku er að gefa skýrt út að innleiðing reglugerðarinnar muni ekki auka eftirlitskostnað bænda. Annar liður í slíku er að nýta gögn og samstarfsverkefni sem bændur hafa sjálfir safnað og tekið þátt í til að auka sjálfbærni landnotkunar. Þar má t.d. nefna Grólindarverkefnið og gögn sem sauðfjárbændur skrá í Fjárvís gagnautanumhaldskerfið varðandi fallþunga dilka. Sé lömbum slátrað um leið og þau koma af fjalli, gefur fallþungi þeirra t.d. ágætis vísbendingu um ástand gróðurs á beitarlandi.

7.Gert er ráð fyrir að meta árangur á 2-3 ára fresti. Ef nýjar aðferðir og tækni verða nýtt til þess, s.s. gervihnattamyndir og sjálfvirk úrvinnsla þeirra, kann þetta að vera raunhæft. Liggi ekki fyrir skýr áætlun um slík vinnubrögð, er lagt til að árangur verði metinn sjaldnar. Betra er að geta staðið við þær áætlanir sem gerðar eru, en að áætla of bratt og geta ekki staðið undir þeim væntingum sem áætlanirnar skapa.

8.Mikilvægt er að reglugerðin stangist ekki á við önnur lög og reglugerðir sem fjalla um málaflokk landnýtingar. Bent er á mikilvægi þess að kannað verði hvort svo sé, t.d. með samráði við starfsmenn Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem fjalla um landbúnaðarmál og með samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

 

   

4.

SSNE: Tillögur um fulltrúa í samráðsvettvang Sóknaráætlunar Norðurlands eystra 2020-2024 - 2009027

 

SSNE óskar eftir tillögu að fjórum fulltrúum frá hverju sveitarfélagi í samráðsvettvang Sóknaráætlunar Norðurlands eystra 2020-2024. Í samningi um Sóknaráætlun Norðurlands eystra er kveðið á um að sóknaráætlanir skuli unnar í samvinnu við samráðsvettvang landshlutanna. Samráðsvettvangurinn skal hafa beina aðkomu að gerð sóknaráætlunar landshlutans og vera upplýstur um framgang hennar a.m.k. árlega.

 

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að Arnór Benónýsson, Róshildur Jónsdóttir og Úlla Árdal verði fulltrúar Þingeyjarsveitar í samráðsvettvangi Sóknaráætlunar Norðurlands eystra 2020-2024.

 

   

5.

Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) - Fundargerðir - 2002017

 

Fundargerðir 23., 24., 25., 26., 27., 28. og 29. fundar stjórnar SSNE.

 

Lagðar fram til kynningar.

 

   

6.

Almannavarnarnefnd NA - Fundargerð - 1810028

 

Fundargerð haustfundar almannavarnarnefndar NA frá 03.11.2021

 

Lögð fram til kynningar.

 

   

7.

Héraðsnefnd Þingeyinga: Fundargerð - 1804023

 

Fundargerð 27. fundar framkvæmdastjórnar HNÞ

 

Lögð fram til kynningar.

 

   

8.

Samband íslenskra sveitarfélaga: Fundargerð - 1804006

 

Fundargerð 902. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 

Lögð fram til kynningar.

 

   

9.

Ályktun um almennar gjaldskrárhækkanir - 2111008

 

Ályktun frá Framsýn til sveitarfélaga á félagssvæði félagsins þar sem hvatt er til aðhalds á gjaldskrárhækkunum.

 

Lögð fram til kynningar.

 

   

10.

Markaðsstofa Norðurlands: Flugklasinn Air 66N - 1804011

 

Greinargerð um starf Flugklasans Air 66N frá 9. apríl til 26. október 2021.

 

Lögð fram til kynningar.

 

   

 

Fundi slitið kl. 14:33.