279. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn

14.05.2020

279. fundur

haldinn í Seiglu fimmtudaginn 14. maí kl. 13:00

Fundarmenn

Arnór Benónýsson, Margrét Bjarnadóttir, Árni Pétur Hilmarsson, Jóna Björg Hlöðversdóttir, Friðrika Sigurgeirsdóttir, Sigurbjörn Árni Arngrímsson, Sigríður Hlynur Helguson Snæbjörnsson og Dagbjört Jónsdóttir.

Starfsmenn

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði: Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.

Dagskrá:

1.

Umræður um áætlanir vegna COVID-19: Tímabundin sumarstörf - 2003016

 

Vinnuúrræði og tímabundin sumarstörf fyrir ungt fólk tekin til umræðu.
Auglýsing var send út til þess að kanna eftirspurn eftir sumarvinnu svo hægt væri að skipuleggja störfin í samræmi við það.
Þingeyjarsveit sótti um stuðning til Vinnumálastofnunar um að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn 18 ára og eldri í sumar. Sótt var um tíu störf til átaksverkefna á umhverfis- og nýsköpunarsviði og var sveitarfélaginu úthlutað styrk til þriggja starfa. Störfin verða auglýst í framhaldinu á heimasíðu sveitarfélagsins.
Þingeyjarsveit og Þekkingarnet Þingeyinga eru í samstarfi um átaksverkefni um eitt til tvö störf fyrir námsmenn 18 ara og eldri á sviði rannsókna og þróunar. Störfin verða auglýst í framhaldinu á heimasíðu sveitarfélagsins.
Undirbúningur verkefna fyrir vinnuskóla Þingeyjarsveitar stendur yfir og er gert ráð fyrir nemendum á aldrinum 14 til 17 ára. Búið er að senda inn könnun um þátttöku til grunnskólanna svo hægt verði að skipuleggja starfsemina. Skráning í vinnuskólann verður auglýst á heimasíðu sveitarfélagsins í næstu viku.

     

2.

Viðauki við fjárhagsáætlun 2020 - 2002012

 

Tekið fyrir erindi frá skólastjóra Þingeyjarskóla, Jóhanni Rúnari Pálssyni dags. 06.05.2020 þar sem hann óskar eftir heimild til þess að ráðstafa 4 milljónum kr. úr eignasjóði, sem áætlað var til viðhalds fasteignar, til kaupa á húsbúnaði, kennslutækjum og öðrum tæknibúnaði sem snúa m.a. að starfrænni kennslu og upplýsingamennt. Samkvæmt fjárhagsáætlun 2020 eru 11 milljónir kr. áætlaðir til viðhalds Þingeyjarskóla sem eru gjaldfærðar á eignasjóð.

 

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að færa 4 milljónir kr. frá viðhaldi Þingeyjarskóla til tækjakaupa fyrir skólann sem verða eignfærðar á eignasjóð.

     

3.

Hólmavað Guesthouse: Umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi - 2005010

 

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra dags. 7.05.2020 þar sem Benedikt Kristjánsson sækir um rekstrarleyfi, flokkur II-Gististaður án veitinga, á Hólmavaði í Þingeyjarsveit.

 

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við veitt rekstrarleyfi með fyrirvara um að jákvæðar umsagnir berist frá byggingarfulltrúa og heilbrigðis og eldvarnareftirlitinu, sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 67/2016, um breytingu á lögum nr. 85/2007.

     

4.

CJA: Umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi - 2005005

 

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra dags. 5.05.2020 þar sem Aðalsteinn Már Þorsteinsson sækir um rekstrarleyfi, flokkur III-Gististaður með veitingum en þó ekki áfengisveitingum, á Hjalla í Þingeyjarsveit.

 

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við veitt rekstrarleyfi með fyrirvara um að jákvæðar umsagnir berist frá byggingarfulltrúa og heilbrigðis og eldvarnareftirlitinu, sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 67/2016, um breytingu á lögum nr. 85/2007.

     

5.

Húsnæðisáætlun Þingeyjarsveitar 2020-2026 - 1904020

 

Lögð fram uppfærð húsnæðisáætlun Þingeyjarsveitar 2020-2026 til afgreiðslu.

 

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi húsnæðisáætlun. Húsnæðisáætlun Þingeyjarsveitar 2020-2026 verður aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins að fundi loknum.

     

6.

Söfnun og förgun dýrahræja - 2005006

 

Lagt fram erindi frá Ólafi Jónssyni héraðsdýralækni NA-umdæmis f.h. Matvælastofnunar (MAST) þar sem segir að um tuttugu ár séu liðin frá því að síðasta riðutilfelli var greint í Skjálfandahólfi. Það er mikilvægur áfangasigur í baráttunni gegn riðuveiki í sauðfé og nú eru varnarhólfin þrjú í Þingeyjarsýslum hrein með tilliti til riðu.
Á þessum tímamótum í baráttunni við riðuna eru sveitarfélög í Þingeyjarsýlum hvött til þess að koma upp sem víðast söfnunargámum fyrir dýrahræ þannig að bændur geti losað sig við gripi sem drepast með auðveldum og tryggilegum hætti.

 

Sveitarstjórn þakkar héraðsdýralækni fyrir ábendinguna. Hermanni umsjónarmanni falið að hafa samband við önnur sveitarfélög sem standa frammi fyrir því sama sem og að hafa samband við Terra sem sér um sorphirðu í sveitarfélaginu um úrlausn mála. Málið unnið áfram að fengnum frekari upplýsingum.

     

7.

Skipun þingfulltrúa á þing SSNE - 2005013

 

Samkvæmt 5. gr. samþykkta fyrir Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) skulu sveitarstjórnir skipa ákveðinn fjölda þingfulltrúa og jafnmarga til vara á þing SSNE. Þingeyjarsveit skal skipa þrjá fulltrúa og þrjá til vara.

 

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að skipa Arnór Benónýsson, Árna Pétur Hilmarsson og Jónu Björgu Hlöðversdóttur sem aðalfulltrúa og Margréti Bjarnadóttur, Dagbjörtu Jónsdóttur og Sigríði Hlyn H. Snæbjörnsson til vara.

     

8.

Tillaga að framtíð AÞ ses. - 2005012

 

Fyrir liggur tillaga að framtíð AÞ ses. þar sem lagt er til að félagið starfi áfram sem eignarhaldsfélag um þær eignir sem í stofnunni eru og sem þjónustufélag vegna sameiginlegra verkefna sveitarfélaganna á svæðinu. Þær eignir sem um er að ræða eru peningalegar eignir og hlutafé í fyrirtækjum.
Þá er lagt til að rekstur HNÞ bs. verði á hendi AÞ. ses. líkt og verið hefur. Einnig gæti AÞ ses. tekið að sér skv. þjónustusamningum að hafa virka eftirfylgni með eignarhlutum einstakra sveitarfélaga í félögum af ýmsu tagi, s.s. eignarhalds og/eða rekstrarfélögum.

 

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi tillögu um framtíð AÞ ses. með þeim fyrirvara að rekstur HNÞ bs. verði sjálfstæður.

Gert var fundarhlé eftir afgreiðslu þessa liðar og sveitarstjórnarfulltrúar fylgdust með verðlaunaathöfn hönnunarsamkeppni um uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis á Húsavík.

     

9.

Skýrsla sveitarstjóra - 1903026

 

Sveitarstjóri fór yfir helstu verkefni úr starfi sveitarfélagsins síðustu vikur.

 

Stöðufundum hjá viðbragðsteymi Þingeyjarsveitar og hjá Aðgerðarstjórn á Norðurlandi eystra (AST) hefur fækkað töluvert enda COVID-19 faraldurinn á niðurleið. Ekki hafa greinst nein smit í okkar umdæmi frá 7. apríl s.l. og enginn hefur verið í einangrun frá 24. apríl. Svo virðist að svæðið sé smitlaust þó ekki sé hægt að fullyrða það.
Samkvæmt fundum viðbragðsteymis með skólastjórum þá hefur skólastarf grunn- og leikskóla gengið vel eftir tilslökun samkomubannsins frá 4. maí s.l. og flestir fegnir að mæta aftur til starfs og leiks í skólunum. Mikilvægt er að við tryggjum áfram góðan árangur í baráttunni við veiruna og virðum samfélagssáttmálann sem almannavarnir hafa gefið út. Samkvæmt upplýsingum frá samhæfingarmiðstöð almannvarna sem sendar voru til sveitafélaga þá er verið að skoða næstu tilslakanir á samkomubanni. Ef áætlanir ganga eftir er gert ráð fyrir að fjöldatakmarkanir miðist við 200 manns þann 25. maí. Ef allt gengur vel eftir það er næst horft til 15. júní og að þá verði miðað við 500 manns. Allt er þetta þó með fyrirvara um hvernig gengur.

Drög að ársreikningi Þingeyjarsveitar 2019 liggja fyrir og helstu tölur komnar í ljós. Rekstrarniðurstaðan er jákvæð um 13,1 milljónir kr. en áætlun með viðaukum gerði ráð fyrir 7,4 milljónir kr. jákvæðri rekstrarniðurstöðu. Þetta eru tölur með fyrirvara en verið er yfirfara og endurskoða reikninginn fyrir fyrri umræðu sem verður þann 28. maí n.k.

Rekstraryfirlit fyrstu þrjá mánuði ársins 2020 verður lagt fyrir fund þann 11. júní n.k. þar sem farið verður yfir rekstrartölur og þær bornar saman við áætlun.

Kostnaður vegna snjómoksturs fyrir árið 2020 er nú kominn í 27,4 milljónir kr. og er það um 8,2 milljónum framúr áætlun.

Fundir hafa verið haldnir í Leiguíbúðum Þingeyjarsveitar hses. þar sem fyrirhugaðar byggingar og kaup leiguíbúða hafa verið til umræðu. Undirbúningur og skipulag er í fullum gangi en Björn verkefnastjóri mun halda utan um þá vinnu. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur samþykkt stofnframlög til sveitarfélagsins og verður samningur um þau undirritaður á allra næstu dögum.

Stefnt er að því að afhjúpa minnisvarða um Stjörnu-Odda á sólstöðum þann 20. júní n.k. Steinsmiðja Akureyrar mun smíða og reisa minnisvarðann, sem myndlistarmaðurinn Örn Smári Gíslason hefur hannað. Lagt er til að minnisvarðinn verið reistur annaðhvort við bílastæðið á Grenjaðarstað eða þar sem heimreiðin þangað mætir Staðarbraut (vegi 854). Um er að ræða samstarfsverkefni áhugamanna með sveitarfélögunum Þingeyjarsveit og Norðurþingi og hefur verkið verið fjármagnað að fullu með stuðningi ýmissa félaga og stofnana.

Í dag, 14. maí, kl 15:00 var streymt frá verðlaunaathöfn hönnunarsamkeppni um uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis á Húsavík, þar kynnti Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra verðlaunatillöguna. Niðurstöður dómnefndar má sjá inni á heimasíðu sveitarfélagsins. Fyrirhugað er að nýtt og glæsilegt 60 rýma hjúkrunarheimili rísi í hlíðinni ofan Dvalarheimilisins Hvamms á Húsavík og er áætlað að framkvæmdir hefjist sumarið 2021 og ljúki í lok árs 2023. Alls bárust 32 tillögur í hönnunarsamkeppnina og hefur dómnefnd skipuð fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins, sveitarfélaganna sem standa að uppbyggingunni og fulltrúum frá Arkitektafélagi Íslands nú lokið störfum. Verkkaupar eru heilbrigðisráðuneytið, Norðurþing, Skútustaðahreppur, Þingeyjarsveit og Tjörneshreppur.

     

10.

Samband íslenskra sveitarfélaga: Fundargerðir - 1804006

 

Fundargerðir 882. og 883. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 

Lagðar fram til kynningar.

     

11.

Stýrihópur Nýsköpunar í norðri - Fundargerðir - 1911007

 

Fundargerð 5. fundar stýrihóps NÍN.

 

Lögð fram til kynningar.

     

Fundi slitið kl. 16:34