229. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022

18.01.2018

229. fundur

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til 2022

haldinn í Kjarna fimmtudaginn 18. janúar kl. 13:00

Fundarmenn

Arnór Benónýsson
Margrét Bjarnadóttir
Ásvaldur Ævar Þormóðsson
Heiða Guðmundsdóttir
Árni Pétur Hilmarsson
Ragnar Bjarnason
Sigurður Hlynur Snæbjörnsson

Starfsmenn

Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri 

Fundargerð ritaði: Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri

Oddviti setti fund.

Dagskrá:

  1. Sjálfbærniverkefnið á Norðausturlandi – kynning
  2. Konur upp á dekk – hagnýt fræðsla og samræðuþing um stjórnmál
  3. Bændur græða landið
  4. Fundargerð Skipulags- og umhverfisnefndar frá 11.01.2018
  5. Húsnæðisstefna og húsnæðisáætlun
  6. Aðgerðaráætlun gegn einelti, ofbeldi, kynferðislegri og kynbundinni áreitni

Til kynningar:

a)      Fundargerð 855. fundar stjórnar Samband íslenskra sveitarfélaga

b)     Fundargerð 301. fundar stjórnar Eyþings  

 

1. Sjálfbærniverkefnið á Norðausturlandi – kynning

Til fundarins mætti Helena Eydís Ingólfsdóttir til að kynna fyrir sveitarstjórn sjálfbærniverkefnið á Norðausturlandi. Umsjónarmaður fasteigna og framkvæmda sat fundinn undir þessum lið.

Sjálfbærniverkefnið á Norðausturlandi er vöktunarverkefni þar sem fylgst er með breytingum á samfélagi, umhverfi og efnahag á svæðinu frá Vaðlaheiði í vestri til og með Tjörneshreppi í austri. Það svæði er talið verða fyrir mestum áhrifum af uppbyggingu og starfsemi Þeistareykjavirkjunar, iðnaði á Bakka og auknum umsvifum í ferðaþjónustu.

Að verkefninu standa Landsnet, Landsvirkjun, Norðurþing, Skútustaðahreppur, Þingeyjarsveit og Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri. Þekkingarnet Þingeyinga fer með verkefnisstjórn.

Sveitarstjórn þakkar fyrir góða kynningu á áhugaverðu verkefni.

 

2. Konur upp á dekk – hagnýt fræðsla og samræðuþing um stjórnmál

Akureyrar Akademían, Jafnréttisstofa og JCI sproti standa fyrir fræðslu „Konur upp á dekk! Hagnýt fræðsla og samræðuþing um stjórnmál“. Markmiðið er að hvetja konur til þátttöku í stjórnmálum og skapa vettvang þar sem m.a. er hægt að kynna sér stjórnsýsluna, sögu kvenna í stjórnmálum og stöðuna í dag. Einnig verður farið yfir áhrif #MeToo byltingarinnar, siðferði í stjórnmálum og samræðustjórnmál.

Aðstandendur viðburðarins leggja áherslu á að hægt sé að halda kostnaði þátttakenda í lágmarki og óska því eftir styrk frá Þingeyjarsveit til að halda fræðsluna.

Sveitarstjórn samþykkir styrk að fjárhæð kr. 50 þús. til viðburðarins og rúmast útgjöld innan gildandi fjárhagsáætlunar 2018. Jafnframt hvetur sveitarstjórn íbúa Þingeyjarsveitar til sækja viðburðinn og samþykkir að greiða þátttökugjald fyrir þá.  

 

3. Bændur græða landið

Tekið fyrir erindi frá Daða L. Friðrikssyni f.h. Landgræðslu ríkisins, dags. 13.11.2017 þar sem óskað er eftir styrk að upphæð kr. 330 þús. vegna samstarfsverkefnisins „Bændur græða landið“ og annarra verkefni í Þingeyjarsveit 2017.

Sveitarstjórn samþykkir erindið og styrk að fjárhæð kr. 330 þús. til verkefnisins en útgjöld rúmast innan gildandi fjárhagsáætlunar 2017. Margrét Bjarnadóttir tók ekki þátt í afgreiðslu undir þessum lið vegna vanhæfis.

 

4. Fundargerð Skipulags- og umhverfisnefndar frá 11.01.2018

Lögð fram fundargerð Skipulags- og umhverfisnefndar frá 11. janúar s.l. Ásvaldur gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í tveimur liðum.

1. liður fundargerðar; Hólsvirkjun, beiðni um umsögn.

Sveitarstjórn tekur undir með nefndinni og telur að gerð sé fullnægjandi grein fyrir fyrirhugaðri framkvæmd og umhverfi, umhverfisáhrifum og mati framkvæmda og ekki sé þörf á að kanna tiltekin atriði frekar. Sveitarstjórn tekur einnig undir með nefndinni að áskilja sér rétt til að setja nánari skilyrði um vöktun ákveðinna umhverfisþátta við útgáfu framkvæmdaleyfis.

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina að öðru leyti.

 

5. Húsnæðisstefna og húsnæðisáætlun

Tekin til umræðu gerð húsnæðisstefnu og húsnæðisáætlun, að sveitarfélagið setji sér slíka stefnu og áætlun. Umsjónarmaður fasteigna og framkvæmda mætti til fundarins undir þessum lið og fór yfir húsnæðisáætlun sveitarfélagsins sem er í vinnslu.

Ragnar yfirgaf fundinn að loknum þessum lið.

Sveitarstjóra falið að hefja vinnu við frumdrög að húsnæðisstefnu sveitarfélagsins.

 

6. Aðgerðaráætlun gegn einelti, ofbeldi, kynferðislegri og kynbundinni áreitni

Tekin til umræðu gerð aðgerðaráætlunar gegn einelti, ofbeldi, kynferðislegri og kynbundinni áreitni, að sveitarfélagið setji sér líka áætlun.

Sveitarstjóra falið að vinna drög að slíkri áætlun.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:24