274. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022

05.03.2020

274. fundur

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022

haldinn í Kjarna fimmtudaginn 05. mars kl. 13:00

Fundarmenn

Arnór Benónýsson, Margrét Bjarnadóttir, Einar Örn Kristjánsson, Jóna Björg Hlöðversdóttir, Friðrika Sigurgeirsdóttir, Sigurbjörn Árni Arngrímsson og Sigríður Hlynur Helguson Snæbjörnsson.

Starfsmenn

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði: Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.

Oddviti óskaði eftir í upphafi fundar að gera breytingar á dagskrá, að færa 4. lið; Mývatnsstofa ehf. – Þjónustusamningur - 2002029 undir 1. lið og aðrir liðir færast neðar á dagskrá sem því nemur.

Samþykkt samhljóða.   

Dagskrá:

1.

Mývatnsstofa: Þjónustusamningur - 2002029

 

Lagður fram þjónustusamningur milli Mývatnsstofu ehf. og Þingeyjarsveitar um markaðssetningu á nafni og þjónustu.

 

Oddviti vakti athygli á mögulegu vanhæfi sveitarstjórnarfulltrúa vegna fjárhagslegra hagsmuna. Greidd atkvæði um vanhæfi sem var samþykkt. Margrét tók við fundarstjórn og Eyþór Kári mætti til fundarins undir þessum lið og tók þátt í afgreiðslu málsins. Friðrika, Sigríður Hlynur, Sigurbjörn Árni og Arnór yfirgáfu fundinn. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi þjónustusamning með áorðnum breytingum.   Sveitarstjóra falið að skrifa undir samninginn.

     

2.

Félagsheimilið Ýdalir: Umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi - 2002022

 

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra dags. 19.02.2020 þar sem Björgvin Viðarsson, forsvarsmaður sækir um rekstrarleyfi í flokki III-Umfangsmiklir áfengisveitingastaðir í Félagsheimilinu Ýdölum í Þingeyjarsveit.

 

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við veitt rekstrarleyfi með fyrirvara um að jákvæðar umsagnir berist frá byggingarfulltrúa og heilbrigðis og eldvarnareftirlitinu, sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 67/2016, um breytingu á lögum nr. 85/2007.

     

3.

Félagsþjónusta: Þjónustusamningur við Norðurþing - 1806017

 

Lagður fram til síðari umræðu samningur um sameiginlegt þjónustusvæði um almenna og sértæka félagsþjónustu. Aðildarsveitarfélög samningsins eru Norðurþing, Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur, Langanesbyggð, Svalbarðshreppur og Tjörneshreppur. Ofangreind sveitarfélög mynda sameiginlegt þjónustusvæði í Þingeyjarsýslum um félagsþjónustu, barnavernd og þjónustu við fatlað fólk þar sem Norðurþing er leiðandi sveitarfélag.

 

Sveitarstjórn samþykkir samninginn samhljóða og felur sveitarstjóra að skrifa undir hann.

     

4.

Skipulags- og umhverfisnefnd: Fundargerðir - 1804018

 

Lögð fram fundargerð 122. fundar Skipulags- og   umhverfisnefndar frá 20.02.2020. Jóna Björg gerði grein fyrir fundargerðinni   sem er í fjórum liðum.

 

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina.

     

5.

Skipurit Þingeyjarsveitar - 2002030

 

Sveitarstjóri lagði fram tillögu að skipuriti Þingeyjarsveitar.

 

Sveitarstjórn samþykkir framlagt skipurit Þingeyjarsveitar með áorðnum breytingum.

     

6.

Innkaupastefna Þingeyjarsveitar - 1810005

 

Lögð fram drög að innkaupastefnu Þingeyjarsveitar samkvæmt lögum um opinber innkaup nr. 120/2016 og reglugerðum settum á grundvelli þeirra.

 

Sveitarstjórn samþykkti samhljóða framlagð innkaupastefnu sveitarfélagsins.

     

7.

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga - 2002021

 

Sveitarstjórn samþykkti 27.02.2020 í tölvupósti milli funda eftirfarandi sameiginlega umsögn Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps um framvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofn sveitarfélaga:

 

Sveitarstjórnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar eru í formlegum sameiningarviðræðum undir verkefnisheitinu Þingeyingur og senda því sameiginlega umsögn við frumvarpið. Verkefnið Þingeyingur eru einu formlegu sameiningarviðræður sveitarfélaga sem fram fara um þessar mundir. Áætlað er að kosið verið um sameininguna í lok mars 2021. 
  
Vísað er til fyrri umsagna sveitarstjórna Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar. Annars vegar við tillögu að reglum um fjárhagslega aðstoð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga og   hins vegar um frumvarp um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og sveitarstjórnarlögum (forsendur úthlutana úr Jöfnunarsjóði. 
  
Fulltrúar sveitarfélaganna hafa tekið frumkvæði og stutt dyggilega við stefnumörkun ríkisstjórnar og Alþingis með orðum sínum og aðgerðum. Það eru sveitarstjórnunum því mikil vonbrigði að í engu hafi verið tekið tillit til   ábendinga þeirra í fyrri umsögnum. Eru þau sjónarmið því ítrekuð hér og skorað á Alþingi að taka tillit þeirra. 
  
Nauðsynlegt er að ræða frumvarpið í samhengi við stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019-2023 sem samþykkt var á Alþingi 29. janúar sl., því í þeim breytingum sem lagðar eru til á lögum um tekjustofna sveitarfélaga annars vegar og   sveitarstjórnarlögum hins vegar má finna hvata og hindranir fyrir því að stefnumörkun stjórnvalda nái fram að ganga. 
  
Veigamesta hindrunin fyrir því að stefna Alþingis nái fram að ganga er að ekki er gert ráð fyrir sérstökum framlögum ríkissjóðs til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að standa undir kostnaði vegna sameiningar sveitarfélaga, sbr. 12. gr. frumvarpsins. Sveitarstjórnirnar leggja þunga áherslu á að ríkissjóður taki þátt í því þjóðhagslega mikilvæga verkefni að stuðla að endurskipulagningu íslenska sveitarstjórnarkerfisins með sérstökum framlögum í Jöfnunarsjóð. Óásættanlegt er að fjármagn til stuðnings við sameiningar   sveitarfélaga sé tekið af fjármagni til annarra verkefna sem Jöfnunarsjóði er ætlað að fjármagna. 
  
Í skýrslu nefndar ráðherra um Stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga er lagt til að stjórnvöld taki markvissari þátt í verkefninu um styrkingu sveitarstjórnarstigsins og fjárfesti í því. Sveitarstjórnarfólk í   Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit telur að fjárhagslegir hvatar til sameiningar sveitarfélaga séu forsenda hraðari sameininga og þar með fækkunar sveitarfélaga. 
  
Sveitarstjórnarráðherra hefur sjálfur vísað til þess möguleika að fjármögnun ríkisins komi til greina, m.a. í ávarpi á XXXII. landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Á 10. áratugnum og aftur í upphafi aldarinnar beittu ríkisstjórn og Alþingi sér fyrir sameiningum sveitarfélaga. Var það gert með sérstökum framlögum úr ríkissjóði i Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Nú hefur Alþingi í fyrsta skipti samþykkt heildarstefnumótun í málefnum sveitarfélaga og því eðlilegt að ríkissjóður taki þátt í fjármögnun þeirra stefnu. 
  
Ábendingar við aðrar greinar frumvarpsins. 
Í 7. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði veitt heimild til að veita fjárhagslega aðstoð til þess að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga í allt að sjö ár eftir sameiningu, í stað fimm ára áður. Sú breyting felur í sér að framlög greiðast á lengri tíma en áður og er það breyting til hins verra fyrir sveitarfélög sem sameinast. Sveitarstjórnirnar leggja áherslu á að samræmis verði gætt, þannig að framlög vegna skerðinga sem kunna að verða á tekjujöfnunar- og útgjaldajöfnunarframlögum í kjölfar sameiningar verði þá líka veitt til sjö ára, eða að öll sameiningarframlög miðist við fimm ár. 
  
Sveitarstjórnirnar ítreka fyrri tillögur um breytingar á útreikningi svokallaðra skuldajöfnunarframlaga sem veitt eru við sameiningu sveitarfélaga. Í fyrsta lagi leggja þær til að miðað verði við samstæðureikning, þ.e. bæði A og B hluta. Tillagan er rökstudd með því að skuldir og skuldbindingar fyrirtækja í B-hluta eru háðar samþykki sveitarstjórna og með ábyrgð sveitarsjóða. Þá eru skuldir B-hlutafyrirtækja í mörgum tilvikum með veði í skatttekjum sveitarsjóða og því í eðli sínu skuldbindingar sveitarsjóðs. Í ljósi þess er óeðlilegt að undanskilja skuldir og skuldbindingar B-hluta fyrirtækja við mat á skuldastöðu. 
  
Í öðru lagi leggja sveitarstjórnirnar til að við ákvörðun skuldajöfnunarframlaga verði sömu aðferðum beitt og við útreikning á skuldahlutfalli skv. 2. tölul. 2. mgr. 64. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, líkt og gert er í reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Þá leggja sveitarstjórnirnar til að heimilt verði að taka tillit til nauðsynlegs viðhalds og framkvæmda sem mörg sveitarfélög hafa frestað til að standast ákvæði laga um rekstrarjafnvægi og skuldahlutfall. Slíka útgjaldaþörf ber að leggja að jöfnu við aðrar skuldbindingar. Sé það   ekki gert taka framlögin ekki mið af raun skuldsetningu þeirra sveitarfélaga sem vinna að sameiningu og því er aðstöðumunur þeirra ekki jafnaður að fullu.   
  
Sveitarstjórnirnar styðja tillögur um að heimild til að setja sérreglur um stjórn og stjórnskipulag einstakra sveitarfélaga í tilraunaskyni sé útvíkkuð, sbr. 10. gr. og um auknar heimildir til að nota fjarfundarbúnað á sveitarstjórnarfundum og öðrum fundum nefnda sveitarfélagsins sbr. 2. gr. frumvarpsins. 
  
Sveitarstjórnirnar lýsa ánægju með tillögu um að sett verði stefna um þjónustustig í byggðum og byggðalögum sveitarfélags samhliða fjárhagsáætlun, sbr. 9. gr. frumvarpsins. Slík stefna kemur til móts við óskir íbúa sem búa fjær byggðakjörnum. Að mati sveitarstjórnar eiga sömu sjónarmið að gilda varðandi þjónustu ríkisins og er skorað á Alþingi að setja samskonar kröfur á ríkisstofnanir að móta stefnu til þriggja ára um það þjónustustig sem skal halda uppi í byggðum og byggðalögum á landsbyggðinni. Við mótun þeirra stefnu skuli viðkomandi sérstaklega leitast eftir samráði við viðkomandi sveitarfélög. 
  
Sveitarstjórnirnar leggja mikla áherslu á að við endurskoðun laga um tekjustofna sveitarfélaga og framlög Jöfnunarsjóðs verði kveðið á um sérstakt framlag til landstórra sveitarfélaga, enda bera þau umtalsverðan kostnað umfram önnur sveitarfélög vegna stærðarinnar. Verði sameining Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar samþykkt í atkvæðagreiðslu verður til landstærsta sveitarfélag Íslands, sem nær yfir um 12% landsins. Svæðið er stærsta skipulagsumdæmi Íslands þar sem er m.a. að finna stór friðlýst svæði og marga fjölfarna ferðamannastaði. Innan sveitarfélaganna er umfangsmikið net þjóðvega og héraðsvega um sveitir. Sem dæmi má nefna að skólaakstur er um 560 km á dag samanlagt í sveitarfélögunum tveimur og akstur vegna sorphirðu er rúmlega 1.250 km vikulega. Þau börn sem fara um lengstan veg aka 110 km daglega til og frá skóla. 
  
Sveitarstjórn staðfestir umsögnina sem þegar hefur verið send inn á Samráðsgátt stjórnvalda.

     

8.

Flugleiðahótel ehf: Samkomulag - 2002011

 

Lagt fram undirritað samkomulag um lok leigusamnings milli Þingeyjarsveitar og Flugleiðahótels ehf. vegna reksturs Hótel Eddu í Stórutjarnaskóla. Í gildi er leigusamningur vegna reksturs Hótels Eddu, við   Þingeyjarsveit annars vegar og Tjarnir hf. hins vegar, sem gildir til hausts 2023 en er með átján mánaða uppsagnarfresti. Í október 2019 var samningum þessum sagt upp af Flugleiðahótelum, sem jafnframt óskaði eftir að vera ekki með rekstur þar sumarið 2020, þrátt fyrir ákvæði samninga þar um.

 

Sveitarstjórn staðfestir fyrirliggjandi samkomulag um lok leigusamnings við Flugleiðahótel ehf.

     

9.

Hótel Laugar ehf.: Leigusamningur - 2002024

 

Lögð fram drög að leigusamningi milli Þingeyjarsveitar og Hótels Lauga ehf. þar sem Hótel Laugar ehf. mun leigja Stórutjarnaskóla   til reksturs sumarhótels frá 5. júní til 25. ágúst til næstu tíu ára með endurskoðunarákvæði eftir þrjú ár. Samningurinn er uppsegjanlegur með átján mánaða fyrirvara.

 

Undir þessum lið tók sveitarstjórn umræðu um hugsanlegt vanhæfi einhverra sveitarstjórnarfulltrúa. Samhljóða niðurstaða var að svo væri ekki. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi leigusamning við Hótel Laugar ehf.

     

10.

KPMG ehf. - Stjórnsýsluskoðun Þingeyjarsveitar 2020 - 1901046

 

Lögð fram skýrsla frá KPMG um stjórnsýsluskoðun Þingeyjarsveitar 2020. Nokkrar athugasemdir og ábendingar eru settar fram í skýrslunni sem ýmist hefur verið brugðist við eða er þegar komið í ferli.

 

Sveitarstjórn staðfestir fyrirliggjandi skýrslu.

     

11.

Þeistareykir: Deiliskipulag ferðaþjónustu, skipulagslýsing - 2002013

 

Tekin fyrir drög að skipulagslýsingu fyrir deiliskipulag ferðaþjónustu á Þeistareykjum frá Teiknistofu arkitekta, Gylfa Guðjónssonar og félaga en sveitarstjórn lagði til að unnið yrði deiliskipulag   á Þeistareykjum með áherslu á stefnumörkun og framtíðaruppbyggingu svæðisins fyrir ferðamenn. 
  
Allar líkur eru á að umferð um svæðið muni aukast verulega á næstu árum með bættum samgöngum og nýjum vegi frá Húsavík til Mývatnssveitar. 
  
Deiliskipulagið mun ná yfir land Þeistareykja, sem er í eigu Þingeyjarsveitar. Innan þess er afmarkað deiliskipulag Þeistareykjavirkjunar sem mun halda gildi sínu. 
  
Skipulags- og umhverfisnefnd tók skipulagslýsinguna til umræðu og afgreiðslu á fundi sínum þann 20.02.2020.

 

Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi skipulagslýsingu og felur skipulagsfulltrúa að fá umsögn Skipulagsstofnunar og umsagnaraðila og að kynna fyrir almenningi skv. 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  

     

12.

Húsnæðisáætlun Þingeyjarsveitar 2019-2026: Endurskoðun   - 1904020

 

Lögð fram drög að uppfærðri húsnæðisáætlun Þingeyjarsveitar 2020-2026. Byggingarfulltrúi mætti til fundarins undir þessum lið og gerði grein fyrir stöðu mála.

 

Sveitarstjórn þakkar byggingarfulltrúa fyrir kynninguna og mun afgreiða húsnæðisáætlunina að vinnu lokinni.

     

13.

Skýrsla sveitarstjóra - 1903026

 

Sveitarstjóri fór yfir helstu verkefni úr starfi sveitarfélagsins síðustu vikur.

 

Fundur með heilbrigðisráðherra varðandi eflingu heilsugæslu í Þingeyjarsveit. 
Sveitarstjóri og oddviti áttu fund með heilbrigðisráðherra um eflingu heilsugæslu í Þingeyjarsveit. Í framhaldi verður sent minnisblað til ráðherra og framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Norðurlands þar sem fram koma þær hugmyndir sem um var rætt. Markmiðið er að efla þjónustu við íbúa m.a. með   því að samþætta starfsemi heilsugæslu og heimaþjónustu á svæðinu, bjóða uppá á betri aðstöðu heilbrigðisstarfsfólks á staðnum, fjölga heimsóknartímum lækna o.fl. 
  
Árshátíð Þingeyjarsveitar 2020. 
Árshátíð Þingeyjarsveitar 2020 verður haldin í Ýdölum síðasta vetrardag, 22. apríl og er þetta í fyrsta skipti sem hún er haldin. 
  
Fundur með almannavörnum vegna COVID-19. 
Sveitarstjóri sagði frá fundum með almannavörnum er búið er að lýsa yfir hættustigi vegna kórónuveiru COVID-19. Gripið hefur verið til margvíslegra varúðarráðstafana til að hefta útbreiðslu veirunnar. Eitt af því er að ítreka mikilvægi þrifa á öllum stöðum sem sveitarfélagið ber ábyrgð ár. Huga þarf vel að reglubundnum sértækum þrifum í sameiginlegum rýmum t.d. í íþróttasölum, búningsherbergjum og kaffistofum. Einnig þarf að huga vel að yfirborðsflötum t.d. hurðarhúnum, handriðum, snertiskjáum og ljósarofum. Nauðsynlegt er að aðgengi sé að handspritti, sérstaklega í íþróttasölum. Leiðbeiningar og plaköt hafa verið send í allar stofnanir sveitarfélagsins. 
  
Snjómokstur. 
Snjómokstur fyrir árið 2019 fór 11 milljónir kr. fram úr áætlun, þrátt fyrir 5 milljón kr. viðauka. Samtals var snjómokstur fyrir árið 2019 um 30 milljónir kr. Snjómokstur fyrir árið 2020 er kominn í um 12 milljónir kr., heildarupphæð sem áætluð er í snjómokstur fyrir árið er um 21 milljón kr. 
  
Kortasjá komin inn á heimasíðuna. 
Sveitarstjóri vakti athygli á kortasjá sem er komin í gagnið á heimasíðu sveitarfélagsins. Á kortasjánni eru upplýsingar um skipulag, grunnteikningar, örnefni, línulagnir og margt fleira. Verið er að safna gögnum yfir sveitarfélagið sem munu verða aðgengileg í framtíðinni. 
  
Einar yfirgaf fundinn.

     

14.

Eyþing Fundargerðir - 1804005

 

Fundargerðir 318. - 327. fundar stjórnar Eyþings.

 

Lagðar fram til kynningar.

     

15.

Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE): Fundargerðir - 2002017

 

Fundargerðir 1. - 6. fundar stjórnar SSNE.

 

Lagðar fram til kynningar.

     

16.

Samstarfsnefnd um sameiningarferli: Fundargerðir - 1906023

 

Fundargerð 7. fundar samstarfsnefndar um sameiningarferli.

 

Lögð fram til kynningar.

     

17.

Héraðsnefnd Þingeyinga: Fundargerðir - 1804023

 

Fundargerð 18. fundar framkvæmdastjórnar HNÞ.

 

Lögð fram til kynningar.

     

Fundi slitið kl. 16:08