289. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn

05.11.2020

289. fundur

haldinn í fjarfundi fimmtudaginn 05. nóvember kl. 14:30

Fundarmenn

Arnór Benónýsson, Margrét Bjarnadóttir, Árni Pétur Hilmarsson, Freydís Anna Ingvarsdóttir, Ásvaldur Ævar Þormóðsson, Sigurbjörn Árni Arngrímsson og Sigríður Hlynur Helguson Snæbjörnsson.

Starfsmenn

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.

 

Fundargerð ritaði: Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.

Dagskrá:

1.

Lánasjóður sveitarfélaga ohf. - Lánasamningur - 1911006

 

Lánssamningur nr. 2011_105 frá Lánasjóði sveitarfélaga ohf. tekinn til afgreiðslu.

 

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samþykkir hér með að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 40.000.000 með lokagjalddaga þann 5. apríl 2034, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem sveitarstjórn hefur kynnt sér.
Sveitarstjórn samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstóll, vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standi tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Er lánið tekið til fjármögnunar á framkvæmdum við skóla, stjórnsýslu og gatnagerð auk afborgana eldri lána hjá sjóðnum sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Jafnframt er Dagbjörtu Jónsdóttur, sveitarstjóra, kt. 250168-5359, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Þingeyjarsveitar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.

     

2.

Friðlýsing dropsteinshella á Þeistareykjum - 2011002

 

Tekin til umræðu friðlýsing dropsteinshella á Þeistareykjum í framhaldi af ákvörðun um að loka hellunum á svæðinu í verndarskyni. Fyrsti fundur samstarfshóps um friðlýsingu hellanna var haldinn mánudaginn 26. október s.l. þar sem ræddar voru ákveðnar sviðsmyndir um friðlýsingu.

 

Sveitarstjórn telur að sviðsmyndirnar þurfi frekari umræðu á breiðari grunni. Fulltrúum í samstarfsnefnd Landsvirkjunar og sveitarfélagsins falið að taka málið til umræðu í nefndinni.

     

3.

Nýsköpun í norðri (NÍN) - 1909032

 

Umræða tekin um stöðu aðgerða NÍN og viðspyrnuaðgerðir tengdar þeim.

 

Sveitarstjórn samþykkir 15 milljónir í NÍN til fjármögnunar á viðspyrnuaðgerðum til eflingar atvinnulífs í sveitarfélaginu og þar á meðal er þjónustusamningur við Mývatnsstofu um almenna markaðssetningu á sveitarfélaginu og greiðslur á gjöldum ferðaþjónustufyrirtækja í sveitarfélaginu sem taka þátt í markaðsátaki á vegum Mývatnsstofu. Vísað til gerðar fjárhagsáætlunar 2021.

     

4.

Rjúpnaveiðibann í landi Þeistareykja - 2011004

 

Sveitarstjórn afgreiddi í tölvupósti á milli funda, ákvörðun sína um að banna rjúpnaveiði í landi Þeistareykja frá og með 5. nóvember og út veiðitímabilið 2020. Ákvörðunin var tekin í ljósi aðstæðna, tilmæla frá Almannavörnum og dapurs ástands rjúpnastofnsins. Í framhaldinu birti sveitarstjóri tilkynningu um rjúpnaveiðibannið. Sveitarstjórn ræddi jafnframt framtíðarfyrirkomulag rjúpnaveiða á svæðinu.

 

Sveitarstjórn staðfestir afgreiðsluna. Sveitarstjóra falið að skipuleggja eftirlit í samræmi við umræður á fundinum.

     

5.

Skýrsla sveitarstjóra - 1903026

 

Sveitarstjóri fór yfir helstu verkefni úr starfi sveitarfélagsins síðustu vikur.

 

Það sem sveitarstjóri fór m.a. yfir var:

Kjördæmavika þingmanna NA kjördæmis var í síðustu viku, sveitarstjóri og oddviti áttu fund með þingmönnunum þann 29. október þar sem málefni sveitarfélagsins voru rædd.

Formleg skóflustunga vegna byggingu leiguíbúða við Stórutjarnir fór fram þann 30. október. Leiguíbúðir Þingeyjarsveitar hses. stendur fyrir framkvæmdinni sem er fjármögnuð af sveitarfélaginu og með stofnframlagi frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. FaktaBygg Ísland ehf. byggir íbúðirnar en um er að ræða parhús, tvær 80 fm. hagkvæmar íbúðir og stefnt er að því að byggingin fái Svansvottun. Markmið Svansvottunar er að lágmarka áhrif framkvæmda á umhverfi og heilsu. Bygging parhússins á Stórutjörnum er liður í að auka framboð á leiguhúsnæði í sveitarfélaginu og reiknað er með að íbúðirnar verði tilbúnar í febrúar 2021.

Reglulegir fundir með AST, skólastjórum og viðbragðsteymi Þingeyjarsveitar vegna Covid-19.

Breyting á starfsemi sveitarfélagsins í kjölfar hertra aðgerða vegna Covid-19.
Umgangur um skrifstofu sveitarfélagsins er takmarkaður og tilmælum beint til fólks að hringja og/eða senda tölvupóst ef það á erindi. Starfsfólk hefur skipt sér upp í tvo hópa sem vinna til skiptis heima og á skrifstofunni. Skrifstofan verður áfram opin alla virka daga frá kl. 9:00 til 15:00 en með þessum annmörkum.

Skólatími er óbreyttur í Stórutjarnaskóla en í Þingeyjarskóla er einungis kennt fyrir hádegi. Allt íþrótta- og tómstundastarf er óheimilt. Starfsfólk og hluti nemenda þurfa að bera grímur og halda tveggja metra fjarlægð.
Óbreyttur opnunartími er í öllum leikskólum sveitarfélagsins.
Bókasöfn eru opin en þeir sem þangað koma þurfa að bera grímur.
Sundlaugin á Laugum er lokuð.

Sveitarstjórn þakkar fyrir skýrsluna.

     

6.

Samband íslenskra sveitarfélaga: Fundargerðir - 1804006

 

Fundargerðir 889. og 890. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 

Lagðar fram til kynningar.

     

7.

Vatnajökulsþjóðgarður - Fundargerðir - 1810004

 

Fundargerð 89. fundar svæðisráðs vestursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs.

 

Lögð fram til kynningar.

     

8.

Héraðsnefnd Þingeyinga: Fundargerðir - 1804023

 

Fundargerð 21. fundar framkvæmdastjórnar Héraðsnefndar Þingeyinga.

 

Lögð fram til kynningar.

     

9.

Menningarmiðstöð Þingeyinga: Fundargerðir - 1809019

 

Fundargerð stjórnar Menningarmiðstöðvar Þingeyinga.

 

Lögð fram til kynningar.

     

 

Fundi slitið kl. 16:17