246.fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022

06.12.2018

246.fundur

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022

haldinn í Kjarna fimmtudaginn 06. desember kl. 13:00

Fundarmenn

Arnór Benónýsson, oddviti
Margrét Bjarnadóttir, aðalmaður
Ásvaldur Ævar Þormóðsson, aðalmaður
Árni Pétur Hilmarsson, aðalmaður
Jóna Björg Hlöðversdóttir, aðalmaður
Sigurður Hlynur Snæbjörnsson, aðalmaður
Hanna Jóna Stefánsdóttir, aðalmaður.

 

Starfsmenn

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri

Fundargerð ritaði: Dagbjört Jónsdóttir

 

Oddviti setti fund.

 

 Dagskrá:

 

 

1.      Viðauki við fjárhagsáætlun 2018 -1812001

Undirbúningsframkvæmdir hafa staðið yfir vegna flutnings leikskólans Barnaborgar yfir í Þingeyjarskóla og eru hluti af heildarframkvæmd verksins sem er á fjárhagsáætlun 2019. Sveitarstjóri óskaði eftir viðauka við fjárhagsáætlun 2018 að færa kr. 5 milljónir úr eignasjóði yfir í fjárfestingar þar sem um nýframkvæmd er að ræða. Ekki er um að ræða aukin fjárútlát við áætlun 2018.

Sveitarstjórn samþykkir viðauka við fjárhagsáætlun 2018, að færa 5 milljónir úr eignasjóði yfir í fjárfestingar vegna framkvæmda við leikskólann Barnaborg.

 

2.      Gjaldskrár 2019: Seinni umræða -1811029

Gjaldskrár 2019 teknar til síðari umræðu og lagðar fram til samþykktar.

Sundlaugin á Laugum – óbreytt

Heimaþjónusta – tekjuviðmið hækkuð (tekur breytingum skv. vísitölu neysluverðs)

Fasteignaskattur, lóðarleiga, fráveita- og vatnsgjald – óbreytt en tekjuviðmið afsláttar hækkuð

Félagsheimili – hækkun 3%

Útleiga á borðbúnaði og áhöldum félagsheimila í Þingeyjarsveit – óbreytt

Seigla – miðstöð sköpunar – hækkun  3%

Flateyjarhöfn á Skjálfanda – hækkun 3%

Leikskólar – óbreytt

Tónlistarskólar – hækkun 3%

Dagforeldrar – óbreytt

Mötuneyti leik- og grunnskóla – ný gjaldskrá

Hundahald – óbreytt

Sorphirða – hækkun 3%

Hreinsun, tæming og losun rotþróa – hækkun  3%

Hitaveita – hækkun  3%

Brunavarnir – 3%

Gjaldskrár 2019 verða aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins að fundi loknum.

Framlagðar gjaldskrár Þingeyjarsveitar 2019 samþykktar samhljóða.

 

3.      Fjárhagsáætlun Þingeyjarsveitar 2019-2022: Seinni umræða -1810027

Fjárhagsáætlun Þingeyjarsveitar 2019-2022 lögð fram til síðari umræðu og afgreiðslu ásamt þeim breytingum sem gerðar hafa verið milli umræðna. Sveitarstjóri gerði grein fyrir fjárhagsáætluninni ásamt skrifstofustjóra sem sat fundinn undir þessum lið.

Í fjárhagsáætlun 2019 eru skatttekjur 945,8 m.kr. og heildar tekjur 1.163 m.kr. Rekstrarniðurstaða A hluta er jákvæð um 24 m.kr. og rekstrarniðurstaða A og B hluta er jákvæð um 18,3 m.kr. Veltufé frá rekstri er 68,7 m.kr. og áætlaðar fjárfestingar eru um 120,5 m.kr. Gert er ráð fyrir nýrri lántöku á árinu 2019 að fjárhæð 100 m.kr. en ekki var þörf á að taka 60 m.kr. lán sem áætlað var að taka á árinu 2018. Helstu fjárfestingar á næsta ári er flutningur leikskólans Barnaborgar yfir í Þingeyjarskóla og lokaframkvæmdir við Goðafoss. Í þriggja ára áætluninni er gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu A hluta og samstæðu A og B hluta öll árin og lækkun langtímaskulda. 

 

Áfram verður boðið uppá fríar máltíðir fyrir nemendur í grunn- og leikskóla sem og frí námsgögn. Frístundastyrkur barna og ungmenna verður hækkaður í 15.000 kr. Tekjumörk eldri borgara og öryrkja verða hækkuð í gjaldskrá heimþjónustu og við afsláttarkjör fasteignaskatts.

Fjárhagsáætlun 2019-2022 verður aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins að fundi loknum.

Framlögð fjárhagsáætlun Þingeyjarsveitar fyrir árin 2019-2022 samþykkt samhljóða.

 

4.      Skipulags- og umhverfisnefnd: Fundargerð frá 22.11.2018 -1804018

Lögð fram fundargerð 107. fundar Skipulags- og umhverfisnefndar frá 22. nóvember s.l. Jóna Björg gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í fimm liðum.

1. liður fundargerðar; Hólasandslína 3, beiðni um umsögn og kynning á frummatsskýrslu.

Sveitarstjórn tekur undir með Skipulags- og umhverfisnefnd um mikilvægi þess að kannaður verði möguleiki á því að leggja núverandi Kröflulínu 1 í jörð af sjónrænum ástæðum á þjóðvegi 1 á kaflanum frá Reykjadalsá og austur fyrir þjóðveg í landi Víða. Einnig telur sveitarstjórn að skoða eigi möguleika á því að fjarlægja núverandi Kröflulínu 1 sunnan við Ljótsstaði í Laxárdal og leggja hana á einu hafi í núverandi línustæði á svipaðan hátt og fyrirhugað er að gera við Hólasandslínu 3 ofar í dalnum. Sveitarstjórn óskar eftir að sá

möguleiki verði einnig kannaður að færa fyrirhugaða Hólasandslínu 3 sunnan við Illugastaði í Fnjóskadal til að forðast þverun á verndarsvæði við Illugastaðamela þannig að hún liggi á milli verndarsvæða.

2. liður fundargerðar; Jökulsá á Fjöllum, tillaga að friðlýsingu vatnasviðs.  

Sveitarstjórn tekur undir með Skipulags- og umhverfisnefnd og leggst ekki gegn friðlýsingu svæðisins og vísar erindinu einnig til umsagnar í Náttúruverndarnefnd Þingeyinga.

3. liður fundargerðar; Þingey og Skuldaþingsey, deiliskipulag.

Sveitarstjórn samþykkir deiliskipulagstillöguna svo breytta þar sem komið hefur verið til móts við innsendar athugasemdir og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að annast gildistöku deiliskipulagstillögunnar eins og skipulagslög nr. 123/2010 mæla fyrir um.

 4. liður fundargerðar; Vaglaskógur, breyting á deiliskipulagi.

Sveitarstjórn samþykkir að fela skipulags- og byggingarfulltrúa að auglýsa breytingartillöguna skv. bókun Skipulags- og umhverfisnefndar eins og 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um.

5. liður fundargerðar; Skógar, breyting á deiliskipulagi.

Sveitarstjórn samþykkir breytingu á deiliskipulagi þar sem komið hefur verið til móts við athugasemdir Skipulagsstofnunar og felur skipulags- og byggingarfulltrúa málsmeðferð vegna gildistöku breytingartillögunnar eins og skipulagslög nr. 123/2010 mæla fyrir um.  

 

5.      Félags- og menningarmálanefnd: Fundargerð frá 27.11.2018 -1804034

Lögð fram fundargerð 60. fundar Félags- og menningarmálanefndar frá 27. nóvember s.l. Hanna Jóna gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í fjórum liðum.

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina.

 

6.      Fræðslunefnd: Fundargerðir frá 26.11.2018 og 27.11.2018 -1804052 

Lagðar fram fundargerðir 73. og 74. fundar Fræðslunefndar frá 26. og 27. nóvember s.l.  Margrét gerði grein fyrir fundargerðunum sem báðar eru í sjö liðum.

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðirnar.

 

7.      Skútustaðahreppur: Samkomulag -1811039

Sveitarstjóri lagði fram undirritað samkomulag milli Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps um aðgengi barna og ungmenna í Skútustaðahreppi að sundlauginni á Laugum.

Sveitarstjórn staðfestir samkomulagið.

 

8.      Framhaldsskólinn á Laugum: Samstarfssamningur-1811041

Sveitarstjóri lagðir fram samstarfssamning milli Þingeyjarsveitar og Framhaldsskólann á Laugum um sameiginlegan starfsmann íþróttahúss og sundlaugar.

Sveitarstjórn staðfestir samstarfssamninginn.

 

9.      Bólusetning sauðfjár til varnar garnaveiki -1812002

Tekin til umræðu bólusetning sauðfjár til varnar garnaveiki.

Sveitarstjórn samþykkir að endurgreiða kostnað bóluefnis til bænda sem bólusetja sitt sauðfé til varnar garnaveiki fyrir 10. nóvember ár hvert.

Jóna Björg, Hanna Jóna og Ásvaldur tóku ekki þátt í afgreiðslu þessa liðar vegna vanhæfis.  

           

10.  Ferðaþjónustan Brekka: Umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi -1811045

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, dags. 22.11.2018 þar sem Reynir B. Ingvason, forsvarsmaður Ferðaþjónustunnar Brekku ehf., sækir um rekstrarleyfi, flokkur IV– Gististaður með áfengisveitingum,  í Brekku, Þingeyjarsveit.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við veitt rekstrarleyfi með fyrirvara um að jákvæðar umsagnir berist frá skipulags- og byggingarfulltrúa og heilbrigðis- og eldvarnareftirlitinu, sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 67/2016, um breytingu á lögum nr. 85/2007.

 

11.  Veiðifélag Fnjóskár: Aðalfundarboð -1811047

Lagt fram aðalfundarboð Veiðifélags Fnjóskár sem haldinn var 3. desember s.l. í Skógum í Fnjóskadal. Samþykkt var með tölvupósti milli funda að Margrét Bjarnadóttir færi með umboð Þingeyjarsveitar á fundinum.

Sveitarstjórn staðfestir afgreiðsluna.

 

12.  Landgræðsla ríkisins: Bændur græða landið -1811048

Tekið fyrir erindi frá Daða L. Friðrikssyni f.h. Landgræðslu ríkisins, dags. 26.11.2018 þar sem óskað er eftir styrk að upphæð kr. 300.000 kr. vegna samstarfsverkefnisins „Bændur græða landið“ og annarra verkefna í Þingeyjarsveit 2018.

Sveitarstjórn samþykkir styrk til verkefnisins að fjárhæð 300.000 kr. Útgjöld rúmast innan gildandi fjárhagsáætlunar 2018. Jóna Björg og Margrét tóku ekki þátt í afgreiðslu undir þessum lið vegna vanhæfis.

 

13.  Landsvirkjun: Samkomulag um lok uppgræðsluaðgerða -1811042

Samkomulag milli Landsvirkjunar og uppgræðslunefndar Þingeyjarsveitar um lok uppgræðsluaðgerða á Þeistareykjum – lagt fram til kynningar.

 

14.  Eyþing: Fundargerð

Fundargerð 314. fundar stjórnar Eyþings  – lögð fram til kynningar. 

Fleira ekki gert og fundi slitið 15:05