258. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022

13.06.2019

258. fundur

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022

haldinn í Kjarna fimmtudaginn 13. júní kl. 10:00

Fundarmenn

Arnór Benónýsson, Árni Pétur Hilmarsson, Jóna Björg Hlöðversdóttir, Hlynur Snæbjörnsson, Hanna Jóna Stefánsdóttir, Ásvaldur Ævar Þormóðsson og Einar Örn Kristjánsson.

Starfsmenn

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri

Fundargerð ritaði: Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri
Dagskrá:
 
1. Sameiningarmál: Skipun í samstarfsnefnd - 1906003

Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit hafa átt í miklu samstarfi sín á milli síðustu ár. Sveitarfélögin eiga með sér formlegt samstarf um skipulags- og byggingamál og brunavarnamál og eru auk þess aðilar að ýmsum samstarfsverkefnum.

Í Skútustaðahreppi búa um 500 íbúar og í Þingeyjarsveit rúmlega 900 íbúar. Sveitarfélögin liggja saman og eiga margt sameiginlegt, sé litið til viðfangsefna, atvinnulífs og mannlífs.

Að mati sveitarstjórna Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar gætu falist tækifæri í því að sameina sveitarfélögin tvö í eitt öflugra sveitarfélag. Fulltrúar sveitarfélaganna hafa átt viðræður um að skipuð verði nefnd til að kanna kosti hugsanlegrar sameiningar sveitarfélaganna tveggja. Slík nefnd fengi það hlutverk að kortleggja hugsanlegan ávinning, veikleika og helstu viðfangsefni slíkrar endurskipulagningar í víðtæku samráði við íbúa.

Við undirbúning málsins var leitað eftir ráðgjöf RR ráðgjafar sem hefur sinnt verkefnastjórn og annarri ráðgjöf við verkefnið Sveitarfélagið Austurland og undirbúning sameiningar Garðs og Sandgerðisbæjar, sem nú ber heitið Suðurnesjabær. Þá hafa ráðgjafar RR ráðgjafar reynslu af sameiningu annarra sveitarfélaga.

Í júlí 2017 kom út skýrslan Staða og framtíð íslenskra sveitarfélaga sem unnin var að beiðni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Í skýrslunni komu fram nokkuð afgerandi tillögur meðal annars um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga í framtíðinni.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur markað þá stefnu að innan fárra ára verði ekkert sveitarfélag á Íslandi með færri en 1.000 íbúa. Ráðherra kynnti stefnu sína á Landsþingi sambands íslenskra sveitarfélaga í október 2018 og hefur fylgt henni eftir með skipan nefndar um framtíð sveitarstjórnarstigsins. Sú nefnd hefur nýlega kynnt svokallaða Grænbók þar sem almenningi og hagsmunaaðilum er boðið að leggja fram sín sjónarmið um álitaefni, viðfangsefni og framtíðarsýn sem nýst gætu í stefnumótuninni.

Á haustdögum er fyrirhugað aukaþing Sambands íslenskra sveitarfélaga um stefnumörkunina.

Fulltrúar Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar hafa átt fundi með fulltrúum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að fá upplýsingar um aðkomu ráðuneytisins og stuðning Jöfnunarsjóðs við verkefnið. Verði tekin ákvörðun um að skipa nefnd um mögulega sameiningu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar á grundvelli 119. gr. sveitarstjórnarlaga, þá mun Jöfnunarsjóður veita framlög sem munu standa undir kostnaði við verkefnið.

Að mati sveitarstjórna Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar er skynsamlegt að sveitarfélögin hefji formlegar sameiningarviðræður sem munu leiða til þess að tillaga um sameiningu verði lögð fyrir íbúa í atkvæðagreiðslu. Á þann hátt er valdið sett í hendur íbúanna. Tillagan verður unnin með virkri þátttöku íbúa m.a. á íbúafundum þar sem tekin verður umræða um tækifæri og áskoranir sem geta falist í sameiningu þessara tveggja sveitarfélaga. Hlutverk kjörinna fulltrúa og starfsmanna sveitarfélaganna er að undirbúa tillöguna eins vandlega og kostur er og kynna verkefnið svo íbúar geti tekið upplýsta ákvörðun. Í því ljósi er eftirfarandi tillaga lögð fram til afgreiðslu í sveitarstjórnum Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samþykkir samhljóða að sveitarstjórnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar skipi þrjá fulltrúa hvort sveitarfélag og tvo til vara í samstarfsnefnd sem kanna skal möguleika á sameiningu sveitarfélaganna í samræmi við 119. grein sveitarstjórnarlaga.

Sveitarstjórar skulu hafa seturétt með málfrelsi og tillögurétt á fundum samstarfsnefndar, en lagt er til að Róbert Ragnarsson hjá RR ráðgjöf verði verkefnisstjóri.

Markmiðið er að sameining sveitarfélaganna leiði til bættrar þjónustu, öflugri stjórnsýslu og auknum slagkrafti við að ná árangri í byggða-, atvinnu- og samgöngumálum.

Stefnt skal að því að samstarfsnefnd skili áliti sínu til sveitarstjórna fyrir lok árs 2020. Samstarfsnefndinni er falið að setja verkefninu nánari verkáætlun og tímaramma.

Tillaga þessi er lögð fram í kjölfar viðræðna fulltrúa sveitarfélaganna og samráðs við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar skipar Arnór Benónýsson oddvita, Margréti Bjarnadóttur og Jónu Björgu Hlöðversdóttur til setu fyrir sína hönd sem aðalmenn í samstarfsnefnd og Árna Pétur Hilmarsson og Sigurð Hlyn Snæbjörnsson til vara.

Sveitarstjórum Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar er falið að boða samstarfsnefnd til fyrsta fundar, þar sem nefndin skiptir með sér verkum.

Kynningarfundir verða haldnir í Félagsheimilinu Skjólbrekku í Skútustaðahreppi þann 20. júní, kl. 17.00 og kl. 20:00 sama dag í Ljósvetningabúð í Þingeyjarsveit. Á fundunum verður ferli verkefnisins kynnt og íbúum gefst tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri strax í upphafi.                             

2. Rekstraryfirlit: Fyrstu fjórir mánuðir ársins 2019 - 1804046

Lagt fram rekstraryfirlit sveitarfélagsins fyrstu fjóra mánuði ársins, samanborið við fjárhagsáætlun 2019. Sveitarstjóri ásamt skrifstofustjóra, sem mætti til fundarins undir þessum lið, gerði grein fyrir stöðunni sem heilt yfir er samkvæmt áætlun.                         

3. Göngubrú á Þeistareykjum - Erindi - 1906002

Lagt fram erindi frá Örlygi Hnefli Jónssyni, dags. 5.06.2019 þar sem hann leitar eftir afstöðu sveitarstjórnar til hugmyndar hans um að byggð verði göngubrú yfir gjá á Þeistareykjum á skilum heimsálfa þ.e. Norður Ameríkuflekans og Evrasíuflekans.

Sveitarstjórn tekur jákvætt í erindið og vísar því til skoðunar og frekari úrvinnslu við gerð deiliskipulags ferðaþjónustusvæðis á Þeistareykjum sem nú er í vinnslu.                            

4. Markaðsstofa Norðurlands: Flugklasinn Air 66N - 1804011

Fyrir fundinum liggur bréf frá Hjalta Páli Þórarinssyni, verkefnastjóra Flugklasans Air 66N, dags. 31.05.2019 þar sem óskað er eftir aðkomu sveitarfélagsins með framlagi sem nemur 300 kr. á hvern íbúa á ári í þrjú ár (2020-2023). Sveitarfélögin á Norðurlandi hafa um árabil stutt við starf flugklasans með sérstökum fjárframlögum og þörf er á áframhaldandi stuðningi til þess að halda áfram með verkefnið og byggja ofan á þann árangur sem náðst hefur.

Sveitarstjórn samþykkir erindið og vísar því til gerðrar fjárhagsáætlunar 2020-2023.                            

5. Skýrsla sveitarstjóra - 1903026

Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri fór yfir helstu verkefni úr starfi sveitarfélagsins síðustu vikur.

6. Almannavarnarnefnd Þingeyinga - Fundargerðir - 1810028

Fundargerð stjórnar Almannavarnanefndar Þingeyinga frá 24.05.2019 lögð fram til kynningar.                            

7. Menningarmiðstöð Þingeyinga: Fundargerðir - 1809019

Fundargerð aðalfundar Menningarmiðstöðvar Þingeyinga frá 15.05.2019 lögð fram til kynningar.                  

8. Samband íslenskra sveitarfélaga: Fundargerðir - 1804006

Fundargerð 871. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga lögð fram til kynningar.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 12:03