307. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn

28.10.2021

307. fundur

haldinn í Seiglu fimmtudaginn 28. október kl. 13:00

Fundarmenn

Arnór Benónýsson, Margrét Bjarnadóttir, Árni Pétur Hilmarsson, Eyþór Kári Ingólfsson, Ásvaldur Ævar Þormóðsson, Freydís Anna Ingvarsdóttir og Sigríður Hlynur Helguson Snæbjörnsson. 

 

 

Starfsmenn

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.

 

Fundargerð ritaði: Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.

Dagskrá:

1.

Seigla: Tillaga að breytingum - 2110026

 

Tillögur um breytingar á húsnæði Seiglu (Litlulaugaskóla) teknar til umræðu. Bjarni Reykjalín mætti til fundarins og kynnti hugmyndir sem hann var fenginn til að vinna um að breyta húsnæðinu í skrifstofur fyrir stjórnsýslu sveitarfélagsins. Bjarni lagði fram teikningar ásamt kostnaðarmati og verkáætlun. Í fjárhagsáætlun 2021 er gert ráð fyrir fyrsta áfanga verksins.

 

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fara í framkvæmdir í Seiglu samkvæmt fyrirliggjandi tillögum og hefja fyrsta áfanga fyrir áramót. Sveitarstjóra falið að vinna málið áfram í samræmi við umræður á fundinum.

 

   

2.

Fjárhagsáætlun 2022-2025: Forsendur og undirbúningur - 2109005

 

Umræðu framhaldið um forsendur og undirbúning fjárhagsáætlunar 2022-2025 sem nú er í vinnslu.

Samkvæmt fyrirliggjandi útgönguspá fyrir árið 2021 er gert ráð fyrir hærri tekjum en áætlað var en einnig hærri útgjöldum. Útsvarstekjur og framlög Jöfnunarsjóðs eru hærri en tekjur voru varlega áætlaðar fyrir árið 2021. Í útgjöldum eru það fyrst og fremst launaliðir í fræðslumálum og kostnaður við félagsþjónustu sem eru hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Við gerð fjárhagsáætlunar 2022-2025 er gengið út frá útgönguspá 2021 og minnisblaði frá Sambandi Íslenskra sveitarfélaga sem byggir á Þjóðhagspá Hagstofu Íslands. Nýtt minnisblað er væntanlegt fyrir miðjan nóvember.

Gert ráð fyrir 3% verðlagshækkun á útgjaldaliði og 5,9% á launaliði sem er nokkuð hærra en síðasta Þjóðhagsspá gerði ráð fyrir en forsendur verða endurmetnar þegar minnisblað sambandsins liggur fyrir.

 

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að gengið verði út frá ofangreindum forsendum við gerð fjárhagáætlunar.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða með vísan í 1. mgr. 23. gr. laga um tekjustofn sveitarfélaga nr. 4/1995 að álagningarhlutfall útsvars fyrir árið 2022 verði óbreytt eða 14,52%.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða með vísan í 3. gr. laga um tekjustofn sveitarfélaga nr. 4/1995 að fasteinaskattur fyrir árið 2022 verði óbreyttur eða 0,625% í A flokki, 1,32% í B flokki og 1,65% í C flokki.

Vinnu fjárhagsáætlunar 2022-2025 framhaldið.

 

   

3.

HSÞ Rekstrarsamningur: Endurnýjun - 1810037

 

Fyrir fundinum liggja bréf frá Gunnhildi Hinriksdóttur f.h. Héraðssambands Þingeyinga, dags. 22.10.2021 þar sem hún óskar eftir að endurnýja rekstrarsamning sambandsins við sveitarfélagið til eins árs. Samkvæmt gildandi samningi sem er fyrir árin 2019, 2020 og 2021 er gert ráð fyrir að sveitarfélagið greiði árlega kr. 640 pr. íbúa.

 

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að endurnýja rekstrarsamninginn til eins árs og vísar til gerðar fjárhagsáætlunar 2022.

 

   

4.

Fræðslunefnd: Fundargerðir - 1804052

 

Lagðar fram fundargerðir 88. og 89. fundar Fræðslunefndar frá 11.10.2021 og 12.10.2021. Margrét gerði grein fyrir fundargerðunum sem báðar eru í fjórum liðum.

 

Sveitarstjórn starfestir fundargerðirnar.

 

   

5.

Skýrsla sveitarstjóra - 1903026

 

Sveitarstjóri fór yfir helstu verkefni úr starfi sveitarfélagsins síðustu vikur.

 

Undirbúningur sameiningar Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps.
Nú á haustdögum hófst undirbúningsvinna vegna sameiningar með starfsmannafundum og fyrirlestrum um breytingaferlið, tækifærin og mannauðinn. Sigríður Indriðadóttir mannauðsráðgjafi hjá SAGA Competence hefur leitt þá vinnu. Fundir hafa verið haldnir með öllu starfsfólki sveitarfélagsins sem og sameiginlegur fundur með starfsfólki stjórnsýslu beggja sveitarfélaga. Þá hafa verið tekin starfsmannaviðtöl við starfsfólk stjórnsýslu og stjórnendur stofnana sveitarfélagsins.
Einnig er búið að skipa starfshópa til að vinna að innleiðingu breytinga og stuðla að samstarfi og samráði starfsfólks og kjörinna fulltrúa í báðum sveitarfélögum. Upphafsfundur starfshópanna var haldinn í síðustu viku og hafa þeir því formlega tekið til starfs. Starfshóparnir eru þrír:

Stjórnsýsla, fjármál og mannauðsmál
Fræðsla, félagsþjónusta og frístundir
Umhverfi, skipulag, atvinna og nýsköpun

Þá hefur Tryggvi Þórhallsson, lögmaður, verið ráðinn til Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps til að vinna að innleiðingunni en Tryggvi hefur síðustu ár starfað sem lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Tryggvi mun hefja störf þann 1. nóvember.
Upplýsingum um undirbúningsvinnu vegna sameiningar verður miðlað á thingeyingur.is og eru íbúar hvattir til þess að skoða þann vef reglulega.

Aurskriður í Útkinn.
Fundað var með þingmönnum kjördæmisins og almannavörnum þann 14. október s.l. vegna aurskiðanna í Útkinn þar sem farið var yfir stöðuna og næstu skref. Sveitarstjóri hefur hefur sent formlegt bréf til forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, og afrit á samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra. Bréfið var sent til að upplýsa ráðherra um þær náttúruhamfarir sem áttu sér stað og mikilvægi þess að bændum verði bætt það tjón sem þeir sannarlega urðu fyrir. Forsætisráðuneytið hefur móttekið bréfið og skrifstofustjóri haft samband við sveitarstjóra.
Starfshópur er að taka saman allar upplýsingar um hamfarirnar svo hægt sé að leggja mat á tjónið. Í framhaldinu verða þær upplýsingar einnig sendar til ráðherra en forsætisráðuneytið hefur nú þegar óskað eftir því.

Undirritun viljayfirlýsingar um rannsóknasetur.
Þann 12. október s.l. undirrituðu fulltrúar Háskóla Íslands, Svartárkots menningar-náttúru, Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps viljayfirlýsingu um að vinna í sameiningu að stofnun rannsóknaseturs á sviði umhverfishugvísinda í sameinuðu sveitarfélagi Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar. Fyrirhugað er að setrið verði til húsa í Gíg, sem ríkiseignir hafa fest kaup á en þar starfa einnig fjórar aðrar stofnanir á sviði umhverfismála, þ.e. Vatnajökulsþjóðgarður, Umhverfisstofnun, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn og Landgræðslan. Á næstu mánuðum fer fram vinna við fjármögnun og annan undirbúning stofnunar setursins.

COVID-19 smit í Þingeyjarskóla.
COVID-19 smit kom upp í Þingeyjarskóla í síðustu viku og skólahald var fellt niður föstudaginn 22. október og mánudaginn 25. október meðan smitrakning fór fram. Ekki greindust fleiri smit meðal starfsfólks eða nemenda í kjölfarið og skólahald hófst að nýju í grunnskóladeildinni þriðjudaginn 26. október. Leikskóladeildin Barnaborg opnar hins vegar ekki fyrr en föstudaginn 29. október vegna sóttkvíar starfsfólks og nemenda.

Björgunarsveitin Þingey kaupir Melgötu 9.
Í vikunnu var gengið frá kaupsamningi við Björgunarsveitina Þingey um kaup á fasteigninni Melgötu 9 á Stórutjörnum. Þingeyjarsveit átti hlut á móti björgunarsveitinni í Melgötu 9 en hefur nú selt hann til sveitarinnar.

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga 2021.
Fjármálaráðstefna sveitarfélaga var haldinn 7. og 8. október sl. Á ráðstefnunni kom m.a. fram að sveitarstjórnarfólk hefur verulegar áhyggjur af auknum launakostnaður sveitarfélaga og að líkur benda til að á yfirstandandi ári muni fjárhagsstaða sveitarfélaga versna frá fyrra ári. Aukin launaútgjöld sveitarfélaga virðast almennt vera langt umfram tekjuaukningu.

Stjórnunar- og verndaráætlun vegna stækkunar Vatnajökulsþjóðgarðs.
Haldinn verður íbúafundar í Kiðagili seinni partinn í nóvember til að ræða gerð stjórnunar- og verndaráætlun vegna stækkunar Vatnajökulsþjóðgarðs á norðursvæði í Þingeyjarsveit. Fundurinn verður auglýstur þegar nær dregur.

Almannavarnir, Rauði kross Íslands og Veðurstofa Íslands.
Almannavarnir munu boða til íbúafundar í lok nóvember vegna aurskriða í Útkinn til upplýsinga fyrir íbúa. Fundurinn verður auglýstur þegar nær dregur.

 

   

6.

Undirbúningsstjórn vegna sameiningar; Fundargerðir - 2109007

 

Fundargerðir 2. og 3. fundar undirbúningsstjórnar um sameiningu Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps.

 

Lagðar fram til kynningar.

 

   

7.

Vatnajökulsþjóðgarður - Fundargerðir - 1810004

 

Fundargerð 98. fundar svæðisráðs vestursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs.

 

Lögð fram til kynningar.

 

   

8.

Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) - Fundargerðir - 2002017

 

Fundargerð 30. fundar stjórnar SSNE.

 

Lagt fram til kynningar.

 

   

9.

Skilgreining á svæðisbundnu hlutverki Akureyrar - 2110027

 

Skilgreining á svæðisbundnu hlutverki Akureyrar.

 

Lögð fram til kynningar.

 

   

10.

Stjórnunar- og verndaráætlun Goðafoss - 2003024

 

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir náttúruvættið Goðafoss.

 

   

Fundi slitið kl. 15:07.