222. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn

14.09.2017

222. fundur

haldinn í Kjarna fimmtudaginn 14. september kl. 13:00

Fundarmenn

Arnór Benónýsson
Margrét Bjarnadóttir
Ásvaldur Ævar Þormóðsson
Heiða Guðmundsdóttir
Árni Pétur Hilmarsson
Ragnar Bjarnason
Sigurður Hlynur Snæbjörnsson

Starfsmenn

Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri

Fundargerð ritaði: Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri

Oddviti setti fund. Hann óskaði eftir að bæta á dagskrá undir 8. lið; Gistiþjónusta í þéttbýli.

Samþykkt samhljóða.

 

Dagskrá:

  1. Hólasandslína 3 – tillaga að matsáætlun
  2. Lausar byggingalóðir í sveitarfélaginu
  3. Erindi frá Skógræktinni 
  4. Rekstraryfirlit sveitarfélagsins fyrstu átta mánuði ársins
  5. Námsgögn grunnskólanemenda 2017-2018
  6. Fundargerð Félags- og menningarmálanefndar frá 31.08.2017
  7. Gatnagerðarframkvæmdir
  8. Gistiþjónusta í þéttbýli

 

Til kynningar:

a)      Fundargerð 298. fundar stjórnar Eyþings

b)     Fundargerð 852. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga

 

1. Hólasandslína 3 – tillaga að matsáætlun

Tekið fyrir erindi frá Skipulagsstofnun, dags. 26.08.2017, þar sem óskað er eftir umsögn Þingeyjarsveitar um tillögu að matsáætlun Hólasandslínu 3 í samræmi við 2. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2001. Skipulags- og byggingarfulltrúi sat fundinn undir þessum lið.

Umsög sveitarstjórnar:

Fyrirhuguð framkvæmd, tenging Hólasands og Akureyrar, Hólasandslína 3 og fyrirhugað línustæði er í samræmi við Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022 og Svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025 á svæði milli Laxár og sveitarfélagamarka Þingeyjarsveitar og Skútustaðhrepps.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar telur að tillagan geri nægjanlega grein fyrir framkvæmdinni og umhverfi hennar á þessu stigi og gerir ekki athugasemdir við þá umhverfisþætti sem matið á að taka til og að flestu leyti þá valkosti sem leggja á mat á, gagnaöflun sem fyrirhuguð er, hvernig standi til að vinna úr gögnum til að meta umhverfisáhrif og hvernig eigi að setja þau fram í frummatsskýrslu að teknu tilliti til 2. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000 og 17. gr. reglugerðar nr. 665/2015 um mat á umhverfisáhrifum. 

Sveitarstjórn telur mikilvægt að fleiri kostir varðandi lagningu jarðstrengs á línuleiðinni verði teknir til skoðunar bæði hvað varðar nýja Hólasandslínu 3 og núverandi Kröflulínu 1 eftir því sem tæknilegir möguleikar leyfa.

Sveitastjórn Þingeyjarsveitar er sammála niðurstöðum Landsnets um að ekki skuli leggja  mat á umhverfisáhrif „Laxárlínuleiðar“ m.a. af eftirtöldum ástæðum:

„Laxárlínuleið“ er ekki í samræmi við stefnu Þingeyjarsveitar í Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022.  Í aðalskipulagi er gert ráð fyrir að Hólasandslína 3 liggi samhliða núverandi Kröflulínu 1.

Sveitarstjórn leggur áherslu á að raforkulínur liggi í einu mannvirkjabelti eins og kostur er og að nýjar línur verði ekki lagðar á „óröskuðu“ landi.

„Laxárlínuleið“ yrði meira áberandi en „Kröflulínuleið“ þar sem hún myndi liggja að lengri hluta í byggð og um tún og gróið land.

Stór hluti línuleiðar „Kröfluleiðar“ er upp á heiðum.

Með tilkomu Hólasandslínu 3 í „Kröfluleið“ verður núverandi Laxárlína milli Akureyrar og Laxárstöðvar aflögð, sem að mati sveitarstjórnar mun valda mjög jákvæðum sjónrænum áhrifum.

Þingeyjarsveit er leyfisveitandi vegna útgáfu framkvæmdaleyfis sbr. reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 og ákvörðun um endanlegt línustæði er háð samþykki sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar.

 

2. Lausar byggingalóðir í sveitarfélaginu

Sveitarstjóri ásamt skipulags- og byggingarfulltrúa fór yfir skipulag íbúðasvæða á skilgreindum þéttbýlissvæðum í sveitarfélaginu. Um er að ræða svæði á Laugum, við Stórutjarnir og við Iðjugerði í Aðaldal. Samþykkt deiliskipulag íbúðarhúsalóða liggur fyrir á Laugum og við Stórutjarnir.

Sveitarstjórn felur sveitarstjóra og skipulags- og byggingarfulltrúa að auglýsa lausar byggingalóðir í sveitarfélaginu og hefja vinnu við deiliskipulag íbúðarhúsalóða við Iðjugerði í Aðaldal samkvæmt gildandi Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022.    

 

3. Erindi frá Skógræktinni

Tekið fyrir erindi frá Skógræktinni, dags. 05.07.2017 þar sem sveitarstjórn er tilkynnt um fyrirhugaðan skógræktarsamning á jörðinni Víðum í Þingeyjarsveit. Óskað er eftir afstöðu sveitarstjórnar hvort framkvæmdaleyfi í samræmi við reglugerð nr. 772/2012 sé krafist.

Skv. gr. 107 í 1. viðauka í lögum um mat á umhverfisáhrifum er nýræktun skóga á allt að 200 ha svæði sem breytir fyrri landnotkun háð mati á umhverfisáhrifum skv. flokki C um framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif  og metið er í hverju tilviki með tilliti  til eðlis umfangs og staðsetningar hvort háðar skuli mati á umhverfisáhrifum.

Framkvæmdir sem tilgreindar eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum eru ávallt háðar framkvæmdaleyfi. skv. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi.

Sveitarstjórn bendir umsækjanda á að sækja þarf sérstaklega um framkvæmaleyfi til Þingeyjarsveitar vegna fyrirhugaðra skógræktarframkvæmda á Víðum og ekki er heimilt að hefja framkvæmdir fyrr en framkvæmdaleyfi liggur fyrir.

 

4. Rekstraryfirlit sveitarfélagsins fyrstu átta mánuði ársins

Lagt fram rekstraryfirlit sveitarfélagsins fyrstu átta mánuði ársins, samanborið við fjárhagsáætlun 2017. Sveitarstjóri gerði grein fyrir stöðunni sem heilt yfir er samkvæmt áætlun.

 

5. Námsgögn grunnskólanemenda 2017-2018

Á fundi sveitarstjórnar þann 17.08.2017 vakti oddviti máls á að námsgögn grunnskólanemenda yrðu gjaldfrjáls og var sveitarstjóra falið að vinna að málinu. Sveitarstjóri gerði grein fyrir fundi sem hún átti með skólastjórum beggja grunnskólanna um útfærslu og í framhaldinu var leitað tilboða í námsgögn fyrir skólaárið 2017-2018.

Sveitarstjórn samþykkir að námsgögn verði gjaldfrjáls fyrir öll grunnskólabörn í sveitarfélaginu og samþykkir viðauka að fjárhæð kr. 540.000 við fjárhagsáætlun 2017, málaflokk 04 fræðslumál, sem mætt verður með handbæru fé. Sveitarstjórn vísar ákvörðun um gjaldfrjáls námsgögn til gerðrar fjárhagsáætlunar 2018-2021. 

 

6. Fundargerð Félags- og menningarmálanefndar frá 31.08.2017

Lögð fram fundargerð Félags- og menningarmálanefndar frá 31. ágúst s.l. Heiða gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í 5 liðum.

Varðandi 2. lið fundargerðar; Sundlaugin á Laugum þá felur sveitarstjórn sveitarstjóra að vinna kostnaðaráætlun vegna endurbóta á barnasvæði sundlaugarinnar.

Varðandi 3. lið fundargerðar; Erindi frá sveitarstjórn 22.08.2017, æskulýðs og íþróttafulltrúi, þá samþykkir sveitarstjórn tillögu nefndarinnar um að ganga til samninga við Héraðssamband Þingeyinga (HSÞ) um sameiginlegan starfsmann og vísar kostnaði vegna þessa til gerðrar fjárhagsáætlunar 2018. Sveitarstjóra falið að vinna málið áfram. Ragnar Bjarnason sat hjá við við afgreiðslu þessa liðar.

Fundargerðin staðfest að öðru leyti.  

 

7. Gatnagerðarframkvæmdir

Sveitarstjóri gerði grein fyrir aðkallandi gatnagerðaframkvæmdum, endurnýjun klæðningar  á götu og frágang við gangbrautir yfir þjóðveg 1 gegnum þéttbýliskjarnann á Laugum. Ekki var gert ráð fyrir þessum framkvæmdum í fjárhagsáætlun 2017 nema að litlu leiti.

Sveitarstjórn samþykkir með sex atkvæðum 1,8 millj.kr. til gatnagerðaframkvæmdanna og þá upphæð sem viðauka við fjárhagsáætlun 2017, málaflokk 10 umferðar- og samgöngumál, sem mætt verði með handbæru fé. Ragnar Bjarnason greiddi atkvæði á móti.

 

8. Gistiþjónusta í þéttbýli

Tekið til umræðu gistiþjónusta í þéttbýli og ný reglugerð nr. 1277 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Samþykkt að fela skipulags- og umhverfisnefnd að vinna tillögu að breytingu á aðalskipulagi svo heimilt verði að reka takmarkaða gistiþjónustu í skilgreindu þéttbýli.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:45