234. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn

18.04.2018

234. fundur

haldinn í Kjarna miðvikudaginn 18. apríl kl. 15:00

Fundarmenn

Arnór Benónýsson
Margrét Bjarnadóttir
Ásvaldur Ævar Þormóðsson
Eiður Jónsson í forföllum Árna Péturs Hilmarssonar
Nanna Þórhallsdóttir í forföllum Heiðu Guðmundsdóttur
Ragnar Bjarnason
Sigurður Hlynur Snæbjörnsson

Starfsmenn

Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri 

Fundargerð ritaði: Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri

Oddviti setti fund. Hann óskaði eftir að bæta einu máli á dagskrá með afbrigðum:

1804025 - Stóratunga: Umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi.

Samþykkt samhljóða að bæta málinu á dagskrá undir 10. lið og aðrir liðir færast neðar á dagskrá sem því nemur.

 

Dagskrá:

1.      Ársreikningur Þingeyjarsveitar 2017: Fyrri umræða - 1804017

Ársreikningur Þingeyjarsveitar 2017 ásamt endurskoðunarskýrslu lagður fram til fyrri umræðu. Þorsteinn Þorsteinsson endurskoðandi sveitarfélagsins mætti til fundarins og fór yfir reikninginn. Einnig sat skrifstofustjóri fundinn undir þessum lið.

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt rekstrarreikningi ársins 2017 var jákvæð um 107,1 millj.kr. fyrir A og B hluta, þar af 106,3 m.kr. í A hluta. Samkvæmt fjárhagsáætlun 2017 með viðaukum var gert ráð fyrir 2,8 m.kr. jákvæðri rekstrarniðurstöðu. Frávikið skýrist af hærri skatttekjum en áætlað var sem og aðhaldi í rekstri.

Rekstrartekjur A og B hluta námu 1.113,2 m.kr. á árinu 2017 samanborið við 1.028,1 m.kr. árið áður sem er aukning um 8% milli ára. Rekstrargjöld A og B hluta, þ.e. laun og launatengd gjöld og annar rekstrarkostnaður námu 944,4 m.kr. á árinu 2017 samanborið við 914,6 m.kr. árið áður sem er 3% aukning milli ára.  

Samkvæmt sjóðsstreymisyfirliti ársins 2017 nam veltufé frá rekstri 147 m.kr. á árinu samanborið við 92,7 m.kr. á fyrra ári. Handbært fé frá rekstri nam 154,8 m.kr. á árinu samanborið við 38,5 m.kr. á fyrra ári. Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum nam 129,2 m.kr. á árinu.

Eigið fé nam 311,1 m.kr. í árslok, samanborið við 202,7 m.kr. árið áður. Breytingin skýrist af afkomu ársins og endurmati lóða. Eiginfjárhlutfall nemur 35% í árslok. Skuldahlutfall sveitarfélagsins fer lækkandi, er 51% í A og B hluta í árslok 2017 en var 58,3% í árslok 2016.

Sveitarstjórn þakkar starfsfólki Þingeyjarsveitar góðan árangur í rekstri sveitarfélagsins og vísar ársreikningi 2017 til seinni umræðu í sveitarstjórn.

Fulltrúar T-lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

Við fulltrúar T-lista lýsum ánægju okkar með það hversu ytri aðstæður virðast hafa verið sveitarfélaginu hagfelldar á árinu 2017.

 

2.      Sparisjóður Suður-Þingeyinga ses.: Aðalfundarboð - 1804008

Lagt fram aðalfundarboð Sparisjóðs Suður Þingeyinga ses. sem haldinn var 17. apríl s.l. í Ljósvetningabúð. Samþykkt var með tölvupósti milli funda að sveitarstjóri færi með umboð Þingeyjarsveitar á fundinum.

Sveitarstjórn staðfestir afgreiðsluna.  

 

3.      Veiðifélag Skjálfandafljóts: Aðalfundarboð - 1804022

Lagt fram aðalfundarboð Veiðifélags Skjálfandafljóts sem haldinn verður 26. apríl n.k. í Ljósvetningabúð.

Samþykkt að Árni Pétur Hilmarsson fari með umboð Þingeyjarsveitar á fundinum.

 

4.      Leigufélag Hvamms: Tilnefning fulltrúa á hluthafafund - 1804024

Óskað hefur verið eftir því að sveitarfélagið tilnefni fulltrúa á hluthafafund Leigufélags Hvamms.

Samþykkt að oddviti fari með umboð Þingeyjarsveitar á fundinum.

 

5.      Félag sumarhúsaeigenda í Lundsskógi: Erindi - 1804009

Lagt fram erindi frá Sveini Björnssyni formanni, f.h. Félags sumarhúsaeigenda í Lundsskógi, dags. 26.03.2018 þar sem óskað er eftir viðræðum við sveitarstjórn um þjónustu sveitarfélagsins við sumarhúsabyggðina.

Samþykkt að fela sveitarstjóra að koma á fundi með Félagi sumarhúsaeigenda í Lundsskógi og fulltrúum sveitarstjórnar.

 

6.      Húsnæðismál - 1804010

Staða húsnæðismála í sveitarfélaginu tekin til umræðu, m.a. húsnæðisþörf, framboð og eftirspurn eftir leiguíbúðum og lóðum, hugsanlegt framlag og aðkoma sveitarfélagsins o.fl.

Oddviti lagði fram tillögu um að sveitarfélagið fengi ráðgjöf og úttekt á möguleikum í húsnæðismálum, greiningu á kostum í stöðunni og mögulegri aðkomu sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn samþykkir með sex atkvæðum að fá Hámark ehf. ráðgjöf til að vinna skýrslu um möguleika í húsnæðismálum og samþykkir 200 þ.kr. án vsk. til verkefnisins og þá upphæð sem viðauka við fjárhagsáætlun 2018 sem mætt verður með handbæru fé.

Ragnar Bjarnason sat hjá vegna ósættis við málsmeðferð.

Fulltrúar T lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

Við fulltrúar T-lista lýsum ánægju okkar og undrun á því að núverandi meirihluti skuli hugsanlega, mögulega, kannski ætla að reyna að ráða bót á viðvarandi langvinnum húsnæðisvanda í sveitarfélaginu korteri fyrir kosningar.

 

7.      Ný persónuverndarlög - 1804020

Sveitarstjóri fór yfir fyrirhugaða vinnu og undirbúning vegna nýrra persónuverndarlaga sem taka eiga gildi 25. maí 2018, mögulegt samstarf við Norðurþing og aðkomu Advania Advice við innleiðinguna. Áætlaður kostnaður verkefnistillögu er 444 þ.kr. fyrir utan vsk.

Sveitarstjórn samþykkir viðauka við fjárhagsáætlun 2018 að fjárhæð 444 þúsund vegna innleiðingar nýju persónuverndarlaganna sem mætt verður með handbæru fé.  

 

8.      Reglur Þingeyjarsveitar um kostnaðarþátttöku og leikskóladvöl barna utan lögheimilissveitarfélags - 1804019

Reglur Þingeyjarsveitar um kostnaðarþátttöku og leikskóladvöl barna utan lögheimilis sveitarfélags lagðar fram til samþykktar.

Reglurnar samþykkt með áorðnum breytingum með sex atkvæðum.

Ragnar Bjarnason greiddi atkvæði á móti og taldi málið illa ígrundað og illa unnið.

 

9.      Skipulags- og umhverfisnefnd: Fundargerð 101. fundar  - 1804018

Lögð fram fundargerð 101. fundar Skipulags- og umhverfisnefndar frá 8. mars. s.l. Ásvaldur gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í sex liðum.

4. liður fundargerðar: Arnstapanáma í Ljósavatnsskarði; Umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku.

Sveitarstjórn samþykkir erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfið skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.

6.   liður fundargerðar: Knútsstaðir; Umsókn um landskipti.  

Sveitarstjórn samþykkir lóðastofnunina og felur skipulags- og byggingarfulltrúa málsmeðferð vegna stofnunar lóðarinnar eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina að öðru leyti.

 

10.  Stóratunga: Umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi - 1804025

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, dags. 11.04.2018 þar sem Páll Kjartansson, forsvarsmaður Stórutungu, sækir um rekstrarleyfi, flokkur II – gististaður án veitinga, í Stórutungu í Bárðardal.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við veitt rekstrarleyfi með fyrirvara um að jákvæðar umsagnir berist frá skipulags- og byggingarfulltrúa og heilbrigðis- og eldvarnareftirlitinu, sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 67/2016, um breytingu á lögum nr. 85/2007.

 

11.  Héraðsnefnd Þingeyinga: Fundargerð 7. fundar - 1804023

Fundargerð 7. fundar framkvæmdastjórnar Héraðsnefndar Þingeyinga dags. 26.03.2018 lögð fram til kynningar.

 

12.  Eyþing: Fundargerð 304. fundar - 1804005

Fundargerð 304. fundar stjórnar Eyþings dags. 21.03.2018 lögð fram til kynningar.

 

13.  Samband íslenskra sveitarfélaga: Fundargerð 858. fundar -1804006

Fundargerð 858. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga dags. 23.03.2018 lögð fram til kynningar.

 

14.  Samtök orkusveitarfélaga: Fundargerð 31. fundar - 1804007

Fundargerð 31. fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga dags. 21.03.2018 lögð fram til kynningar.

 

15.  Markaðsstofa norðurlands: Flugklasinn - 1804011

Greinargerð um starf flugklasans Air66 20.10.2017-20.03.2018 lögð fram til kynningar.  

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:45