282. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022

25.06.2020

282. fundur

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022

haldinn í Kjarna fimmtudaginn 25. júní kl. 13:00

Fundarmenn

Arnór Benónýsson, Margrét Bjarnadóttir, Árni Pétur Hilmarsson, Jóna Björg Hlöðversdóttir, Ásvaldur Ævar Þormóðsson, Freydís Anna Ingvarsdóttir og Sigríður Hlynur Helguson Snæbjörnsson.

Starfsmenn

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði: Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.

Dagskrá:

1.

Kortlagning lúpínu, kerfils og bjarnarklóar í Þingeyjarsveit: Kynning - 1807017

 

Náttúrustofa Norðausturlands vinnur að kortlagningu lúpínu, kerfils og bjarnarklóar í sveitarfélaginu. Um er að ræða tveggja ára verkefni sem skipt er upp í tvo áfanga, fyrri áfangi var unnin 2019 og vinna við seinni áfangann er hafin. Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir og Sesselja Guðrún Sigurðardóttir frá Náttúrustofu Norðausturlands mættu til fundarins og fór yfir verkefnið.

 

Sveitarstjórn þakkar fyrir kynninguna. Komið hefur í ljós að ekki eru margar plöntur af Bjarnarkló í sveitarfélaginu og eru íbúar hvattir til að eyða þeim. Íbúum er þó bent á að Bjarnarkló getur verið hættuleg fólki og er því íbúum bent á að hafa samband við Náttúrustofu Norðausturlands um hvernig bera skuli sig að við eyðingu hennar. Ákvörðun um frekari aðgerðir verður tekin þegar seinni áfangi verkefnisins er í höfn.

     

2.

Kjörskrá vegna forsetakosninga 2020 - 2006032

 

Kjörskrá vegna forsetakosninganna 27. júní n.k. lögð fram og yfirfarin. Á Kjörskrá eru 670 aðilar. Kjörskráin liggur frammi á skrifstofu sveitarfélagsins, almenningi til sýnis fram að kjördegi.

 

Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að undirrita kjörskrána og veitir henni fullnaðarheimild til að gera leiðréttingar og úrskurða um ágreiningsmál sem kunna að koma upp fram að kjördegi vegna forsetakosninganna.

     

3.

Skipulags- og umhverfisnefnd: Fundargerðir - 1804018

 

Lagðar fram 126. og 127. fundargerð Skipulags- og umhverfisnefndar, annars vegar frá 10.06.2020 sem er í einum lið og hins vegar frá 18.06.2020 sem er í ellefu liðum. Ásvaldur gerði grein fyrir fundargerðunum.

 

126. fundargerð Skipulags- og umhverfisnefndar frá 10.06.2020.

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina.

127. fundargerð Skipulags- og umhverfisnefndar frá 18.06.2020.

2. liður; Hólasandslína 3, umsókn um framkvæmdaleyfi-2006017.
Tekið fyrir erindi dags. 11. júní 2020 þar sem Guðmundur Ingi Ásmundsson f.h. Landsnets sækir um framkvæmdaleyfi til Þingeyjarsveitar fyrir Hólasandslínu 3, 220 kV háspennulínu.
Sótt er um framkvæmdaleyfi á grundvelli 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og 6. og 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi, nr. 772/2012, fyrir framkvæmdinni Hólasandslína 3, 220 kV háspennulína.
Framkvæmdin er matsskyld skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og er fyrirliggjandi álit Skipulagsstofnunnar dags. 19. september 2019. Fyrirhuguð framkvæmd er í samræmi við breytingartillögu á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 sem samþykkt var í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar þann 28. maí 2020.
Meðfylgjandi umsókninni eru eftirtalin fylgigögn:
Lýsing mannvirkja
Útboðsgögn vegna vegslóðar, jarðvinnu og undirstaða ásamt kortum og teikningum
Leyfi Vegagerðar vegna vegþverana og vegtenginga
Matsskýrsla vegna mats á umhverfisáhrifum ásamt viðaukum
Álit Skipulagsstofnunnar vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar
Umsögn Minjastofnunnar Íslands
Þá liggur fyrir greinargerð vegna afgreiðslu umsóknar Landsnets hf. um framkvæmdaleyfi fyrir Hólasandslínu 3 í Þingeyjarsveit, sem unnin hefur verið af skipulagsfulltrúa og uppfærð með tilliti til afgreiðslu Skipulags- og umhverfisnefndar á fundi, dags. 18. júní 2020, sbr. einkum kafla greinargerðarinnar um meginafstöðu til framkvæmdaleyfisumsóknar.
Framkvæmdir eru í samræmi við skipulagsáætlanir og gögn uppfylla þær kröfur sem koma fram í reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Afgreiðsla Skipulags- og umhverfisnefndar á fundi 18. júní sl., var að leggja til, byggt á fyrirliggjandi gögnum og skilmálum sem settir eru fyrir framkvæmd, að samþykkja umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi fyrir Hólasandslínu 3 í Þingeyjarsveit. Sveitarstjórn hefur farið yfir öll gögn málsins og unnið greinargerð um vegna afgreiðslu framkvæmdaleyfisumsóknar.
Sveitarstjórn samþykkir umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi fyrir Hólasandslínu 3 í Þingeyjarsveit. Skipulagsfulltrúa er falið að gefa út framkvæmdaleyfið í samræmi við reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012, þegar breyting á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 vegna Hólasandslínu 3 hefur öðlast gildi.

3. liður; Fjósatunga, deiliskipulag-1905026
Sveitarstjórn tekur undir svör skipulags- og umhverfisnefndar og samþykkir tillögu að nýju deiliskipulagi Fjósatungu að teknu tilliti til athugasemda/umsagna og svara nefndarinnar. Skipulagsfulltrúa er falin málsmeðferð vegna gildistöku deiliskipulagsins.

4. liður; Reykir, deiliskipulagsgerð-1910011
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela skipulagsfulltrúa að kynna tillöguna, forsendur hennar og umhverfismat íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum á almennum fundi eða á annan fullnægjandi hátt í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 áður en tillagan er lögð til afgreiðslu fyrir sveitarstjórn.

5. liður; Skógaland, umsókn um framkvæmdaleyfi vegna vegagerðar-2006021
Sveitarstjórn samþykkir umrætt framkvæmdaleyfi fyrir vegagerð í landi Skóga og felur skipulagsfulltrúa út framkvæmdaleyfið skv. reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 og 13.-16. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Framkvæmdir innan veghelgunarsvæða Vegagerðarinnar eru háðar leyfi Vegagerðar.

6. liður; Vatnsleysa lóð, beiðni um nafnabreytingu-2006019
Sveitarstjórn samþykkir að breyta nafni á landi 212294, Vatnsleysa lóð í Árbakki. Byggingarfulltrúa er falið að annast málsmeðferð vegna hennar eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.

7. liður; Víðar, lóðarstofnun-2006018
Sveitarstjórn samþykkir lóðastofnunina og felur byggingarfulltrúa að annast málsmeðferð vegna hennar eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.

8. liður; Arnarstaðir lóð, landskipti-2006020
Sveitarstjórn tekur undir tillögu nefndarinnar og samþykkir landskiptin í samræmi við fyrirliggjandi gögn og felur byggingarfulltrúa að annast málsmeðferð vegna þeirra eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina að öðru leyti. 

     

4.

Félags- og menningarmálanefnd: Fundargerðir - 1804034

 

Lögð fram fundargerð 65. fundargerð Félags- og menningarmálanefndar frá 08.06.2020. Sigríður Hlynur gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í tveimur liðum.

 

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina.

     

5.

Jafnréttisáætlun Þingeyjarsveitar 2020-2023 - 2006029

 

Lögð fram endurskoðuð jafnréttisáætlun Þingeyjarsveitar 2020-2023 ásamt aðgerðaráætlun.

 

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi jafnréttisáætlun og aðgerðaráætlun.

     

6.

Erindi: Jakinn 2020 - 2006030

 

Lagt fram erindi frá Magnúsi Ver Magnússyni f.h. félags Kraftamanna, dags. 5.06.2020. Stefnt er á að halda aflraunamótið Norðurlands Jakinn, keppni sterkustu manna landsins, dagana 28. - 30. ágúst 2020. Keppnin verður haldin í þremur sveitarfélögum með tvær keppnisgreinar hvert. Óskað er eftir styrk frá Þingeyjarsveit að fjárhæð 200.000 auk uppihalds fyrir tvær keppnisgreinar í Þingeyjarsveit.

 

Sveitarstjórn þakkar fyrir erindið en sér sér ekki fært að verða við því að svo stöddu.

     

7.

Breyting á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022: Fyrirspurn - 2006031

 

Lögð fram fyrirspurn vegna breytinga á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 frá Birnu Davíðsdóttur og Jóhannesi Bjarka Jóhannessyni dags. 09.06.2020, um hvort einhverjar líkur séu á því að leyfilegt verði að byggja fleiri en þrjú íbúðarhús án deiliskipulags í nýju endurskoðuðu aðalskipulagi.

 

Endurskoðun aðalskipulags stendur yfir og sveitarstjórn sér sér ekki fært að svara erindinu að svo komnu máli. Núgildandi aðalskipulag gildir til 2022 og þá tekur nýtt aðalskipulag gildi. Sveitarstjórn felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gera fyrirspyrjanda grein fyrir stöðu mála og þeim möguleikum sem fyrir hendi eru.

     

8.

Bréf frá Vatnajökulsþjóðgarði - 2006034

 

Lagt fram bréf frá Fanneyju Ásgeirsdóttur f.h. svæðisráðs vestursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs (VJÞ) um fyrirhugaðan fund með stjórn VJÞ og svæðisráðinu þann 30.06.2020. Fundurinn er liður í skipulagi stjórnarfunda sem miða að því að stjórnin heimsæki öll svæðin árlega og fundi þar með svæðisráði. Svæðisráð vestursvæðis VJÞ vill nota tækifærið og bjóða sveitarstjórnarmönnum á vestursvæði til samtals við stjórn og svæðisráð.

 

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að Árni Pétur Hilmarsson og Jóna Björg Hlöðversdóttir fari á fundinn.

     

9.

Aðalfundur DA sf.: Fundarboð - 1806044

 

Lagt fram fundarboð aðalfundar Dvalarheimils aldraðra sf. sem haldinn var 24.06.2020 í húsnæði félagsins, Vallholtsvegi 17 á Húsavík. Sveitarstjórn afgreiddi erindið í tölvupósti milli funda og samþykkti að oddviti færi með umboð Þingeyjarsveitar á fundinum.

 

Sveitarstjórn staðfestir afgreiðsluna.

     

10.

Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið: Ósk um umsögn er varðar fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í sjókvíum í Eyjafirði - 2006036

 

Lagt fram bréf frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni, dags. 9.06.2020 þar sem óskað er eftir umsögn Þingeyjarsveitar um hvort rétt sé að takmarka eða banna fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í sjókvíum í Eyjafirði innan línu sem dregin verði frá Siglunesi að Bjarnarfjalli.
Í bréfi ráðherra segir að vorið 2018 samþykkti Alþingi lög um skipulag haf- og strandsvæða þar sem gert er ráð fyrir setningu strandsvæðaskipulags. Var um leið ákveðið að fyrst yrði unnið strandsvæðisskipulag á Vestfjörðum og Austfjörðum. Til umræðu mun koma í framhaldinu hvort og þá hvar sett verði strandssvæðisskipulag á fleiri stöðum, þar á meðal í Eyjafirði. Í þessu sambandi er vakin athygli á 2. mgr. 10. gr. laga um skipulag haf- og strandsvæða, en þar segir að við gerð slíks skipulag skuli taka mið af stjórnvaldsfyrirmælum, öðrum lögum og lögbundnum ákvörðunum um nýtingu og vend haf- og starfsvæða þar sem tiltekin starfsemi er t.d. takmörkuð eða bönnuð.

 

Sveitarstjórn vísar til bókunar frá síðasta fundi þann 11.06.2020 svo hljóðandi:

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar leggur til við sjávarútvegsráðherra að Eyjafjörður verði friðaður fyrir sjókvíaeldi. Sveitarstjórn bendir á að margar bestu og þekktustu veiðiár landsins eru á þessu landsvæði og ekki verjandi að stefna lífríki þeirra í hættu með því að heimila sjókvíaeldi í Eyjafirði.

Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að koma umsögninni til ráðherra.

     

11.

Skýrsla sveitarstjóra - 1903026

 

Sveitarstjóri fór yfir helstu verkefni úr starfi sveitarfélagsins síðustu vikur.

 

Vinnuskólinn hófst 10. júní undir stjórn Þóris Einarssonar. Um tuttugu ungmenni starfa við vinnuskólann í sumar sem skipt er upp í tvo hópa, fyrir og eftir hádegi. Er þetta mun meiri aðsókn en hefur verið undanfarin ár. Starfsemin hefur gengið vel, krakkarnir eru kátir og veðrið hefur leikið við okkur.

Undanfarið höfum við í almannavarnanefnd setið stöðufundi með aðgerðarstjórn á svæði Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra vegna jarðskjálftahrinu úti fyrir norðurlandi. Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við Lögreglustjórann á Norðurlandi eystra lýst yfir óvissustigi almannavarna vegna jarðskjálftanna. Umrætt svæði er þekkt jarðskjálftasvæði þar sem Eyjafjarðaráll mætir Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Stöðufundir verða boðaðir eftir atvikum en jarðskjálftahrinan er enn yfirstandandi. Enn mælist mikið af minni skjálftum á svæðinu og áfram eru líkur á því að fleiri stærri skjálftar muni verða.

Jöfnunarsjóður hefur gefið út nýja áætlun vegna lækkunar tekna til sjóðsins út af COVID-19 og þar er gert ráð fyrir að greiðslur til Þingeyjarsveitar lækki um 50,4 milljónir frá upphaflegri áætlun.

Framkvæmdir eru hafnar við endurbætur á eldhúsinu í Stórutjarnaskóla en það er Trésmiðjan Sólbakki ehf. sem sér um verkið.Áætlað er að framkvæmdum ljúki fyrir skólabyrjun í haust.

Undirbúningsvinna er hafin við endurbætur á salernisaðstöðu við Aldeyjarfoss og reiknað með að framkvæmdir hefjist innan skamms. Framkvæmdin er styrkt af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Fimm salerni eru við fossinn og þrjú þeirra verða endurnýjuð. Tvö nothæf salerna verða framan af sumri en um miðjan ágúst er reiknað með að þrjú ný salerni verði komin á svæðið til notkunar.

Goðafoss var friðlýstur þann 11. júní þegar Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra skrifaði formlega undir friðlýsingu við hátíðlega athöfn við fossinn. Nokkru áður eða þann 9. júní héldum við fund með Umhverfisstofnun þar sem farið var yfir ýmis mál fyrir friðlýsinguna, lok framkvæmda, landvörslu, rekstur og viðhald svæðisins. Einnig var farið yfir sögulegar upplýsingar og gögn sem hægt verður að miðla til ferðafólks. Nú hefur Umhverfisstofnun formlega tekið við Goðafossi og mun sjá um rekstur og viðhald mannvirkja á svæðinu í framtíðinni.

Þann 20. júní á sumarsólstöðum var glæsilegur minnisvarði um Stjörnu-Odda afhjúpaður við Grenjaðarstað að viðstöddu fjölmenni. Í framhaldinu var haldið málþing um Stjörnu-Odda í Ýdölum. Oddi Helgason eða Stjörnu-Oddi var uppi á fyrri hluta 12. aldar og bjó í Múla í Aðaldal. Hann setti fram reglur um tímasetningu sólhvarfa og vikulega breytingu á sólarhæð. Miðaði átt dögunar og dagseturs. Stjarnvísindafélag Íslands reisti minnisvarðann.

Forsetakosningar verða n.k laugardag 27. júní og er kjörstaður Þingeyjarsveitar Ljósvetningabúð. Kjörstaður opnar kl. 10:00 og lokar kl. 22:00. Boðið hefur verið uppá atkvæðagreiðslu utan kjörfundar vegna kosninganna á skrifstofu Þingeyjarsveitar síðast liðnar þrjár vikur og töluvert um að íbúar hafi nýtt sér þá þjónustu.

Hlaupastelpan er nú aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins á rafrænu formi. Bætt hefur verið við flýtileið í haus á forsíðu heimasíðunnar sem er mjög sýnileg þegar farið er inn á síðuna.

     

12.

Samband íslenskra sveitarfélaga: Fundargerðir - 1804006

 

Fundargerð 885. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 

Lögð fram til kynningar.

     

13.

Beiðni sveitarstjórnarráðherra vegna fasteignaskattsálagningar árið 2021 - 2006033

 

Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga: Beiðni sveitarstjórnarráðherra vegna fasteignaskattsálagningar árið 2021.

 

Lagt fram til kynningar.

     

14.

Fjármál sveitarfélaga í kjölfar COVID-19 - 2006035

 

Bréf frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga: Fjármál sveitarfélaga í kjölfar COVID-19

 

Lagt fram til kynningar.

     

Fundi slitið 16:05