252. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn

07.03.2019

252. fundur

haldinn í Kjarna fimmtudaginn 07. mars kl. 13:00

Fundarmenn

Arnór Benónýsson, Margrét Bjarnadóttir, Árni Pétur Hilmarsson, Jóna Björg Hlöðversdóttir, Hlynur Snæbjörnsson, Hanna Jóna Stefánsdóttir og Friðrika Sigurgeirsdóttir.

Starfsmenn

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri

Fundargerð ritaði: Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri
 Dagskrá:
1. Viðundur ehf.: Styrkbeiðni - 1902043
Lagt fram erindi frá Ólafi Ingólfssyni f.h. Viðundurs ehf. sem áður hét Fellsskógur ehf. dags. 29.01.2019 þar sem óskað er eftir breytingu á áður samþykktu fjárframlagi til fyrirtækisins frá 2012. Eftirstöðvar framlagsins nema nú kr. 250.000 og óskað er eftir að þeirri upphæð verði breytt í styrk.
 

Sveitarstjórn samþykkir styrk að upphæð kr. 250.000 og samþykkir þá upphæð sem viðauka við fjárhagsáætlun 2019 sem mætt verði með handbæru fé.                            

2. Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins: Landbúnaður og náttúruvernd - 1902047
Fyrir fundinum liggur bréf frá Sigurði Torfa Sigurðssyni f.h. Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, dags. 25.01.2019 um verkefni þar sem kannaðir verða möguleikar á náttúruvernd á landbúnaðarsvæðum. Þetta er samstarfsverkefni Bændasamtaka Íslands og Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Sú ákvörðun hefur verið tekin um framkvæmd verkefnisins að skoða í þessu samhengi tvö landssvæði til greiningar, annars vegar Suður-Þingeyjarsýslu og hins vegar Vesturland. Verkefnið hefur nú þegar verið kynnt fyrir formanni Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga og vill ráðgjafamiðstöðin kanna hug sveitarstjórnar og fá samþykki fyrir staðarvali.
 

Sveitarstjórn tekur jákvætt í erindið og samþykkir fyrirhugað staðarval fyrir sitt leyti og hvetur til góðrar samvinnu við bændur um verkefnið.                      

3. Flugleiðahótel ehf.: Umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi - 1902049
Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, dags. 28.02.2019 þar sem Tryggvi Guðmundsson forsvarsmaður Flugleiðahótela ehf. sækir um rekstrarleyfi í flokki IV, gististaður með áfengisveitingum, fyrir Hótel Eddu á Stórutjörnum í Þingeyjarsveit.
 

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við veitt rekstrarleyfi með fyrirvara um að jákvæðar umsagnir berist frá byggingarfulltrúa og heilbrigðis og eldvarnareftirlitinu, sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 67/2016, um breytingu á lögum nr. 85/2007.                           

4. Brunavarnarnefnd: Fundargerðir - 1809018
Lögð fram 27. fundargerð Brunavarnarnefndar Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar frá 27.02.2019. Arnór gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í sex liðum.
 

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina.                         

5. Skipulags- og umhverfisnefnd: Fundargerðir - 1804018

Lögð fram 111. fundargerð Skipulags- og umhverfisnefndar frá 7.03.2019. Jóna Björg gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í 6 liðum.

1. liður fundargerðar; Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, þjóðgarður á miðhálendi Íslands.
Sveitarstjórn er sammála eftirfarandi bókun og áherslum nefndarinnar um mögulega stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands:
Skipulags- og umhverfisnefnd tekur undir þau atriði sem fjallað var um á fundi sveitastjórna og hagaðila með þverpólitískri nefnd um stofnun miðhálendisþjóðgarðs þann 9.janúar 2019.
Skipulags- og umhverfisnefnd telur nauðsynlegt að sveitarfélagið hafi áfram skipulagsvald í sveitarfélaginu og leggur áherslu á að deiliskipulagsvinna verði á ábyrgð þjóðgarðsins. Skilgreina þurfi efnistökusvæði innan þjóðgarðs vegna efnistöku til viðhalds og uppbyggingar innviða svo ekki þurfi að sækja efni langar leiðir.
Nefndin leggur ríka áherslu á að vel verði hugað að gáttum inn í þjóðgarðinn, sem á þessu svæði er Bárðardalsvegur vestari sem liggur að Sprengisandi. Nauðsynlegt er að byggja upp betri veg og tryggja fullnægjandi þjónustu á honum samhliða stofnun þjóðgarðs. Uppbygging þjónustumiðstöðvar á svæðinu er forsenda þess að gestir þjóðgarðsins fái notið hans.
Tillaga nefndarinnar er að mörk þjóðgarðsins verði almennt miðuð við þjóðlendur innan miðhálendislínunnar en nái aldrei yfir eignalönd. Þó verði eigendum jarða sem liggja að þjóðgarðinum heimilt að óska eftir að hluti þeirra eignalanda verði innan þjóðgarðsins.
Mat nefndarinnar er að hefðbundin not af svæðum innan mögulegs þjóðgarðs haldi áfram, svo sem beit, veiði, útivist og mennta- og menningartengd ferðaþjónusta.
Nefndin ítrekar að huga beri að tækifærum til atvinnuuppbyggingar og nýtingar þekkingar mannauðs á svæðinu.
 
2. liður fundargerðar; Goðafoss ehf., stöðuleyfi fyrir gámahús.
Sveitarstjórn samþykkir erindið og felur byggingarfulltrúa að afgreiða stöðuleyfi vegna gámahúss skv. meðfylgjandi uppdráttum. Sveitarstjórn hvetur landeigendur til að huga að gerð deiliskipulags svæðisins svo hægt sé að gefa út byggingarleyfi fyrir þeim húsum sem eru á stöðuleyfi.
5. liður fundargerðar; Eyjardalsvirkjun, beiðni um umsögn vegna matsskyldu.
Sveitarstjórn tekur undir með nefndinni og telur að nægjanlega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, mótvægisaðgerðum og vöktun og telur að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til 2. viðauka í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Sveitarstjórn samþykkir að fela skipulagsfulltrúa málsmeðferð vegna umsagnarinnar.
 

Jóna Björg tók ekki þátt í afgreiðslu þessa liðar vegna vanhæfis.

Fundargerðin staðfest að öðru leyti.                         

6. Samþykkt um afgreiðslur byggingarfulltrúa Þingeyjarsveitar - 1902027
Lögð fram til síðari umræðu drög að samþykkt um afgreiðslur byggingarfulltrúa Þingeyjarsveitar skv. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 um framsal sveitarstjórnar á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála.
 

Sveitarstjórn samþykkir framlagða samþykkt um afgreiðslu byggingarfulltrúa Þingeyjarsveitar.                      

7. Stefna varðandi skagann á milli Eyjafjarðar og Skjálfanda: Skipun í nefnd - 1903002
Í náttúruverndaráætlun 2004-2008 sem samþykkt var á Alþingi árið 2004 er lagt til að friðlýsa 14 svæði á tímabilinu, þar á meðal er Látraströnd og Náttfaravíkur. Í framhaldi af sameiginlegum fundi sveitarstjórna Þingeyjarsveitar og Grýtubakkahrepps sem haldinn var 4. mars s.l., var samþykkt að skipa fulltrúa beggja sveitarfélaga í fjögurra manna nefnd sem myndi móta sameiginlega stefnu sveitarfélaganna í friðlýsingarmálum skagans á milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa.
 

Samþykkt að skipa Jónu Björgu Hlöðversdóttur og Margréti Bjarnadóttur sem fulltrúa Þingeyjarsveitar í fyrrgreinda nefnd.                      

8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum nr. 93/1995 um matvæli og lögum nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. - 1903001
Sveitarstjórn samþykkir eftirfarandi ályktun vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum nr. 93/1995 um matvæli og lögum nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru:
 

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar lýsir áhyggjum sínum yfir því hversu skammt undirbúningur fyrirhugaðra mótvægisaðgerða er kominn vegna þeirra breytinga sem í frumvarpinu felast. Þó aðgerðaáætlunin komi inn á mikilvæg atriði er ljóst að betur má ef duga skal. Eins verður ekki betur séð en að sá tími sem ætlaður er til innleiðingar sé allt of skammur. Því hvetur sveitarstjórn til þess að frumvarpið verði ekki samþykkt fyrr en mótuð hefur verið skýr stefna um framtíð landbúnaðarins í þessu umhverfi, tollasamningar endurskoðaðir og samkeppnisstaða atvinnugreinarinnar betur tryggð.

Að öðru leyti tekur sveitarstjórn undir bókun Skipulags- og umhverfisnefndar Þingeyjarsveitar:

Nefndin er sammála um mikilvægi þess að lýsa yfir andstöðu sveitarfélagsins við fyrirhuguðum breytingum í frumvarpi landbúnaðarráðherra.
Landbúnaður er grundvöllur búsetu í stórum hluta Þingeyjarsveitar og telur nefndin að frumvarp ráðherra sé aðför að landbúnaði á Íslandi og þar með búsetu í hinum dreifðu byggðum.
Mikilvægt er að tryggja þá sérstöðu sem landið hefur í lágri tíðni alvarlegra sýkinga vegna sýklalyfjaónæmis.
Íslendingum ber skylda til að vernda erfðaauðlindir sem íslenskir búfjárstofnar búa yfir auk þess sem lág sjúkdómastaða þeirra er einstök og sýklalyfjanotkun í íslenskri matvælaframleiðslu er fádæmalítil.

Matvælaöryggi og lýðheilsa eiga alltaf að vega þyngra en viðskiptahagsmunir.                       

9. Historic Endurance Rally Organisation (HERO): beiðni um leyfi fyrir aksturskeppni - 1903005
Lagt fram bréf frá Tryggva M. Þórðarsyni, fyrir hönd Historic Endurance Rally Organisation (HERO), dags. 7. febrúar þar sem fram kemur að HERO í Bretlandi er að skipuleggja ferð umhverfis Ísland í september n.k. þar sem keppt verður í ökuleikni og nákvæmnisakstri. Sótt er um leyfi til Þingeyjarsveitar sem landeiganda um að nota veginn sem liggur frá vegi 87 eða Kísilvegi að Þeistareykjum dagana 10. og 11. september vegna aksturskeppninnar. Engar lokanir verða á veginum vegna þessa og því opið fyrir almenna umferð á meðan aksturskeppnin stendur yfir.
 

Sveitarstjórn samþykkir að veita leyfi fyrir aksturskeppninni á umræddum vegi.                  

10. Eyþing: Náttúruvernd og efling byggða - 1902046

Verkefnalýsing og verksamningur um greiningu tækifæra og áhrifa friðlýstra svæða á nærsvæði. Lagt fram til kynningar.     

11. EYÞING: Fundargerðir - 1804005

Fundargerð 317. fundar stjórnar Eyþings lögð fram til kynningar.                 

12. Fulltrúaráð Eyþings: Fundargerðir - 1903003

Fundargerð fulltrúaráðs Eyþings frá 15.02.2019 lögð fram til kynningar.                       

13. Dvalarheimili aldraðra sf.: Fundargerðir - 1806047

Fundargerð 5. fundar stjórnar Dvalarheimilis aldraðra sf. lögð fram til kynningar.               

14. Samband íslenskra sveitarfélaga: Fundargerðir - 1804006

Fundargerð 868. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga lögð fram til kynningar.                 

15. Stefnumótun í málefnum barna, endurskoðun á félagslegri umgjörð og þjónustu við börn á Íslandi - 1902040

Stefnumótun í málefnum barna, endurskoðun á félagslegri umgjörð og þjónustu við börn á Íslandi. Lagt fram til kynningar.         

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 15:00