236. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022

17.05.2018

236. fundur

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022

haldinn í Kjarna fimmtudaginn 17. maí kl. 13:00

Fundarmenn

Arnór Benónýsson
Margrét Bjarnadóttir
Ásvaldur Ævar Þormóðsson
Árni Pétur Hilmarsson
Heiða Guðmundsdóttir
Ragnar Bjarnason
Sigurður Hlynur Snæbjörnsson

Starfsmenn

Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri 

Fundargerð ritaði: Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri

Oddviti setti fund. Hann óskaði eftir að bæta einu máli á dagskrá með afbrigðum undir 5. lið;

1804018 – Skipulags- og umhverfisnefnd: Fundargerð frá 16.05.2018. Aðrir liðir færast neðar á dagskrá sem því nemur.

Sigurður Hlynur Snæbjörnsson lagði fram breytingatillögu, að fresta afreiðslu fundargerðar skipulags- og umhverfisnefndar fram yfir kosningar.

Samþykkt að taka málið fyrir með afbrigðum með fimm atkvæðum fulltrúa A lista gegn tveimur atkvæðum fulltrúar T lista.

 

Dagskrá:

1. Húsnæðismál - 1804010

Umræðu um húsnæðismál í sveitarfélaginu framhaldið. Til fundarins mætti Kári Arnór Kárason f.h. Hámarks ehf. til þess að ræða innihald skýrslu sem lögð var fram á síðasta fundi sveitarstjórnar 3.05.2018 um möguleika þess að auka framboð á íbúðarhúsnæði í Þingeyjarsveit.

Sveitarstjórn þakkar Kára Arnóri fyrir greinargerðina og felur sveitarstjóra að vinna málið áfram í samráði við KPMG. Ragnar Bjarnason sat hjá við afgreiðslu þessa liðar.

 

2. Kjörskrá vegna sveitarstjórnarkosninga 2018 - 1805015

Kjörskrá vegna sveitarstjórnarkosninganna 26. maí n.k. lögð fram og yfirfarin. Á kjörskrá eru 676 aðilar. Kjörskráin mun liggja frammi á skrifstofu sveitarfélagsins, almenningi til sýnis, frá og með 16. maí 2018 til kjördags, sbr. 9. gr. laga nr. 5/1998.

Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að undirrita kjörskrána og veitir henni fullnaðarheimild til að gera leiðréttingar og úrskurða um ágreiningsmál sem kunna að koma upp fram að kjördegi vegna sveitarstjórnarkosninganna í samræmi við 10. gr. laga nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna.

 

3. Fjárframlag til framboða - 1805016

Tekið til umræðu framlög til stjórnmálasamtaka frá sveitarfélögum. Skv. 5. gr. laga nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, er sveitarfélögum með fleiri en 500 íbúa skylt að veita stjórnmálasamtökum, sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn í sveitarstjórn eða hlotið a.m.k. 5% atkvæða í næstliðnum sveitarstjórnarkosningum, fjárframlög til starfsemi sinnar.

Oddviti lagði fram tillögu um að framlag til framboða yrði 80 þús.kr. til hvors framboðs í Þingeyjarsveit fyrir árið 2018.

Ragnar Bjarnason lagði fram breytingartillögu um að framlag til framboða yrði 50 þús.kr.

Tillaga oddvita samþykkt með fimm atkvæðum fulltrúum A lista. Ragnar Bjarnason greiddi atkvæði á móti. Sigurður Hlynur Snæbjörnsson sat hjá við afgreiðslu þessa liðar. Útgjöld rúmast innan gildandi fjárhagsáætlunar 2018.

 

4. Fræðslunefnd: Fundargerð frá 07.05.2018 - 1804052

Lögð fram fundargerð 70. fundar Fræðslunefndar frá 7. maí s.l. Margrét gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í sex liðum.

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina.

 

5. Skipulags- og umhverfisnefnd: Fundargerð frá 16.05.2018 - 1804018

Lögð fram fundargerð 102. fundar Skipulags- og umhverfisnefndar frá 16. maí s.l. Ásvaldur gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í átta liðum.

1. liður fundargerðar; Rangá, breyting á deiliskipulagi.

Sveitarstjórn samþykkir tillöguna og felur skipulags- og byggingarfulltrúa málsmeðferð vegna gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar eins og skipulagslög nr. 123/2010 mæla fyrir um.

3.   liður fundargerðar; Þverá land í Dalsmynni, afmörkun landeignar, landskipti og nýtt heiti.

Sveitarstjórn samþykkir erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að tilkynna umræddar leiðréttingar og breytingar til Þjóðskrár og annast málsmeðferð vegna landskiptanna eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.

4. liður fundargerðar; Hlíðskógar í Bárðardal, umsókn um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar.

Sveitarstjórn staðfestir ekki afgreiðslu nefndarinnar þar sem fullnægjandi gögn liggja ekki fyrir.

5. liður fundargerðar; Eyjadalsvirkjun, umsókn um heimild til skipulagsgerðar og ósk um breytingu á aðalskipulagi.

Sveitarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar að boðað verði til almenns kynningarfundar í samstarfi við umsækjanda þar sem fyrirhuguð virkjunaráform skv. innkominni skipulags- og matslýsingu verði kynnt fyrir íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum, áður en erindið verður tekið til frekari umfjöllunar í nefndinni.

7. liður fundargerðar; Efnistökusvæði E-41 á Fljótheiði, umsókn um framkvæmdaleyfi.

Sveitarstjórn samþykkir umsóknina og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að  gefa út framkvæmdaleyfið eins og reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi mælir fyrir um.

8. liður fundargerðar; Umhverfi Goðafoss, umsókn um framkvæmdaleyfi.

Sveitarstjórn samþykkir umsóknina og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfið eins og reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi mælir fyrir um.

Ragnar Bjarnason lagði fram eftirfarandi bókun varðandi 4 og 6 lið fundargerðar:

„Ég tel að sú skilgreining að skógrækt í samræmi við skógræktarsamninga falli í C-flokk skv. 1. viðauka gr. 1.07 laga nr. 106/2000 sé of þröng og íþyngjandi. Ég tel að sveitarstjórn eigi að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir viðkomandi skógræktaráformum.“

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina að öðru leyti.

 

6. Nestorfan ehf.: Umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi -1805005

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, dags. 8.05.2018 þar sem Árni Pétur Hilmarsson, forsvarsmaður Nestorfunnar ehf., sækir um rekstrarleyfi, flokkur III – gististaður með veitingum en þó ekki áfengisveitingum, í Veiðiheimilinu Árnesi í Aðaldal.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við veitt rekstrarleyfi með fyrirvara um að jákvæðar umsagnir berist frá skipulags- og byggingarfulltrúa og heilbrigðis- og eldvarnareftirlitinu, sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 67/2016, um breytingu á lögum nr. 85/2007.

Árni Pétur Hilmarsson tók ekki þátt í afgreiðslu þessa liðar vegna vanhæfis.

 

7. Gamla búðin í Vaglaskógi - 1805014 

Gamla búðin í Vaglaskógi tekin til umræðu.

Sveitarstjórn samþykkir að fela umsjónarmanni fasteigna og framkvæmda að láta fjarlægja húsið og ummerki þess í samráði við skógrækt ríkisins.  

 

8. Iðjugerði 1: Kaupsamningur - 1805013

Lagður fram kaupsamningur milli Þingeyjarsveitar og Hjálparsveitar skáta Aðaldal í framhaldi af erindi sem samþykkt var í sveitarstjórn þann 1.02.2018, þar sem hjálparsveitin óskaði eftir því að kaupa húsnæði sveitarfélagsins, Iðjugerði 1 í Aðaldal.

Sveitarstjórn samþykkir kaupsamninginn og felur sveitarstjóra að skrifa undir hann.

Sigurður Hlynur Snæbjörnsson yfirgaf fundinn eftir afgreiðslu þessa liðar.

 

9. KIP: Samningur um rekstrarþjónustu - 1805004

Sveitarstjóri lagði fram samning um rekstrarþjónustu við Kristinn Inga Pétursson (KIP) sem snýr að alhliða umsjón tölvumála hjá Þingeyjarsveit, viðhaldi og rekstri á Office365, netþjónum og notendagrunnum.  Samningurinn lagður fram til kynningar.

 

10. Skjalastefna Þingeyjarsveitar - 1805012

Sveitarstjóri lagði fram drög að skjalastefnu Þingeyjarsveitar. Tilgangur stefnunnar er að setja ramma um meðferð skjala hjá Þingeyjarsveit og lýsa ábyrgð starfsmanna.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi skjalastefnu Þingeyjarsveitar.  

 

11. Samband íslenskra sveitarfélaga: Fundargerðir - 1804006

Fundargerð 859. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga dags. 27.04.2018 lögð fram til kynningar.

 

12. Eyþing: Fundargerðir - 1804005

Fundargerð 305. fundar stjórnar Eyþings dags. 2.05.2018 lögð fram til kynningar.  

 

Í lok fundar þakkaði oddviti, Arnór Benónýsson, sveitarstjórnarfulltrúum og sveitarstjóra fyrir   gott samstarf á liðnu kjörtímabili. Arnór þakkaði Ragnari og Heiðu sérstaklega fyrir   samstarfið þar sem það er ljóst að þau munu ekki taka sæti í næstu sveitarstjórn.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:20