226. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn

09.11.2017

226. fundur

haldinn í Kjarna fimmtudaginn 09. nóvember kl. 13:00

Fundarmenn

Arnór Benónýsson
Margrét Bjarnadóttir
Ásvaldur Ævar Þormóðsson
Heiða Guðmundsdóttir
Árni Pétur Hilmarsson
Ragnar Bjarnason
Sigurður Hlynur Snæbjörnsson

Starfsmenn

Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri 

Fundargerð ritaði: Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri

Oddviti setti fund.

 

Dagskrá:

 1. Hitaveitan á Stórutjörnum
 2. Heilsueflandi samfélag í Þingeyjarsveit – erindi
 3. Forsendur fjárhagsáætlunar 2018
 4. Fundargerð Fræðslunefndar frá 30.10.2017
 5. Fundargerð Skipulags- og umhverfisnefndar 02.11.2017
 6. Stígamót – fjárbeiðni 

 

Til kynningar:

a)      Fundargerð 853. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga

b)     Fundargerð 300. fundar stjórnar Eyþings

c)      Fundargerð 5. og 6. fundar framkvæmdastjórnar HNÞ bs.

d)     Flugklasinn Air66 – staðan 10.03.2017-19.10.2017

e)      Lokaskýrsla Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags grunnskóla kennara - samantekt samstarfsnefndar     

 

1. Hitaveitan á Stórutjörnum

Árna S. Sigurðsson hjá EFLU verkfræðistofu mætti til fundarins og kynnti niðurstöðu vinnu um frumathugun hitaveitu frá Stórutjörnum í Ljósavatnsskarði en samþykkt var á fundi sveitarstjórnar þann 26. október s.l. að fara betur yfir forsendur hugsanlegrar veitu samkvæmt minnisblaði.

Sveitarstjórn þakkar fyrir kynninguna og felur sveitarstjóra að vinna mál áfram í samstarfi við Árna hjá EFLU verkfræðistofu.

 

2. Heilsueflandi samfélag í Þingeyjarsveit – erindi

Lagt fram erindi frá Gunnhildi  Hinriksdóttur, dags. 3.11.2017 þar sem hún spyr hvort sveitarfélagið hafi einhverja stefnu á sviði lýðheilsu og forvarna og hvetur  hún sveitarstjórn til þess að innleiða verkefnið Heilsueflandi samfélaga frá Embætti landlæknis. Með erindinu fylgir stutt greinargerð og rökstuðningur fyrir því hvers vegna verkefnið Heilsueflandi samfélag er tækifæri fyrir Þingeyjarsveit.

Sveitarstjórn samþykkir með sex atkvæðum um að fela sveitarstjóra að svara erindinu og vinna málið áfram. Ragnar Bjarnason sat hjá. 

 

3. Forsendur fjárhagsáætlunar 2018

Forsendur fjárhagsáætlunar teknar til umræðu. Áætlað er að taka fjárhagsáætlun til næstu fjögurra ára til fyrri umræðu þann 23.11.2017 og til seinni umræðu og afgreiðslu þann 7.12.2017. Við gerð fjárhagsáætlunar er gengið út frá spám Hagstofu Íslands um efnahag þjóðarbúsins í heild. Hagstofan gerir ráð fyrir að verðbólga vaxi lítillega næstu tvö árin, verði 2,7% á næsta ári og 2,9% á þar næsta  og um 2,5% síðustu ár spátímabilsins. Gert er ráð fyrir að launavísitala hækki um 6,5% frá 2017 til 2018.

Sveitarstjórn samþykkir með vísan í 1. mgr. 23. gr. laga um tekjustofn sveitarfélaga nr. 4/1995 að álagningarhlutfall útsvars fyrir árið 2018 verði óbreytt eða 14,52% 

 

4. Fundargerð Fræðslunefndar frá 30.10.2017

Lögð fram fundargerð Fræðslunefndar frá 30. október s.l. Margrét gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í 6 liðum.

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina.

 

5. Fundargerð Skipulags- og umhverfisnefndar frá 02.11.2017

Lögð fram fundargerð Skipulags- og umhverfisnefndar frá 2. nóvember s.l. Ásvaldur gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í 4 liðum.

2. liður fundargerðar; Gistiþjónusta í þéttbýli, málsmeðferð vegna leyfisveitinga.

Sveitarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar að heimilt verði að reka takmarkaða gistiþjónustu í þéttbýli að teknu tilliti til ákvæða í kafla 4.3 Íbúðarsvæði í Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 þar sem aðstæður leyfa. Heimild til takmarkaðs gistirekstrar í íbúðarhverfum skal háð eftirfarandi ákvæðum:

 1. Heimild til reksturs takmarkaðrar gistiþjónustu í íbúðarbyggð miðast við „Minna gistiheimili“ skv. skilgreiningu í 9. gr. reglugerðar nr. 1277 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.  Hámarks fjöldi gesta allt að tíu.
 2. Sýslumaður gefur út rekstrarleyfi.
 3. Rekstraraðili skal hafa lögheimili í húsnæðinu.
 4. Rekstraraðili skal sækja um leyfi til sveitarfélagsins til breyttrar starfsemi í viðkomandi íbúðarhúsnæði.
 5. Með umsókn skal skila inn upplýsingum um áætlaðan fjölda gesta og nákvæmum teikningum af fyrirhuguðu útleiguhúsnæði þar sem gerð er grein fyrir skiptingu á íverurými rekstraraðila og útleigðu rými. Einnig skal gerð grein fyrir eldvörnum og flóttaleiðum og nægjanlegum fjölda bílastæða fyrir áætlaðan fjölda gesta innan lóðar.
 6. Byggingarfulltrúi skal kynna fyrir nágrönnum umsóknir um rekstur gistiþjónustu.
 7. Útleigt rými verður skilgreint sem atvinnuhúsnæði og innheimt verða af því fasteignagjöld skv. flokki C.

4. liður fundargerðar; Rangá, breyting á deiliskipulagi.

Sveitarstjórn samþykkir breytingatillöguna og felur skipulags- og byggingarfulltrúa málsmeðferð vegna gildistöku deiliskipulagsins eins og skipulagslög nr. 123/2010 mæla fyrir um.

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina að öðru leyti.

Heiða yfirgaf fundinn eftir afgreiðslu 5. liðar.

 

6. Stígamót – fjárbeiðni

Fyrir fundinum liggur fjárbeiðni frá Guðrúnu Jónsdóttur, talskonu Stígamóta, dags. 15.10.2017 þar sem skorað er á sveitarstjórnarfólk að forgangsraða í þágu velferðar íbúanna og taka þátt með því að styðja við starfsemina.

Ragnar lagði til að sveitarstjórn samþykkti að styrkja Stígamót um kr. 100.000. Samþykkt samhljóða.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:20