235. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn

03.05.2018

235. fundur

haldinn í Kjarna fimmtudaginn 03. maí kl. 13:00

Fundarmenn

Arnór Benónýsson
Margrét Bjarnadóttir
Árni Pétur Hilmarsson
Heiða Guðmundsdóttir
Ketill Indriðason í forföllum Ragnars Bjarnasonar
Sigurður Hlynur Snæbjörnsson
Ásvaldur Ævar Þormóðsson forfallaðist á síðustu stundu

Starfsmenn

Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri 

Fundargerð ritaði: Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri

Oddviti setti fund. Hann óskaði eftir að bæta einu máli á dagskrá með afbrigðum:

18005002 – Leigufélag Hvamms ehf.: Ósk um áframhaldandi stuðning við félagið.

Samþykkt samhljóða að bæta málinu á dagskrá undir 17. lið.

 

Dagskrá: 

1. Ársreikningur Þingeyjarsveitar 2017: Seinni umræða - 1804017

Ársreikningur Þingeyjarsveitar 2017 ásamt endurskoðunarskýrslu lagður fram til síðari umræðu. Einnig lagt fram ábyrgða- og skuldbindingayfirlit til staðfestingar.

Sveitarstjórn lýsir ánægju sinni með niðurstöður ársreiknings fyrir árið 2017 sem staðfestir að verulegur árangur hefur náðst í rekstri sveitarfélagsins á kjörtímabilinu. Sérstaklega er ánægjulegt hversu vel gjaldaáætlun stenst. Þetta sýnir að hagræðing, aðhald og agi í fjármálum sveitarfélagins er grunnur þessa góða rekstur. Sveitarstjórn þakkar sveitarstjóra og öllu öðru starfsfólki sveitarfélagsins fyrir að hafa lagt hér hönd á plóg. Án þeirra framlags hefði þessi árangur ekki náðst.

Ljóst er að jafnvægi er komið á í rekstrinum og því kominn grunnur að frekari sókn til framtíðar.

Ársreikningur Þingeyjarsveitar 2017 samþykktur samhljóða og undirritaður. Ábyrgða- og skuldbindingayfirlit staðfest og undirritað. Ársreikningur ásamt endurskoðunarskýrslu verður aðgengilegur á heimasíðu sveitarfélagsins.

 

2. Rekstraryfirlit sveitarfélagsins: Fyrstu þrír mánuðir ársins - 1804046

Lagt fram rekstraryfirlit sveitarfélagsins fyrstu þrjá mánuði ársins, samanborið við fjárhagsáætlun 2018. Sveitarstjóri gerði grein fyrir stöðunni sem heilt yfir er samkvæmt áætlun.

 

3. Greið leið ehf.: Aðalfundarboð - 1804043

Lagt fram aðalfundarboð Greiðrar leiðar ehf. sem haldinn verður 11. maí n.k. í aðstöðu Vaðlaheiðarganga hf., við gangamunnan í Eyjafirði.

Samþykkt að Margrét Bjarnadóttir fari með umboð Þingeyjarsveitar á fundinum.

 

4. Skákfélagið Hrókurinn: Styrkbeiðni - 1804030

Fyrir fundinum liggur erindi frá Hrafni Jökulssyni f.h. Skákfélagsins Hróksins, dags. 12.04.2018 þar sem hann óskar eftir styrk að upphæð 25 – 150 þús.kr. í tilefni af afmæli og heimsókn skákfélagsins í öll sveitarfélög landsins 2018. 

Sveitarstjórn samþykkir styrk að fjárhæð 50 þús.kr. til verkefnisins en útgjöld rúmast innan gildandi fjárhagsáætlunar 2018.  

 

5. Hrannar Gylfason: Beiðni - 1804045

Lögð fram beiðni frá Hrannari Gylfasyni, dags. 27.04.2018, um bætta aðstöðu til íþróttaiðkunar í Ýdölum með kaupum á búnaði.

Samþykkt að vísa beiðninni til Fræðslunefndar.   

 

6. Húsnæðismál - 1804010

Lögð fram skýrsla, unnin af Hámarki ehf. um möguleika þess að auka framboð á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu. 

Sveitarstjórn samþykkir að fá Kára Arnór Kárason, höfund skýrslunnar, á næsta fund sveitarstjórnar og ræða innihald hennar enn frekar.

 

7. Leikskólinn Barnaborg - 1804047

Við gerð fjárhagsáætlunar 2018 samþykkti sveitarstjórn að skoða mögulegan flutning Barnaborgar inn í Þingeyjarskóla og var sveitarstjóra falið það verkefni. Í framhaldinu hélt sveitarstjóri þrjá fundi með skipulags- og byggingarfulltrúa, umsjónarmanni fasteigna og framkvæmda hjá sveitarfélaginu, skólastjóra Þingeyjarskóla og deildarstjóra Barnaborgar til

þess að ræða þessi mál. Markmiðið var að fá upp hvaða möguleikar væru í stöðunni, út frá verklegum framkvæmdum og faglegum sjónarmiðum.  Sveitarstjóri lagði fram fundargerðir og gerði grein fyrir þeim. Niðurstaða starfshópsins er að út frá þeim kostum sem hafa verið til umræðu sé fýsilegast að skoða kjallararými í suðurenda kennsluálmu Þingeyjarskóla þar sem nú er ónotað rými. Starfshópurinn leggur til við sveitarstjórn að sá kostur verði skoðaður nánar með því að vinna forhönnun og kostnaðaráætlun sem lögð verðir fram til afgreiðslu í sveitarstjórn í haust 2018.

Sveitarstjórn samþykkir tillögur starfshópsins og felur sveitarstjóra að vinna málið áfram.

 

8. Veiðifélag Laxár og Krákár: Umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi - 1804044

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, dags. 26.04.2018 þar sem Anna Gerður Guðmundsdóttir, forsvarsmaður Veiðifélags Laxár og Krákár, sækir um rekstrarleyfi, flokkur IV – gististaður með áfengisveitingum, að Rauðhólum í Laxárdal.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við veitt rekstrarleyfi með fyrirvara um að jákvæðar umsagnir berist frá skipulags- og byggingarfulltrúa og heilbrigðis- og eldvarnareftirlitinu, sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 67/2016, um breytingu á lögum nr. 85/2007.

 

9. Varastjórn Mjólkurdeildar Aðaldæla: Gjöf  - 1804040

Fyrir fundinum liggur bréf um bókun frá fundi varastjórnar Mjólkurdeildar Aðaldæla, sem haldinn var 10.04.2018. Tilefni fundarins var að ganga frá endalegu uppgjöri deildarinnar  sem var kr. 119.325 og samþykkt var að verja þeim fjármunum til Ýdala til að gera handrið úr forstofu og niður í kjallara.

Sveitarstjórn þakkar varastjórn Mjólkurdeildar Aðaldæla fyrir gjöfina sem verður varið til þessa verkefnis sem lagt er til.

 

10. Félags- og menningarmálanefnd: Fundargerð frá 09.04.2018 - 1804034

Lögð fram fundargerð 57. fundar Félags- og menningarmálanefndar frá 9. apríl s.l. Heiða gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í fjórum liðum.

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina.

 

11. Fræðslunefnd: Fundargerð frá 30.04.2018 - 1804052

Lögð fram fundargerð 69. fundar Fræðslunefndar frá 30. apríl s.l. Margrét gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í fimm liðum.

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina.

 

12. Vaðlaheiðargöng: Samningur - 1804032

Lagður fram samningur um framlag Vaðlaheiðarganga hf. til búnaðarkaupa hjá Slökkviliði Akureyrar og Brunavörnum Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar vegna Vaðlaheiðarganga. Vaðlaheiðargöng hf. skuldbinda sig til að veita slökkviliðunum framlag að fjárhæð 80 m.kr. vegna Vaðlaheiðarganga. Framlag að fjárhæð 40 m.kr. fara til Brunavarna Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar sem verður varið til búnaðarkaupa vegna ganganna.

Sveitarstjórn staðfestir samninginn.  

 

13. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða: Samningur -1804042

Lagður fram samningur um styrk frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til Þingeyjarsveitar vegna endurbóta á umhverfi við Goðafoss. Styrkupphæðin er að fjárhæð 74 m.kr. sem varið verður til verkefnisins.

Sveitarstjórn staðfestir samninginn og felur sveitarstjóra að skrifa undir hann.

 

14. Mannvirkjastofnun: Úttektir slökkviliða - 1804037 

Fyrir fundinum liggur úttekt frá Mannvirkjastofnun á slökkviliði Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps, dags. 18.04.2018. Arnór gerði grein fyrir úttektinni ásamt gátlista og yfirliti fyrir þau atriði sem þarfnast úrbóta.

Sveitarstjórn staðfestir úttektina.

 

15. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið: Skipan í nefnd – 1804033

Fyrir fundinum liggur skipunarbréf frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, dags. 20.04.2018 þar sem ráðherra skipar Dagbjörtu Jónsdóttur í þverpólitíska nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Hlutverk nefndarinnar er m.a. að skilgreina mörk þjóðgarðsins og setja fram áherslur um skiptingu landssvæða innan hans í verndarflokka. Gert er ráð fyrir að nefndin skili ráðherra tillögu sinni í formi skýrslu og tillögu að lagafrumvarpi um þjóðgarðinn eigi síðar en 1. september 2019.

Nefndin er þannig skipuð:

Óli Halldórsson, formaður, skipaður án tilnefningar

Líneik Anna Sævarsdóttir, tilnefnd af þingflokki Framsóknarflokks

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, tilnefnd af þingflokki Samfylkingar

Halldóra Mogensen, tilnefnd af þingflokki Pírata

Bergþór Ólason, tilnefndur af þingflokki Miðflokks

Ólafur Ísleifsson, tilnefndur af þingflokki Flokki fólksins

Hanna Katrín Friðriksson, tilnefnd af þingflokki Viðreisnar

Steingrímur J. Sigfússon, tilnefndur af þingflokki Vinstrihreyfingar – græns framboðs

Vilhjálmur Árnason, tilnefndur af þingflokki Sjálfstæðisflokks

Valtýr Valtýsson og Dagbjört Jónsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga

Margrét Hallgrímsdóttir, tilnefnd af forsætisráðuneyti

Starfsmaður nefndarinnar er Steinar Kaldal, verkefnisstjóri frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Sveitarstjórn lýsir ánægju sinni með að sveitarstjórinn skuli vera skipaður í þessa nefnd og væntir góðs af störfum hennar þar. Sveitarstjórnin telur mikilvægt að rödd dreifbýlla sveitarfélaga heyrist í þessari vinnu. 

 

16. Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar: Ársfundur

Lagt fram aðalfundarboð Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar sem haldinn var 2. maí s.l. í í aðalstöðvum miðstöðvarinnar að Þórsstíg 4 á Akureyri. Samþykkt var með tölvupósti milli funda að Margrét Bjarnadóttir færi með umboð Þingeyjarsveitar á fundinum.

Sveitarstjórn staðfestir afgreiðsluna.  

 

17. Leigufélag Hvamms ehf.: Ósk um áframhaldandi stuðning við félagið

Viðvarandi taprekstur hefur verið hjá Leigufélaginu Hvammi á liðnum árum og miðað við fjárhagsáætlun félagsins fyrir árið 2018 verður áfram tap á rekstri þess. Samkvæmt fyrirliggjandi ársreikningi fyrir árið 2017 kemur fram í efnahagsreikningi félagsins að eigið fé félagsins er neikvætt um 45,9 m.kr., sem að mestu er tilkomið vegna virðisrýrnunar á fasteignum félagsins á árinu 2014. Eiginfjárhlutfall félagsins er neikvætt um 26,21% auk þess sem veltufjárhlutfall félagsins í árslok er einungis 0,24. Félagið reiðir sig því á stuðning frá eigendum sínum til að tryggja áframhaldandi rekstrarhæfi félagsins a.m.k. út yfirstandandi rekstrarár (2018).
Þess er því óskað að eigendur félagsins lýsi því yfir skriflega að þeir muni styðja við félagið a.m.k. út yfirstandandi rekstrarár og þar með leggja grunn að forsendum reikningsskila félagsins sem miðast við áframhaldandi rekstur. Stjórnendur félagsins munu á núverandi rekstrarári áfram leita leiða til þess að finna lausn á viðvarandi taprekstri félagsins.

Eignarhlutur Þingeyjarsveitar í Leigufélagi Hvamms ehf. er 16,16%.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að sveitarfélagið styðji við félagið út yfirstandandi rekstrarár.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:04